Morgunblaðið - 21.08.2020, Side 15

Morgunblaðið - 21.08.2020, Side 15
15 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 21. ÁGÚST 2020 Blíðviðri Það var eflaust margt vitlausara hægt að gera en að skella sér í hvalaskoðun frá Reykjavík í gær. Arnþór Birkisson Á Íslandi segjumst við búa í lýðræðisríki, sem virðir mannréttindi. Meginreglan um vernd þeirra kemur fram með ýmsum hætti í stjórn- skipan okkar og lögum. Þannig skiptum við rík- isvaldinu í þrjá valdþætti, löggjafarvald, fram- kvæmdarvald og dóms- vald. Til mannréttinda heyrir að ekki megi sakfella borgara fyrir refsiverða háttsemi, nema brot sé sann- að lögfullri sönnun, eftir að hinn sakaði hefur fengið að verja sig með því að tala máli sínu og véfengja málatilbúnað ákæranda, m.a. sönnunarfærslu sem hann hefur uppi. Það eru handhafar dómsvaldsins sem einir mega kveða upp úr um sök sak- aðra manna og þá að undangenginni lögfullri málsmeðferð. Nú er auðvitað ekki bannað í opnu upplýsingasamfélagi að flytja fréttir af málum, þar sem grunur kann að leika á að brotið hafi verið gegn refsilögum. Þeir sem þetta gera verða samt að gæta sín. Þeim ber skylda til að virða þær takmarkanir sem við öll búum við og fel- ast í að mega ekki fullyrða um sakir annarra borgara, án þess að um þær hafi verið fjallað fyrir dómi og þá með þeirri niðurstöðu að sök hins sakaða manns teljist sönnuð eftir að hann hefur notið óskerts réttar til að færa fram varnir sínar. Við verðum reglulega vör við að þess- ar einföldu meginreglur eru brotnar og þar með réttur þeirra sem fyrir sökum eru hafðir. Ég hygg að hér séu blaða- og frétta- menn í mestri áhættu um að brjóta af sér. Það freistar þeirra stundum að birta frásagnir af borgurum sem fela í sér dylgjur og jafnvel beinar fullyrð- ingar um lögbrot þeirra. Þeir slá sjálfa sig þá til riddara fyrir slíkt hátterni; kalla sig „rann- sóknarblaðamenn“ og gefa þá í skyn að þeir hafi höndlað sannleikann um afbrot og megi sakfella þann sem í hlut á, þó að alls ekki hafi verið fjallað um ætlaða sök hans með þeim hætti sem hið siðaða þjóðfélag krefst að gert sé. Almenningur gætir sín oft ekki á þessu. Menn taka þá oft undir svona sakfellingar og hrópa jafn- vel húrra fyrir hinum glaðbeitta ákær- anda. Svona „dómar“ eru oft mjög meiðandi fyrir þá sem fyrir sökum eru hafðir hvort sem þeir hafa brotið af sér eða ekki. Menn ættu að muna að þeir kunna sjálfir að verða fyrir barðinu á svona ásökunum og sakfellingum án þess að hafa fengið að njóta þess réttar sem lög mæla. Ég aðhyllist þá aðferð við sakfellingar sem réttarríkið beitir. Hvað um þig lesandi góður? Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson » Þeim ber skylda til að virða þær takmarkanir sem við öll búum við og felast í að mega ekki full- yrða um sakir annarra borgara, án þess að um þær hafi verið fjallað fyrir dómi og þá með þeirri nið- urstöðu að sök hins sakaða manns teljist sönnuð eftir að hann hefur notið óskerts réttar til að færa fram varnir sínar. Jón Steinar Gunnlaugsson Höfundur er lögmaður. Hvað um þig? Tvær athyglisverðar fréttir um hugsanlegar tengingar frá norð- lægum norskum bæj- um alla leið austur til Kína birtust nýlega á norsku vefsíðunni Bar- ents Observer þar sem vel er sagt frá því sem gerist hér fyrir norðan Ísland. Fyrri fréttin frá 6. ágúst snertir bæinn Narvík þar sem er í senn stórskipahöfn og járn- brautarstöð með tengingu til Sví- þjóðar og Finnlands. Bærinn kom mjög við sögu síðari