Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Blaðsíða 14
13ÞORPIÐ Í VIÐEY
gangandi. Stjórn félagsins var dýr og dreifð og svo virðist sem ósamkomulag
hafi snemma orðið á milli stjórnenda þess. Snemma árs 1909 var gert
samkomulag þess efnis að Pétur Thorsteinsson viki úr stjórn og hætti öllum
afskiptum af fyrirtækinu. Í ævisögu sinni segir Thor Jensen að hann hafi þegar
þetta sama ár byrjað að huga að því hvernig hann gæti sagt skilið við fyrirtækið
áður en það yrði gjaldþrota. Þó liðu enn þrjú ár þangað til hann sagði upp
stöðu sinni við félagið en á þeim tíma tryggði hann sér eignir og togara til
að hefja sinn eigin rekstur.23 Æ erfiðara reyndist að fjármagna fyrirtækið og
svo fór að í upphafi árs 1914 voru greiðslur fyrirtækisins stöðvaðar og það
því gjaldþrota.24 Félagið var hins vegar ekki formlega lýst gjaldþrota og því
eru ekki til hefðbundin gögn um gjaldþrotaskipti. Stærstu kröfuhafar voru
Handelsbanken og Nationalbanken í Kaupmannahöfn sem og Íslandsbanki.25
Í kjölfarið var mynduð skiptanefnd til að gera upp skuldir þrotabúsins og
starfaði hún líklega í nokkur ár þótt lítið sé vitað um starfsemi hennar.
Gjaldþrot Milljónafélagsins var þungt áfall fyrir Þorpið en það reyndist þó
engan veginn dauðadómur yfir því. Það var einkum tvennt sem vann með
Þorpinu á þessum tíma, annars vegar var þar eina hafskipabryggja svæðisins
og í öðru lagi var þar góð aðstaða til þjónustu við skip sem og til vinnslu og
verkunar sjávarafurða. Þetta hefur líklega ráðið mestu um það að ekki dró að
ráði úr íbúafjölda í Þorpinu á þessum tíma ef frá er talið sjálft gjaldþrotsárið.
Árið 1918 var íbúafjöldi í Þorpinu orðinn meiri en fyrir gjaldþrot, þrátt fyrir
að gerð hafnar í Reykjavík árið 1917 hafi dregið úr mikilvægi Viðeyjar fyrir
svæðið.26 Af blaðaauglýsingum frá þessum tíma má sjá að auglýst er eftir
starfsfólki til vinnu í Þorpinu flest árin fram til 1920.27
Síðara blómaskeið Þorpsins
Um 1920 hófst seinna blómaskeiðið í sögu Þorpsins. Fiskveiðahlutafélagið
Kári, eða Kárafélagið eins og það var oftast nefnt var stofnað 1919. Á næstu
árum nýtti það sér aðstöðuna í Viðey en árið 1924 keypti það Stöðina og
færði höfuðstöðvar sínar út í eyjuna.28
Rekstur Kárafélagsins í Viðey byggði sem fyrr á fiskveiðum og -verkun
23 Sjá Ásgeir Jakobsson 1990, bls. 351-363 og Thor Jensen 1983, bls. 110-122.
24 Ásgeir Jakobsson 1990, bls. 312-315.
25 „Miljónarfélagið III“ 1914, bls. 439.
26 Sóknarmanntöl í Viðey 1907-1943.
27 Birtar auglýsingar t.d. Morgunblaðið 1914, bls. 657; Morgunblaðið 1915, bls. 3; Morgunblaðið 1916, bls.
3; Morgunblaðið 1917, bls. 1; Morgunblaðið 1919, bls. 4 og Morgunblaðið 1920, bls. 4.
28 Vísir 1924, bls. 2.