Tölvumál - 01.01.2016, Page 24

Tölvumál - 01.01.2016, Page 24
24 Frá því ég flutti til Bandaríkjanna fyrir tíu árum hefur eitt atriði gengið eins og rauður þráður í gegnum hönnun allra tölvukerfa sem ég hef komið að. Það er meðhöndlun staðartíma. Þó ekki sé um ýkja flókið mál að ræða, vefst iðulega fyrir fólki að skrifa hugbúnað sem meðhöndlar tímagögn. SAGAN Þörf fyrir nákvæma og samræmda klukku er tiltölulega nýtilkomin. Framan af nægði að nota dagsbirtuna til að ákvarða upphaf og enda vinnudags og á svæðum þar sem sást reglulega til sólar urðu sums staðar til nákvæm sólarúr. Vegna árstíðanna sem stafa af möndulhalla jarðarinnar vissu menn snemma að lengd dagsins er mismunandi eftir árstíðum. Rómverjar til forna tóku tillit til þess með klukku sem skipti sólarhringnum upp í 24 tíma; 12 tíma dag og 12 tíma nótt. Lengd klukkutímans að degi til var háður árstíð. Hann var allt frá 45 af okkar mínútum uppí 75. Þetta fyrirkomulag gat hentað Rómverjum en fyrir íbúa í Reykjavík væri breytingin öllu meiri eða frá 106 mínútum á sumarsólstöðum niður í 21 mínútu á vetrarsólstöðum. Fáir væru trúlega tilbúnir að vinna á tímakaupi að sumri til við slíkt kerfi. Seinni tíma klukkuverk sem byggja á pendúlum eða öðrum mekanískum tólum urðu síðan til þess að fallið var frá þessum breytilegu klukkutímum og þess í stað tekið upp kerfi með 24 jafnlöngum klukkustundum. Á nítjándu öld, þegar siglingatækni var orðin þróuð og nákvæmar klukkur aðgengilegar á næsta ráðhúsi var algengast að hver bær eða borg hefði sinn eigin tíma þar sem klukkan sló tólf nákvæmlega á hádegi. Þetta fyrirkomulag gekk prýðilega og hentaði til dæmis ágætlega til að fá fólk til að mæta til vinnu á ákveðnum tímum eftir að iðnbyltingin hófst. Það var ekki fyrr en með tilkomu hraðra samskipta og ferðalaga, eftir tilkomu ritsímans og járnbrautanna sem samræming tíma fyrir stærri svæði varð nauðsynleg. Þar sem sólarhádegi er eingöngu háð lengdarbaug staðsetningar hefði þurft að innleiða 1440 tímabelti ef mismunur á klukkuhádegi og sólarhádegi hefði allsstaðar átt að verða minni en ein mínúta. Þess í stað var ákveðið að lifa með skekkju uppá eina klukkustund og skipta jörðinni upp í 24 tímabelti, hvert um sig 30 lengdargráður. Grunntímabeltið, „Greenwich Mean Time“ (GMT), hefur miðju á lengdarbaug núll, sem gengur í gegnum samnefndan bæ í Englandi og nær það 15 lengdargráður í vestur og 15 í austur. PÓLITÍK Það var auðvitað ekki hægt að skipta jörðinni upp í 24 jafnstór tímabelti og ákvarða þannig hvað klukkan væri miðað við hnattstöðu eina og sér. Til dæmis gengur 15. vestri lengdarbaugurinn þvert yfir Austurland frá Langanesi suður til Hafnar í Hornafirði. Djúpivogur ætti því strangt tekið að vera klukkutíma á undan Höfn. Af þessum sökum var víðast tekin pólitísk ákvörðun um tímabelti landsvæði og súpum við seyðið af því enn í dag. SUMARTÍMI Á ofanverðri nítjándu öld komust menn að því að hægt var að spara eldsneyti til lýsingar hýbýla með því að hnika klukkunni fram um einn tíma á vorin. Þannig leiddi lengri sólargangur á norðurhveli til þess að menn komust til vinnu í björtu og þurftu ekki að kveikja ljós fyrr en klukkustund seinna á kvöldin. Í fyrri heimsstyrjöldinni varð Þýskaland fyrst ríkja til að taka upp sumartíma fyrir ríkið allt, til orkusparnaðar. Í framhaldinu tóku flest vestræn ríki upp sumartíma og heitir kerfið „Daylight Saving Time“ (DST) hér í BNA, með tilvísun í ofangreindan orkusparnað. Á Íslandi var notaður sumartími frá 1917­1921 og svo aftur frá 1939­ 1968, en 1968 var klukkan fest á sumartíma (GMT). Fram til 1907 var ekki samræmdur tími á öllu landinu, heldur réðst tíminn á hverjum stað af hnattstöðu (lengdarbaug). Nú á tímum eru áhöld um það hvort notkun sumartíma sparar eitthvað vegna þess að hitun og kæling húsnæðis er nú miklu stærri þáttur í orkunotkun en lýsing hýbýla. Enda kemur á daginn að flest fjölmennustu ríki veraldar nota ekki lengur sumartíma. Þar á meðal má nefna Rússland og Kína, sem reyndar tók upp eitt tímabelti í öllu ríkinu fyrir nokkrum árum! ÁHRIF SUMARTÍMA Á KLUKKUNA Það sem flestir eiga erfiðast með að skilja er hvernig þessi skipting á og af sumartíma virkar á staðartíma. Í flestum kerfum er sú krafa gerð að tími sé ávallt sýndur á staðartíma, sem getur verið snúið, sérstaklega þegar sumartími er notaður og/eða atburðir eru skráðir í fleiri en einu tímabelti. Til þess að útskýra þetta nánar skulum við skoða hvað gerðist hér hjá mér síðastliðið vor, nánar tiltekið aðfaranótt 13. mars 2016. STAÐARTÍMAFLÆKJAN Heimir Sverrisson rafmagnsverkfræðingur

x

Tölvumál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.