heimsstyrjald- arinnar við hernám Þjóðverja á Nor- egi vegna misheppnaðra tilrauna Breta til að hindra að þeir næðu Narvík, útflutningshöfn fyrir járn- grýti frá Svíþjóð. Þriðjudaginn 4. ágúst var gámi frá kínversku borginni Hefei fagnað í Narvík eftir rúmlega tveggja vikna ferðalag þangað. Í Noregi tóku á móti gáminum áhugamenn um þró- un flutningaleiðar frá Kína um Ka- zakhstan, Rússland og Finnland með dreifingarhöfn í Narvík. Þar sé allt sem þarf, lestartengingar við Finnland og Svíþjóð og stórskipa- höfn. Í fyrsta kínverska gáminum voru húsgögn fyrir norskt fyrirtæki. Til- raunagámurinn var fluttur með vöruflutningabíl síðasta spölinn (1.269 km) frá Helsinki en lest- arflutningar eiga að hefjast um leið og eftirspurn leyfir. Flutningstíminn frá Kína með lest er sagður 15 til 17 dagar en einn og hálfur mánuður með skipi. Þá sé mun ódýrara að flytja með lest, 30 til 40% en með skipi, og sjö sinnum ódýrara en með flugi. Það var ekki fyrr en í desember 2019 sem Rússar heimiluðu að flytja mætti með lest- um um land sitt varn- ing sem fellur undir viðskiptabann þeirra gagnvart Vestur- löndum. Hve lengi leyf- ið gildir kemur í ljós en er á meðan er. Hin fréttin snertir bæinn Kirkenes við landmæri Noregs og Rússlands. Rússneskt rannsóknarskip lagði 6. ágúst úr Kirkenes-höfn í leit að ákjósanlegri leið fyrir ljósleiðara á íshafsbotni fyrir norðan Rússland. Yrði Kirke- nes enda- og dreifingarstöð fyrir 14.000 km fjarskiptastreng til Jap- ans. Næstu þrjá mánuði yrði áhöfn skipsins við rannsóknir á 6.500 km löngu svæði undan norðurströnd Rússlands. Finnska fyrirtækið Cinia stendur að rannsókninni ásamt MegaFon í Rússlandi. Vonir standa til að strengurinn komist í gagnið ár- ið 2023. Cinia og MegaFon sömdu snemma árs 2019 um lagningu strengsins og er talið að fram- kvæmdin kosti 1,2 milljarða evra. Fjármagn fáist frá Noregi, Þýska- landi og Japan og segja forráða- menn verksins að ekki sé vand- kvæðum bundið að afla þess takist að sannfæra fjárfesta um að ekki sé of áhættusamt að leggja streng við erfiðar heimskautaaðstæður en það hafi aldrei verið gert áður. Í Kirkenes binda menn vonir við að hýsa endastöð strengsins og hún skapi góða starfsaðstöðu fyrir gagnaver. Fyrir nokkru kynntu finnskir at- hafnamenn áform um lestargöng undir Finnska flóa milli Tallinn, höf- uðborgar Eistlands, og Helsinki, höfuðborgar Finnlands, og þaðan lestarteina norður til Kirkenes. Eistlendingar banna lestargöngin og brautin til Kirkenes fær lítinn hljómgrunn. Var rætt um að Kín- verjar kæmu að þessum fram- kvæmdum undir hatti pólitíska fjár- festingaverkefnisins sem kennt er við belti og braut. Bandaríkjamenn á völlinn Þegar Donald Trump tók við emb- ætti Bandaríkjaforseta í janúar 2017 sagði Robert Papp, fv. yfirmaður bandarísku strandgæslunnar, af sér sem norðurslóðastjóri í bandaríska stjórnarráðinu. Ekki var skipað í embættið að nýju fyrr en nú í ágúst þegar gamalreyndur diplómati, James DeHart, settist í það. Á blaðamannafundi 5. ágúst sagði hann: „Markmið okkar fyrir svæðið er að það verði friðsælt og lág- spennusvæði og að náin samvinna verði meðal norðurskautsþjóðanna.