Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.10.2020, Side 10
Eins og svo margir bókamenn er Snæbjörn hændur að knattspyrnu. Hér verst hann fyrirgjöf Ólafs
Jóhanns Ólafssonar rithöfundar í kappleik bókamanna um árið. Hann segir ferlinum nú lokið.
Morgunblaðið/Einar Falur
Þau viðskipti gengu upp og gott verð fékkst
fyrir Hr. Ferdinand og tvö systurforlög hans.
„Þetta var þó langt ferli. Ekki eins og þegar ég
hringdi í Pétur Má [Ólafsson] og bauð honum
að kaupa Bjart. Ég nefndi bara upphæð og
hann sagði já. Ég minnist þess ekki að við höf-
um skrifað undir neitt en allt gekk eins og í
sögu, enda treystum við Pétur hvor öðrum.“
Yrði betri forleggjari í dag
– Þegar þú seldir Hr. Ferdinand sagðirðu tíma
þinn sem forleggjara vera liðinn. Ertu enn þá
sama sinnis?
„Ég lofaði Politiken að stofna ekki nýja út-
gáfu í þrjú ár. Nú eru þau liðin. Þannig að ekk-
ert er að vanbúnaði.“
– Er það?
„Nei,“ svarar hann hlæjandi. „Ég á alls ekki
von á því að stofna nýtt forlag. Að því sögðu þá
yrði ég miklu betri forleggjari í dag en þá. Í
fyrsta lagi er ég búinn að stíga í burtu frá
þessu í góðan tíma og í annan stað er ég kom-
inn hinum megin við borðið og sé þetta því
þaðan líka. Þannig að í dag veit ég nákvæm-
lega hvernig á að vera forleggjari.“
Hann nefnir í þessu sambandi Gutkind
forlagið í Danmörku. „Þannig forlag myndi ég
vilja stofna. Þeim tekst að gera þetta svo
ofboðslega vel. Það er svo mikið hjarta í útgáf-
unni og því fylgir svo mikil tilgerðarlaus gleði
að gefa út hverja einustu bók. Það smitar út
frá sér, bæði til höfunda og lesenda. Myndir þú
ekki vilja gefa út hjá svona forlagi?“
Jú, hvar skrifa ég undir?
Ég átta mig ekki á því hvort það er viljandi
eða óvart en Snæbjörn teymir mig í öllu falli
alltaf frá umræðunni um skrif hans sjálfs. Enn
tek ég því á mig rögg og spyr hvers vegna
hann skrifi barnabækur?
„Ætli ég hafi ekki haldið að það væri auð-
veldara en að skrifa fyrir fullorðna og þess
vegna ákvað ég að byrja á að prófa það. Þegar
ég var sjálfur barn fannst mér fátt skemmti-
legra en að lesa spennubækur, Enid Blyton,
Frank & Jóa og þannig bókmenntir, og bað
aldrei um annað en bækur í jólagjöf. Eða þá
markmannshanska. Þegar maður les barna-
bækur í dag snúast þær meira um að skemmta
og vera fyndinn. Það er gott og gilt líka en það
mætti samt vera meira um spennu.“
– Hafðirðu það í huga þegar þú lagðir af stað
í þessa vegferð?
„Nei, nei, eins og þú manst þá hrasa ég bara
inn. Það á við hér sem annars staðar. Ef það er
eitthvert leiðarljós þá er það að mig langar að
miðla gleðinni sem ég fann fyrir sem barn.
Lesandinn á að hlakka til að koma heim og
halda áfram með bókina. Þá er takmarkinu
náð.“
Fimm stjörnur frá barnabarninu
– Og færðu þannig viðbrögð?
„Já, frá barnabörnunum. Ég fékk fimm
stjörnur frá einu þeirra í síðustu viku,“ svarar
hann hlæjandi. „Annars bý ég erlendis þannig
að ég fæ svo sem ekki mikil viðbrögð. Hef þó
hitt foreldra sem eru ánægðir og allt gleður
þetta mig.“
Þegar fyrsta bókin kom út í fyrra kom fram
að Snæbjörn væri byrjaður á þeirri næstu.
