Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 8
8 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20
Af kostnaði og hjarðhegðun
Jón Magnússon tók fyrstur til máls og taldi sérstakt að
málið skyldi fara í þennan farveg þar sem um lítilfjörlega
ástæðu hefði verið að ræða gagnvart fyrrverandi formanni
félagsins. Hann sagði að ef gagnaðilinn hefði haft svipaðan
kostnað af málinu og Lögmannafélag Íslands þá þýddi það
að sá málskostnaður sem að hann fékk tildæmdan, upp á
2.213.000 krónur, hefði hvergi dugað til að hann ræki málið
skaðlaust. Hann velti fyrir sér hvort það væri afsakanlegt
að leggja þannig á sjó með mál gagnvart félagsmanni og
baka honum slík meiriháttar útgjöld, í máli sem að aldrei
hafði átt að fara af stað með.
Jón Steinar Gunnlaugsson sagði að það væri með þungum
huga að hann tæki til máls á þessum aðalfundi. Hann
hefði verið félagi í Lögmannafélaginu um áratuga skeið,
verið formaður þess um tíma og það hefði átt þá hug
hans og hjarta. Hann spurði hvað hefði orðið um önnur
mál sem úrskurðarnefnd hefði tekið fyrir í kjölfar þess að
stjórn hefði kært og hvort að fella ætti þau niður í kjölfar
Hæstaréttardómsins.
ÁTÖK Á AÐALFUNDI
Skömmu fyrir aðalfund LMFÍ, sem haldinn var um miðjan maí síðastliðinn, féll
dómur Hæstaréttar í máli nr. 30/2019 (Lögmannafélag Íslands gegn Jóni Steinari
Gunnlaugssyni). Málið fjallaði um áminningu sem úrskurðarnefnd LMFÍ veitti
félagsmanni en sá höfðaði í kjölfarið mál til ógildingar ákvörðuninni. Héraðsdómur
Reykjavíkur hafnaði því að ógilda ákvörðunina og sýknaði Lögmannafélagið.
Niðurstaða málsins í Landsrétti var aftur á móti sú að félagið hefði ekki haft
lagaheimild til þess að bera fram kvörtun fyrir úrskurðarnefnd og var úrskurður
nefndarinnar því felldur úr gildi. Í Hæstarétti komst meirihluti að sömu niðurstöðu
og Landsréttur en í sératkvæði tveggja dómara var talið að staðfesta ætti dóm
héraðsdóms. Líflegar umræður spunnust um málið á aðalfundinum þar sem
félagsmenn tókust á. Þá var upplýst að heildarkostnaður félagsins af málferlunum
hafi verið 10.763.000 krónur. Hér verður stiklað á stóru úr umræðunni.
Jón Magnússon