Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 6
6 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20
SKÝRSLA VINNUHÓPS UM LÖGMENN OG #METOO:
KYNBUNDIN OG KYNFERÐISLEG ÁREITNI
ÁSAMT EINELTI VIÐGENGST Í STÉTT
LÖGMANNA
Út er komin skýrsla vinnuhóps Lögmannafélags Íslands
varðandi lögmenn og #metoo. Vinnuhópurinn var skipaður
í nóvember 2018 til að skoða og greina álitaefni tengd
#metoo frá sjónarhóli lögmannastéttarinnar og gera tillögur
um breytingar á lögmannalögum og siðareglum ef þess
væri þörf. Þá var hópnum falið að skoða gerð tillagna um
leiðbeiningar til vinnuveitenda um hvernig bregðast skuli
við brotum og úrræði sem stæðu þolendum til boða.
Niðurstöður könnunar
Vinnuhópurinn lagði könnun fyrir félagsmenn haustið
2019. Þrátt fyrir að svarhlutfall hafi einungis verið 17%, eða
184 félagsmenn, var hún engu að síður metin marktæk þar
sem svarhlutfall kynja var nokkuð jafnt og aldursdreifing
var góð. Svarendur voru því ágætur þverskurður af
félagsmönnum Lögmannafélagsins.
Starfsánægja mældist góð, það virðist ríkja heilbrigð
samkeppni á vinnustöðum og gott kynjajafnræði. Um 30%
svarenda sögðu að vinnustaður þeirra hefði sérstaka stefnu
til að koma í veg fyrir einelti eða áreitni á vinnustaðnum
en um 60% sögðust eindregið vilja að vinnustaður þeirra
hefði slíka stefnu. Þá sagðist helmingur þátttakenda vera
fylgjandi því að vinnustaður þeirra hefði sérstakan tengilið
sem hægt væri að leita til ef viðkomandi yrði fyrir eða yrði
vitni að einelti eða áreitni.
Um fjórðungur svarenda hafði í starfi sínu heyrt óviðeigandi
brandara með kynferðislegum undirtón eða ummæli um
útlit, vaxtarlag, klæðaburð eða einkalíf sitt. Tæplega 15%
töldu sig hafa upplifað óþarflega mikla nálægð, faðmlög,
kossa eða aðra snertingu sem hann eða hún vildu ekki.
Um 6% höfðu fengið sendar eða verið sýndar myndir
eða efni af kynferðislegum toga sem viðkomandi fannst
móðgandi eða niðurlægjandi. Um 30% svarenda töldu sig
hafa orðið fyrir eða orðið vitni að annars konar hegðun
sem þeim fannst móðgandi, niðurlægjandi eða ógnandi.
Samtals 29% þátttakenda höfðu upplifað eða orðið vitni að
kynbundnu áreitni í starfi. Alls höfðu 22% svarenda orðið
fyrir kynferðislegri áreitni í lögmannsstarfi sínu, bæði karlar
og konur, og 26% orðið fyrir einelti.
Alvarlegt umhugsunarefni fyrir lögmannastéttina
Vinnuhópurinn telur að niðurstöður könnunarinnar
séu alvarlegt umhugsunarefni fyrir lögmannsstéttina og
að það sé með öllu óásættanlegt að tæplega þriðjungur
lögmanna hafi orðið fyrir eða orðið vitni að kynbundnu
áreitni á vinnustað sínum og að tæplega fjórðungur hafi
orðið fyrir eða orðið vitni að kynferðislegri áreitni. Þá sé
það einnig óásættanlegt að ríflega fjórðungur lögmanna
hafi orðið fyrir eða orðið vitni að einelti. Vert er að hafa í
huga að háttsemi sem þessi getur í sumum tilvikum verið
refsiverð en er í öllum tilvikum siðferðislega ámælisverð og
ekki til framdráttar stétt sem annars hefur það að atvinnu
sinni að efla rétt og hrinda órétti. Vinnuhópurinn beinir
þeim tilmælum til stjórnar Lögmannafélagsins að útbúa
leiðbeiningar til lögmanna og lagði fram drög að slíkum
leiðbeiningum. Þá lagði hann einnig til að félagið gerði
samning við sjálfstætt starfandi fagaðila sem að lögmenn
gætu leitað til og héldi námskeið fyrir félagsmenn.
Ekki talin þörf á breytingu laga eða siðareglna
Skýrsla vinnuhópsins er nú aðgengileg á heimasíðu LMFÍ1
en þrátt fyrir niðurstöður könnunarinnar telur hópurinn
að ekki þurfi að gera breytingar á lögum um lögmenn eða
á siðareglum lögmanna. Sú afstaða helgast fyrst og fremst af
því að lög og reglur sem gilda um efnið taka til vinnustaða
lögmanna eins og annarra starfsstétta.
Í vinnuhópnum áttu sæti Elín Smáradóttir lögmaður
hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Friðrik Ársælsson lögmaður
hjá Arion banka, Ingvi Snær Einarsson lögmaður á
Lögfræðistofu Reykjavíkur, Kolbrún Garðarsdóttir
lögmaður á Völvu lögmönnum og Þyrí Steingrímsdóttir
lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
EI
1 Sjá skýrslu hér: https://lmfi.is/lmfi/frettir/2020/05/skyrsla-um-logmenn-og-metoo