Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 26

Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 26
26 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20 Mér fannst ég svolítið berskjaldaður, að kenna sænskum nemendum á þeirra heimavelli og þurfti að undirbúa mig gríðarlega vel fyrir hvern kennslutíma. Sú kennsla gagnaðist mér hins vegar vel því fyrir utan að þarna var ég í raun neyddur til að ná betri tökum á tungumálinu þá var ég að kenna sænskan félagarétt og þekking á honum hefur komið að góðum notum í doktorsnáminu, þar sem hluti af verkefni mínu varðar að staðsetja og greina evrópskt félag sem hefur höfuðstöðvar í Svíþjóð. Mér hefur fundist kennslan skemmtilegt starf en hún er líka nauðsynleg til þess að brjóta upp vinnuna við verkefnið.“ Setur sjálfum sér skilafresti Er ekki skrítin tilhugsun að taka sér fyrir hendur afmarkað verkefni sem hefur skiladag að fimm árum liðnum? Var þessi staða óþægileg í byrjun? „Það er svolítil kúnst að skipuleggja sig. Rannsóknin sjálf er auðvitað aðalatriðið og það er dálítið einkennilegt að horfa á endapunkt sem er svona langt frá manni í tíma. Ég hef því leitast við að skipta verkefninu upp í afmarkaða þætti og setja sjálfum mér skilafresti í þeim efnum. Að því leyti til hjálpar uppsetning námsins einnig, þar sem gerð er sú krafa að maður verji framgang rannsóknarinnar með ákveðnu millibili. Ég reyni að sinna rannsóknum og skrifum að mestu fyrir hádegi, þegar ég er ferskur í kollinum, en síðari hluti dagsins er meira nýttur í önnur verkefni, t.d. lestur heimilda og skipulag.“ Arnljótur vill þó ekki meina að hann hafi hugsað mikið út í það í byrjun hversu langt ferlið er. „Þetta hentar kannski ekki öllum en ég get svo sem ekki lagt mat á þennan tíma fyrr en hann er að baki. Ég hef lagt upp með það að njóta ferðalagsins á hverjum tíma eins og kostur er, þrátt fyrir að það takist vissulega misvel. Auðvitað hafa komið tímar þar sem ég hef velt því fyrir mér hvað ég væri búinn að koma mér út í en mér hefur vaxið ásmegin eftir því sem liðið hefur á námið “. Kennslan skemmtileg Arnljótur stefnir að því að verja doktorsverkefnið sumarið 2021 en hefur hann gert upp við sig hvað hann tekur sér fyrir hendur að því loknu? „Ég er í rauninni opinn fyrir því að starfa innan eða utan akademíunnar. Lengst af hef ég getað sinnt öðrum afmörkuðum verkefnum samhliða doktorsverkefninu og síðari hluta ársins 2019 hef ég verið í leyfi frá verkefninu og unnið fyrir EFTA-dómstólinn í Lúxemborg. Mér hefur fundist það hjálpa til að skipta aðeins um umhverfi og verkefni, bæði fyrir doktorsnámið og kennsluna. En ég veit ekki alveg hvað tekur við þegar náminu lýkur. Eflaust sjá flestir doktorsnemar fyrir sér að starfa innan akademíunnar, við fræðiskrif og kennslu. Hér í Lundi er t.d. gerð sú krafa að yfirmenn hvers námskeiðs innan lagadeildar hafi doktorsgráðu. Sjálfum finnst mér spennandi að geta í framtíðinni tengt praktík og fræðimennsku, frá einum tíma til annars og tel í raun að þannig nýtist þekkingin best á þeim réttarsviðum sem ég hef sérhæft mig, sem er félagaréttur auk Evrópuréttar. Fyrst og fremst er ég mjög ánægður með að hafa stigið þetta skref og er viss um að þessi reynsla á eftir að nýtast mér vel í framtíðinni. Sérstaklega hefur mér fundist kennslan skemmtileg og ég hef mikinn áhuga á því að gera meira af því á næstu árum. Hvort að það verður samhliða lögmennsku eða öðrum verkefnum verður að koma í ljós“. Ágúst Karl Karlsson og Daníel Isebarn Ágústsson.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.