Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 6
ELÍN ÓSK HREIÐARSDÓTTIR OG GAVIN LUCAS
ÞORPIÐ Í VIÐEY
Inngangur
Árið 1907 var stofnað þéttbýli á áður óbyggðu svæði á suðausturenda Viðeyjar.
Staðurinn hlaut nafnið Sundbakki en var oftast kallaður Stöðin eða Þorpið á
meðal þeirra sem þekktu þar til. Hér eftir verður oftast talað um Þorpið, en
það átti sér stutta en áhugaverða sögu. Þorpið reis að mestu á árunum 1907-
1909 og var komið í eyði tæpum fjórum áratugum síðar.
Rannsóknin á Þorpinu sem hér er greint frá var hluti af alþjóðlegu
verkefni sem sneri að nýlegum rústum og bar yfirskriftina Ruin Memories.
Markmiðið með verkefninu var að tengja saman fornleifafræðinga og aðra
fræðimenn á þessu sviði frá Noregi, Íslandi, Svíþjóð, Englandi og Spáni, nota
aðferðir fornleifafræðinnar til að rannsaka nýlegar rústir út frá efnisveruleika
þeirra og kanna þær m.a. út frá fræðilegu og fagurfræðilegu sjónarhorni.1
Á undanförnum áratugum hafa fornleifafræðingar sýnt nýliðinni fortíð og
samtíma sínum meiri athygli. Sýnt hefur verið fram á að fornleifafræðilegar
rannsóknir geti veitt nýja innsýn í það sem rannsakað er, óháð því hversu
nálægt eða fjarlægt efnið er okkur í tíma.2 Ástæðan er einföld: heimildir
um forn og ný samfélög eru hvorki jafngildar eða sambærilegar og það
sem ritheimild getur sagt okkur um sögu einhvers staðar er næstum því
áreiðanlega annað en það sem uppgröftur gæti sagt um sama stað.
Til að safna sem fjölþættustum upplýsingum um lífið í Þorpinu var
ákveðið að nota víða nálgun, grafa upp mannvistarleifar, taka viðtöl við
heimildamenn og kanna ritaðar heimildir. Ýmsar heimildir eru tiltækar um
sögu Þorpsins. Þær er m.a. að finna í manntölum og fasteignamati, í ævisögum,
á gömlum kortum, á ljósmyndum og í blaðagreinum. Að auki skrifaði Magnús
Þorkelsson stutta en skilmerkilega grein um Þorpið á 10. áratug 20. aldar og
1 Olsen og Þóra Pétursdóttir, 2014. Sjá nánari upplýsingar um verkefnið á heimasíðu þess
www.ruinmemories.org.
2 Sjá t.d. Lucas og Mjöll Snæsdóttir 2006.