“ Þessi sjónarmið falla að stefnu allra Norðurlandanna. Þau vilja að í Norðurskautsráðinu sé gengið fram undir því höfuðmarkmiði að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði. Þegar norrænar yfirlýsingar í þessa veru eru lesnar kemur einnig fram að stórveldakapphlaup kunni að raska ró á svæðinu. Best sé að vera við öllu búinn. Orð DeHarts um lágspennu eru mildari en boðskapurinn sem ráð- herra hans, Mike Pompeo, flutti í Rovaniemi í Finnlandi í maí 2019. Bandaríski utanríkisráðherrann varaði af þunga við hervæðingu Rússa á norðurslóðum og tilraunum Kínverja til að gera sig gildandi þar, þeir væru hvorki né yrðu norður- slóðaþjóð. DeHart sagði að skoða ætti skip- un sína í embættið í tengslum við ýmislegt annað á sviði utanríkis- og varnarmála sem gerst hefði nýlega í Washington til að skerpa bandaríska hagsmunagæslu á norðurslóðum. Segja mætti að sumarið 2020 mark- aði þar þáttaskil. Hann benti á að á undanförnum tveimur mánuðum hefði Bandaríkja- stjórn kynnt alhliða og samhæfða diplómatíska stefnu og aðgerðir í norðurslóðamálum. Þar á meðal væri tilkynning frá forsetaembætt- inu frá 9. júní 2020 um að frá og með 2029 ætti Bandaríkjastjórn flota ís- brjóta. Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur opnað ræðisskrifstofu í Nuuk á Grænlandi og sagði DeHart að það væri eftirtektarvert skref í ljósi þröngs fjárhags ráðuneytisins. Mike Pompeo utanríkisráðherra var í Kaupmannahöfn á dögunum og bar norðurslóðir hátt í samtölum hans við danska ráðamenn, hann hitti auk þess utanríkisráðherra Færeyja og Grænlands. Bandaríski flugherinn birti norð- urslóðastefnu sína í júlí 2020. Bandaríski norðurslóðastjórinn sagði að tvær meginástæður væru fyrir þessum þunga í norður- slóðastefnu Bandaríkjastjórnar nú: (1) auðveldara væri að nýta auðlindir og stunda siglingar á norðurslóðum en áður vegna umhverfisbreytinga; (2) geópólitískt umrót vegna her- styrks Rússa og norðursóknar Kín- verja. „Þegar litið er til þess hvernig Kínverjar hafa staðið að fjárfestingu og viðskiptum annars staðar í heim- inum held ég að við þurfum að sýna mikla aðgát og vera á verði vegna áhrifa sem þetta kann að hafa á þá vönduðu stjórnarhætti sem við öll viljum að einkenni norðurslóðir,“ sagði DeHart. Leikmönnum raðað Leikmönnum er raðað upp fyrir keppni. Norsk bæjarfélög styrkja stöðu sína sem mikilvægar enda- og dreifingarstöðvar fyrir Kyrrahafs- samskipti. Íslensk fyrirtæki og áhugamenn hljóta að taka mið af þessu. Bandaríkjastjórn var seinni á völl- inn en aðrir en hefur nú skipað liðs- stjóra af sinni hálfu sem á að halda saman öllum þráðum á heimavelli samhliða því sem hann sækir fram annars staðar. Bandaríski flotinn og flugherinn gegna lykilhlutverki í þágu stöðugleika á Norður- Atlantshafi sem er opið til Norður- Íshafs með Ísland sem miðpunkt. Í Norðurskautsráðinu aðhyllast sjö af átta aðildarríkjum sömu grundvallargildi: lýðræðislega stjórnarhætti, réttarríkið og virð- ingu fyrir mannréttindum. Rússland hefur sérstöðu að þessu leyti. Atburðir utan svæðisins hafa áhrif. Xi Jinping Kínaforseti flutti fyrstur þjóðarleiðtoga Alexander Lukasjenko heillaóskir með sjötta sigurinn í forsetakosningum í Hvíta- Rússlandi. Hann og Vladimir Pútin Rússlandsforseti veittu kosn- ingasvindlinu gæðastimpil. Það er styttra frá Helsinki til Minsk (715 km) en til Narvíkur. Allt sem gerist í Hvíta-Rússlandi mælist á pólitískum norrænum skjálfta- mælum og nær því til norðurslóða og stórveldakapphlaupsins þar. Eftir Björn Bjarnason » Þegar norrænar yfirlýsingar um lág- spennu eru lesnar kem- ur einnig fram að stór- veldakapphlaup kunni að raska ró á svæðinu. Björn Bjarnason Höfundur er fyrrv. ráðherra Norðurslóðir: lágspenna og stórveldakapphlaup

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.