Honum sóttist verkið vel og var handritið
tilbúið í mars á þessu ári. Sama er uppi á ten-
ingnum núna; hann er byrjaður á þriðju bók-
inni í flokknum. „Hún gæti komið út að ári, lít-
ist forleggjaranum á hana,“ segir Snæbjörn og
upplýsir að auki að hann sé einnig með bók
handa fullorðnum í smíðum. Ekki liggi þó fyrir
hvort eða hvenær hún komi út. „Ég veit ekki
hvernig hún endar frekar en annað sem ég
geri.“
Þess má geta að fyrsta bók Snæbjörns er
komin út á bæði dönsku og sænsku, auk þess
sem hún hefur verið þýdd á ensku. „Ég er
samt ekki orðinn heimsfrægur enn þá,“ flýtir
hann sér að segja. Hlæjandi.
Einn þáttur í bókaútgáfu er að fylgja bók-
inni úr hlaði með kynningu. Snæbjörn segir
það eiga einstaklega illa við sig; hann sé þó
reynslunni ríkari frá í fyrra. Þá spurði hann
sig bara: „Hvað er ég að gera hérna og hvað á
ég að gera?“
Hann útskýrir þetta betur. „Það á alls ekki
við mig að hæla og hampa sjálfum mér en mér
finnst mér eigi að síður skylt að fylgja útgáf-
unni eftir. Þess vegna er ég hingað kominn nú.
Það er svo ánægjulegt að strax og ég sagðist
vera að koma þá fékk ég samstundis fjögur við-
töl. Það gleður mig að fólk sýni mér enn þá
þessa velvild hérna heima eftir allan þennan
tíma í útlöndum. Ekkert útgáfuhóf verður þó
að þessu sinni vegna ástandsins í samfélaginu.“
Fallegir firðir – og umferðareyjur
– Talandi um ástandið. Hvernig er að koma
heim við þessi skilyrði?
„Sorglegt. Mér finnst ástandið hérna erf-
iðara en í Danmörku, satt að segja. Það er
hlutfallslega meira um smit. Ég hitti Jón Karl
[Helgason] vin minn á kaffihúsi í morgun og
þar voru allir með grímur. Hver hefði séð
þetta fyrir? Auðvitað er komin þreyta í þessa
baráttu, það er ósköp eðlilegt, maður finnur
það líka í Danmörku, en við verðum að berjast
áfram. Annað er ekki í boði.“
Annars þykir Snæbirni alltaf gott að koma
heim; allt annar kraftur sé í mannlífinu hérna
en í Danmörku og landið ávallt jafn heillandi.
„Við erum alltaf á Ítalíu á sumrin en þar sem
við komumst ekki í ár komum við hingað heim.
Dvöldumst hér í kyrrðinni í Hvalfirðinum og
ferðuðumst upp á Snæfellsnes og víðar. Það
nær engu lagi hvað þetta land er stórkostlegt
og fallegt; maður sér það enn þá betur eftir að
hafa dvalist lengi í útlöndum. Meira að segja
umferðareyjurnar á Miklubrautinni eru fal-
legar. Ég tók eftir því í sumar.“
– Áttu von á að flytja aftur heim?
„Alveg eins. Ætli ég verði ekki grafinn hér í
Hvalfirðinum.“
– Liggja ræturnar hér?
„Nei, ég ólst upp í Odda á Rangárvöllum og
síðan í Reykjavík. Við bjuggum til þennan stað
í fyrra til að fjölskyldan gæti verið öll saman
þegar við erum á landinu,“ svarar Snæbjörn
en eins og fram kom hér að ofan á hann þrjú
uppkomin börn af fyrra hjónabandi, Nóa,
Söndru og Sölva. Barnabörnin eru orðin fjög-
ur. „Fyrst vorum við að velta fyrir okkur að
kaupa bústað en flestir sumarbústaðir hér eru
lokaðir inni í rjóðri enda Íslendingar alla jafna
uppteknir af skjólinu. Ég vil hins vegar sjá
náttúruna og tek útsýnið fram yfir skjólið.
