Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 28
28 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/20
EKKI ER ÞÖRF Á AÐ
MÓTMÆLA NÝJUM
MÁLSÁSTÆÐUM
Ein af meginreglum íslensks einkamálaréttarfars er
svokölluð útilokunarregla. Í henni felst að málsástæður
og mótmæli aðila verða að koma fram eins fljótt og kostur
er eftir að tilefni gefst. Tilgangur reglunnar er að aðilar
dragi ekki fram ný atriði og röksemdir inn í málið, allt
fram á síðustu stundu. Segja má að útilokunarreglan
sé hluti jafnræðisreglunnar, enda ótækt fyrir aðila að
þurfa jafnvel sífellt að bregðast við nýjum og óvæntum
málsvörnum. Komi málsástæða eða mótmæli fram eftir
að tilefni varð til er þeim að jafnaði hafnað sem of seint
fram komnum, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála. Útilokunarreglan gildir einnig fyrir
Landsrétti og Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. og 2. mgr.
187. gr. laganna.
Nýjar málsástæður þarf að samþykkja
Þess misskilnings gætir oft hjá lögmönnum að aðilar
þurfi að mótmæla nýjum málsástæðum (jafnvel með
sérstakri bókun), annars sé komið fram samþykki fyrir
því að þær komist að í málinu. Sem dæmi má nefna mál
sem stefnandi höfðar til greiðslu á skuld, en stefndi krefst
sýknu á þeim grundvelli að skuldin hafi þegar verið greidd.
Við aðalmeðferð hefur lögmaður stefnda síðan uppi þá
málsástæðu að skuldin sé í öllu falli fyrnd. Ef lögmaður
stefnanda mótmælir ekki þessari málsástæðu er oft á því
byggt af hálfu lögmanns stefnda, annaðhvort í héraði
eða fyrir æðri dómi, að hún komist þá að. Sambærileg
sjónarmið hafa jafnvel komið fram hjá dómstólum og má
þar nefna dóm Landsréttar 27. september 2019 í máli nr.
929/2018 þar sem sagði að áfrýjandi hefði haldið tiltekinni
málsástæðu „skýrlega fram við aðalmeðferð og var henni
eigi mótmælt sem of seint fram kominni.“ Var málsástæðan
því talin mega komast að í málinu.
Þessi afstaða lögmanna, og í þessu tilviki Landsréttar, er
ekki í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar. Af Hrd.
169/2017 og 145/2010 er ljóst að aðilar þurfa ekki að
mótmæla sérstaklega nýjum málsástæðum. Um er að ræða
atriði sem dómstólar gæta að að sjálfsdáðum (ex officio) og
eiga því að hafna málsástæðum sem of seint fram komnum
án tillits til þess hvort gagnaðili mótmælti henni af þeirri
ástæðu. Eingöngu á að taka tillit til nýrra málsástæðna aðila
ef gagnaðilinn samþykkir berum orðum að þær komist að
í málinu. Slíkt leiðir beinlínis af orðalagi 5. mgr. 101. gr.
laga nr. 91/1991. Ekki er hægt að túlka þögnina eina sem
samþykki fyrir því að málsástæðan komist að. Er þetta orðað
á eftirfarandi hátt í Hrd. 145/2010, en rökstuðningurinn
í Hrd. 169/2017 er næsta samhljóða:
„Þótt þessar málsástæður kunni að einhverju leyti að
hafa verið hafðar uppi við munnlegan flutning málsins
í héraði, svo sem áfrýjendur hafa haldið fram fyrir
Hæstarétti, hefði það verið um seinan án tillits til þess
hvort stefndi hefði mótmælt þeim af þeirri ástæðu, sbr.
e. lið 1. mgr. 80. gr. og 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991
um meðferð einkamála.“
Taka ber fram að fyrri dómurinn, Hrd. 145/2010, var
dæmdur af fimm dómurum Hæstaréttar og fordæmisgildið
því hafið yfir vafa.
Línuverðir dómara
Hvað sem þessu líður er þó að sjálfsögðu brýnt að lögmenn
sýni árvekni og mótmæli nýjum málsástæðum þegar það á
við, þ.e. þeir verða að vera nokkurs konar línuverðir við hlið
dómarans í þessu hlutverki til þess að koma í veg fyrir að
nýjar málsástæður komist alveg örugglega ekki að í málinu.
Loks verður að halda til haga að röksemd Landsréttar fyrir
því að hin nýja málsástæða hafi mátt komast að í málinu var
einnig á því byggð að aðeins væri um að ræða heimfærslu
dómsins til lagareglna. Þau rök Landsréttar að um hafi
verið að ræða lagarök en ekki málsástæðu virðast hafa
verið réttmæt. Málið var endanlega leitt til lykta með Hrd.
51/2019, en þar var niðurstaðan reist á sambærilegum
lagarökum og í Landsrétti (þ.e. á ákvæðum tilskipunar
frá 1798), án þess að séð verði að byggt hafi verið á þeim
í héraði. Þessi niðurstaða er í samræmi við þá reglu að
það eru dómarar en ekki aðilar sem hafa forræði á túlkun
lagareglna.
VÍÐIR SMÁRI PETERSEN LÖGMAÐUR