Víðförli - 01.11.2004, Síða 19

Víðförli - 01.11.2004, Síða 19
NÓVEMBER 2004 VÍÐFÖRLI 19 Bókaumfjöllun: Spurningin um Guð - frábær bók um merka menn. Einstæða bók rak á fjörur mínar síðsumars, „The Question of God,“ eftir dr. Armand Nicholi. Titillinn var for- vitnilegur og forsíðan með andlitsmyndum tveggja þekktra og áhugaverðra manna, þeirra Sigmund Freud and C.S. Lewis. Innan spjalda er einkar læsileg og áhrifarík bók og reyndist mér erfitt að leggja hana frá mér. Mér finnst ekki að undra að bók Nicoli hefur vakið mikla athygli og um þessar mundir sýnir bandaríska sjónvarpsstöðin PBS þætti sem byggðir eru á bók hans. Höfundurinn, Nicholi, er sálkönnuður og prófessor í læknadeild Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur um árabil rannsakað ævi og ritstörf þessara tveggja manna, einhverra mestu áhrifavalda á trúarhugsun 20.ald- arinnar. í bók þessari lætur hann þá ræðast við og takast á um þau málefni sem helst hafa brunnið á nýliðinni öld, það er, spurninguna um Guð, um trúna, siðgæðið, sannleikann, ástina, kynlífið, þjáninguna og dauðann. Nicoli teflir þessum hugsuðum fram til að varpa Ijósi á trúarhugsun tuttugustu aldar. Fyrri hluta starfsævi sinnar var C.S. Lewis sannfærður guðleysingi. Á þeim árum sótti hann í smiðju Freuds rök gegn guðstrú og trúarbrögðum. Eftir afturhvarf til kristinnar trúar tók hann upp fjölmörg rök Freuds og leitaðist við að svara þeim. í bókinni dregur Nicoli fram þessi meginatriði, rök Freuds fyrir því að guðs- myndin sé blekking og trúarbrögðin tál, og rök Lewis fyrir tilvist Guðs; Rök Freuds sem sér alla ást sem kynhvöt, og hugmyndir Lewis um hinar ýmsar birtingarmyndir ástar, kærleika, vináttu osfrv. Og allt þetta setur Nicoli fram með því að segja ævisögu og þroskasögu þeirra beggja. Sem sálkönnuði er Nicoli Ijóst hvernig lífsreynsla mótar heims- mynd og lífssýn jafnvel mestu hugsuða og lærdóms- manna. Þess vegna dvelur Nicoli við bernskusögur þeirra Lewis og Freud, og leitast við að varpa Ijósi á hvernig hugsun þeirra mótast og þroskast í glímunni við lífið. Alls staðar eru persónurnar og ævi þeirra í nánd. Hann vitnar í sendibréf og samtöl og gefur glögga mynd af því hvernig trú, skoðanir og ævin mótast saman. Hvergi fær maður þó á tilfinninguna að sálfræðiskýringar séu ofnotaðar og máls- atvik oftúlkuð. Öll framsetning ber vitni um yfirvegun og rökvísi. Sigismund Schlomo Freud var gyðingur, af trúræknu fólki kominn, alinn upp af strangri en elskulegri barnfóstru, sem var kristin, rómversk kaþólsk eins og flestir í átthög- um hans. Hann var á viðkvæmum aldri þegar barnfóstran var tekin frá honum og saknaði hann hennar sárt. Um tíu ára aldur komst hann að raun um reynslu föður síns af gyð- ingaandúð hins kaþólska samfélags. Hann dæmdi þegar föður sinn huglausan aumingja, sem hafi gefist upp, og það álit haggaðist aldrei. Á unglingsárum las Freud með á- fergju Feuerbach og heillaðist af röksemdafærslu hans fyr- ir því að trú sé einungis framlenging mannlegra hvata og þarfa, uppfylling djúpstæðra óska í mannssálinni. Hann eyddi því sem eftir var ævinnar í að vinna úr þessum von- brigðum yfir frammistöðu föður síns og niðurstöðum Feu- erbachs. Freud barðist allt til yfir lauk við trúna og réðist með hörku á guðsmynd og trúarbrögð. Hann varð með ár- unum bitur og reiður, snerist gegn lærisveinum sínum, var upptekinn af því að njóta ekki viðurkenningar svo sem Nóbelsverðlauna, sem hann taldi sig, vafalaust með réttu, eiga skilið. Lewis varð einnig fyrir áföllum í bernsku. Afi hans var prestur, og sem barn skammaðist Lewis sín fyrir ræðurnar hans og innantómatilfinningavellu. Móðursína missti hann níu ára að aldri og beið þess aldrei bætur. Faðir hans sendi hann í heimavistaskóla, þar sem Lewis varð fyrir barðinu á harðúð og kvalalosta skólastjórans. Sem ungur maður kynntist hann skelfingum skotgrafahernaðarins í fyrri heim- styrjöldinni, besti vinur hans féll í stríðinu. Allt markaði þetta djúp spor í sál hans. Hann snerist gegn Guði og kirkjunni og barðist ötullega fyrir guðleysi. Á miðjum aldri snerist Lewis til kristinnar trúar, ekki síst fyrir áhrif sam- kennara síns í Oxford, Tolkien. Ritstörf hans eftir það bera svip lífsglaðs manns sem sáttur við Guð glímir við hinar dýpstu spurningar samtíðarinnar. Enginn kristinn trúvarn- armaður hefur verið áhrifameiri á okkar tímum og enn eru bækur C.S.Lewis víðlesnar og kunnar víða um heim. Verið getur að Freud og Lewis séu fulltrúar andstæðna í okkur sjálfum, segir Nicoli í áhugaverðu viðtali. „Hluti af okkur þráir samfélag við uppsprettu gleði, vonar og ham- ingju, eins og Lewis lýsir, og jafnframt er annar hluti í okk- ur sem kreppir hnefa í reiði og andmælum og segir með Freud: Ég læt aldrei undan! Hvor hlutinn sem við kjósum að tjá mun móta markmið okkar, sjálfsmynd og alla lífssýn." Þótt Nicholi sé trúmaður og fari ekki dult með það, set- ur hann fram mál sitt af yfirvegun, sanngirni og gagnrýni er hann leggur mat á andstæð lífsviðhorf, trú og heimsmynd. Nicoli dregur upp sanngjarna og heiðarlega mynd af þeim Freud og Lewis báðum, sýnir vel hvernig þeir takast á við sorg sína og vonbrigði, sem og gleði og ástríður. Bókin er einstæð greining á áhrifamönnum og hugmyndum sem mótað hafa menningu okkar meir en okkur grunar. Ég mæli eindregið með þessari bók. Karl Sigurbjörnsson

x

Víðförli

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Víðförli
https://timarit.is/publication/1510

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.