Þess vegna byggðum við okkar eigin bústað.
Hvalfjörður var þó ekki augljós kostur enda er
hann leiðinlegur fyrir mína kynslóð, það tók
óratíma að aka fyrir hann í gamla daga. Konan
mín sá hins vegar möguleikana hér enda kem-
ur hún alltaf með bestu hugmyndirnar. Ég sé
ekki eftir því, þetta er algjör náttúruperla,“
segir hann og við gerum stutt hlé á máli okkar
til að horfa út á spegilsléttan fjörðinn.
Með Zlatan á bakinu
„Það verður ekki amalegt að hlaupa þarna á
eftir þegar við erum búnir að spjalla,“ heldur
Snæbjörn áfram sem leiðir okkur aftur að
íþróttaferli hans. Hann lék aldrei í meist-
araflokki í fótbolta en á nokkra leiki með
meistaraflokki Fram í handbolta sem mark-
maður. „Fótboltaferillinn hófst aftur eftir að
ég flutti til Danmerkur. Ég bý í litlum bæ,
skammt frá Kaupmannahöfn, sem heitir
Espergærde,“ upplýsir hann og er svo al-
mennilegur að bera bæjarheitið fram á ís-
lensku en ekki dönsku. „Þar er starfrækt „old
boys“-lið og ég hafði bara samband og spurði
hvort ég mætti ekki mæta. Það var auðsótt
mál.“
Er líða fór á fyrstu æfinguna fór Snæbjörn
að heyra menn hvísla sín á milli: „Er þetta
Zlatan?“ Mögulega tengdist það þó frekar
skörpu nefinu og hæðinni en knattspyrnuhæfi-
leikunum – enda þótt ekki sé hægt að útiloka
hinn möguleikann. Alltént. Allar götur síðan
hefur Snæbjörn verið kallaður Zlatan þar um
slóðir og merktur þannig á baki keppnistreyj-
unnar. „Ekki nóg með það. Ég var settur beint
á toppinn. „Zlatan, þú verður frammi,“ sögðu
þeir. Mér tókst þó hægt og rólega að færa mig
aftast á völlinn sem á best við mig.“
Snæbjörn sættir sig þó við að sennilega sé
knattspyrnuferlinum lokið eftir að hann sleit
hásin í fyrra. Hann er nýbyrjaður að hlaupa
aftur og svo spilar hann tennis sem honum
þykir afar skemmtileg íþrótt.
Hér eftir lætur hann sér nægja að fylgjast
með knattspyrnu og þá helst þeirri ensku, eins
og svo margir Íslendingar. Hann er þó óvenju-
legur að því leyti að hann skiptir að jafnaði ár-
lega um lið. Hefur til dæmis haldið með West
Ham United og Southampton en um þessar
mundir á B-deildarlið Brentford hug hans all-
an. „Það ræðst af því að í fyrra kom til liðsins
frá Fiorentina á Ítalíu danski landsliðsmað-
urinn Christian Nørgaard en ég spilaði einmitt
með pabba hans í Espergærde. Þegar hann
var lítill þá mætti Christian meira að segja
stundum á æfingar hjá okkur.“
Og fékk sitt veganesti út í hinn stóra heim
frá meistara Zlatan.
Morgunblaðið/Eggert
’Ef það er eitthvert leiðarljós þáer það að mig langar að miðlagleðinni sem ég fann fyrir sembarn. Lesandinn á að hlakka til að
koma heim og halda áfram með
bókina. Þá er takmarkinu náð.
Ég hef verið alveg ótrúlega heppinn, ekki
vegna hæfileika eða skipulagsgáfu, þetta
bara dettur fyrir framan mig. Sjálfur hef
ég ekki skipulagt neitt af því sem hefur
gerst,“ segir Snæbjörn Arngrímsson.
VIÐTAL
10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11.10. 2020