Lögmannablaðið - 2019, Side 9
Þess vegna er ég ekki einn af þeim sem finnst óskiljanlegt
að heyra jólalög í nóvember eða sjá ljósaskreytingar í
búðargluggum á miðju hausti. Strax í október er komin
veruleg þörf í brjóst okkar fyrir innspýtingu, þó vissulega
væri betra að mæta henni öðruvísi en með því að hlusta á
Snjókorn falla með Ladda eða kaupa jólakúlur í IKEA. Á
Íslandi er reyndar einnig verið að fara amerísku leiðina.
Hrekkjavakan er tekin mis sterkum tökum, mörgum til
mikillar armæðu vegna sjoppulegs yfirbragðs hennar, og svo
er jafnvel farið að halda þakkargjörð með kalkúnaveislum
og öðru sem við þekkjum úr amerískum bíómyndum. Á
Íslandi er einnig verið að svara þessari þörf með því að
teygja ýmsa jólaviðburði inn í haustið. Fjölmörg fyrirtæki
halda jólahlaðborð sín í nóvember auk þess sem ýmis
konar menningartilstand vegna jóla er farið að láta á sér
kræla áður en sjálfur jólamánuðurinn gengur í garð. Allt
leitar þetta jafnvægis. En í sönnum jólaanda verður maður
þó að spyrja sig hvort þetta þjóni í raun tilgangi sínum.
Er ofgnóttin og spennukeyrslan besta leiðin til að berjast
gegn myrkrinu og kuldanum? Er þetta ekki bara gamla
góða sagan. Því meira sem við fáum, því meira viljum við.
Í raun get ég alveg tekið undir með nafna mínum Ebenezer
Scrooge og sagt að allt jólatilstand sé húmbúkk. En ég legg
þó töluvert aðra meiningu í það en Skröggur gamli. Sjálfur
lít ég þannig á að öll menning sé í raun húmbúkk, þetta er
bara spurning um að raða húmbúkkinu snyrtilega upp og
ef vel tekst til þá er um fyrirtak að ræða. Á Íslandi erum við,
eðli málsins samkvæmt, háð ýmsum alþjóðlegum stefnum
og straumum. Þrátt fyrir hrollvekjandi fullyrðingar um
hreinleika eyjunnar sem rís eins og klettur úr úthafinu, þá
vil ég heldur meina að Ísland sé eins og svampur í úthafinu.
Hér sogast allt á land og dvelur mislengi. Amerísk áhrif,
evrópsk áhrif, áhrif úr há- og lágmenningu. Og allt er þetta
húmbúkk. Það þarf bara að raða þessu rétt upp til að úr
verði úrvals menning. Þetta er í sífelldri þróun. Og svei
mér þá ef okkur tekst ekki bara oftast vel upp, þó að við
þurfum að hafa þessi mál í sífelldri endurskoðun.
Að lokum eru lögfræðingar beðnir afsökunar á hagfræði-
samlíkingu í upphafi þessarar hugvekju. Höfundur, sem
er klassískt menntaður cand. jur., tók þá ákvörðun að bæta
upp fyrir það með því að raða orðunum í titli hugvekjunnar
upp í lögfræðilegum kansellístíl.
Gleðileg jól.
Bergur Ebbi