Tölvumál - 01.01.2016, Síða 28
28
Í grein sem höfundur skrifaði fyrir Ský fyrr á árinu var komið inn á þann
vanda sem blasir við þar sem mikill fjöldi stakra beina (routera) fyrir
þráðlaus net, til dæmis í fjölbýlishúsum, er á litlu svæði auk erfiðrar
dreifingar með „skuggum“. Við skulum fylgja þessu eftir og skoða með
forhönnun tillögur að lausnum.
Á heimilum kemur hver íbúðaeigandi á laggirnar sínu eigin þráðlausa
neti með notkun beina sem fjarskiptafyrirtækin láta í té og flestir geta
sent það sem kallað er „dual band“, sem eru tvenn tíðnibönd, 2,4 GHz
og 5 GHz. Það sem fæstir notendur vita er að neðra tíðnibandið hefur
aðeins þrjár rásir og því þarf ekki mikið til svo að sömu rásirnar verði
endurteknar á sama sendingasvæðinu.
Auk þess er sendistyrkur beinanna iðulega nægur til að merkið berist milli
íbúða og ef rásir lenda saman byrja vandræði að skjóta upp kollinum í
formi hægagangs. Stundum er bandbreidd beinanna stillt þannig að þeir
nota ekki bara eina rás heldur tvær af þremur og það getur valdið enn
meiri vandræðum. Þó 5 GHz tíðnibandið sé talin lausn við rása skorti gæti
gengið á þann kost ef bandbreidd beinanna er stillt til að ná yfir nokkrar
rásir. Síðan heyrist að notendur reyni að laga erfiða dreif ingu með því auka
við sendiaflið umfram það sem evrópskar reglur leyfa, og áhrifin verða til
þess að enn meiri rásasamsláttur gæti átt sér stað.
Auk vandans við rásanotkun og miklar líkur á samslætti sýnir reynslan
að traustbyggt íslenskt húsnæði er hamlandi fyrir dreifingu þráðlausra
neta svo beita þarf öðrum lausnum en treysta á útsendingu frá einum
beini inni á heimili. Rammgerðir milliveggir og álmur og tvær eða fleiri
hæðir spila þar inn í. Staðsetning tækjanna er lykilatriði fyrir þjónustuna
en ekki eru til útreikningar á þráðlausum fjarskiptum innan húsa og
hegðun þráðlausra neta því ófyrirséð og ekkert vitað fyrirfram um bestu
staðsetningu sendanna. Þetta er atriði sem ætti alltaf að huga að við
nýbyggingar.
Samhliða þessu vex umferðin og þar sem áður var hægt að búa við
tilfallandi rásasamslátt verður það ómögulegt ástand þegar miðlæg
sókn í gögn verður reglan og umferð stöðug.
SAMEIGINLEG DREIFIKERFI
Það er því nokkuð ljóst að til lengri tíma litið verður ekki hægt að búa við
slíkt ástand og þörf á að stokka upp spilin og taka málin með þráðlausa
netdreifingu í fjölbýli heilstætt fyrir og húsnæðishönnun ætti alltaf að
taka það með í reikninginn. Notkun núna er þegar mikil inni á heimilum
í formi ýmissa notendatækja eins og fartölva og snjallsíma en meira af
búnaði er að koma inn sem hægt er að tengja við þráðlaus net.
Sjónvarpstæki og tilheyrandi reið á vaðið en hversdagslegar græjur eins
og ísskápar eru núna að slást í hópinn og svo má áfram telja.
Þegar litið er á stöðuna eins og henni er lýst að framan má sjá hliðstæðu
í móttöku á sjónvarpi. Fljótlega upp úr 1960, þegar almenningur fór að
nýta sér tæknina, voru loftnetalagnir í fjölbýlishúsum lítt þekkt fyrirbæri
og málin leyst með ýmsu móti en það blasti við að best væri að búa til
sameiginlegt dreifikerfi sem næði til allra íbúðanna og allar götur síðan
hefur það verið lausnin. Ekki þarf að hugsa til þess hvaða glundroði
hefði orðið ef hver og einn íbúi hefði leyst málið með eigin lögn og
loftneti. Sameiginleg flutningskerfi af ýmsu tagi er því venjan í
fjölbýlishúsum og þráðlaus fjarskipti gætu farið í þann farveg, líkt og
sjónvarp gerði í eina tíð.
Með því væri bæði hægt að tryggja gæði í formi greiðrar umferðar
vegna bættrar rásanotkunar og hægt að hanna dreifingu um húsnæðið
þannig að útbreiðslan væri nánast án skuggasvæða. Það eru auðvitað
ýmis ljón á veginum varðandi samanburðinn milli sjónvarps og
gagnafjarskipta og listinn þar langur og ekki hlaupið að því að hanna inn
í eldra húsnæði. Kannski er skírskotun til hótellausna nærtækust, en orð
eru til alls fyrst og hér á eftir eru tvær hugmyndir sem gætu verið innan
þessa ramma að hanna sameiginlegt þráðlaust net í fjölbýlishús.
HÚSNÆÐISHÖNNUN
Reginmunur er á milli íbúða og atvinnuhúsnæðis varðandi hegðun
þráðlausra neta. Atvinnuhúsnæði í dag er iðulega með opnum rýmum
þar sem nokkur fjöldi fólks starfar saman og einkaskrifstofur eru mikið til
liðin tíð. Einn aðgangsstaður (access punktur) í hverju opnu rými hefur
því greiða leið að mörgum notendum og stærri vinnustaðir eru með
mörgum aðgangsstöðum sem vinna saman og stilla rásir og afl
innbyrðis til að besta notkun hverju sinni. Íbúðahúsnæði er hólfað niður
í lokuð rými og það kemur niður á sendisviði þráðlausu netanna. Að auki
eru beinar heimilanna stök sjálfstæð tæki og ef bæta þarf dreifinguna er
það nokkur fyrirhöfn. Staðsetning beinanna ræðst af því hvar símalögn,
og í seinni tíð ljósleiðaralögn kemur inn í rýmin.
SAMANBURÐUR MILLI LAUSNA
Í dæmunum hér á eftir er hluti af þriggja hæða fjölbýlishúsi tekinn fyrir.
Með forhönnun má sjá áhrif af ýmsum möguleikum og lausnum á því að
koma upp sameiginlegu þráðlausu neti. Þetta tiltekna hús var byggt árið
1970 og veggir eru ýmist járnbentir burðarveggir, sem hafa talsverða
deyfingu en þar eru einnig léttari veggir sem þráðlaust merki á greiðari
leið í gegnum. Dæmin nota þrjá stigaganga en sá sem er lengst til hægri
á myndunum hefur þá sérstöðu að aðgengi er í þrjár íbúðir frá hverjum
stigapalli en inn í tvær frá hinum. Uppröðun herbergjanna gerir því aðrar
kröfur á dreifingu þráðlausa netsins en í íbúðunum í miðjunni og vinstra
megin.
SAMEIGINLEGT
ÞRÁÐLAUST NET Í
FJÖLBÝLISHÚSI
Einar H. Reynis, rekstrar og rafiðnfræðingur hjá Verkís og fyrrverandi ritstjóri
Tölvumála.