Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Side 19
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS18
á svæðinu eða jafnvel koma þar upp heimili fyrir aldraða sjómenn. Gerðar
hafa verið kannanir um hugmyndir fólks um framtíðarnýtingu á eyjunni,
stýrihópar og nefndir stofnaðar án þess að endanleg niðurstaða hafi fengist
um framtíðarhlutverk Viðeyjar eða Þorpsins á suðausturendanum.44 Á meðan
standa leifar Þorpsins á sínum stað þó að veður, vindar og sjávarrof vinni
talsvert á sumum þeirra.
Þorpsbúar
Eitt af markmiðunum með rannsóknum á Þorpinu var að afla upplýsinga
um fólkið í Þorpinu. Það er ekki sjálfgefið fyrir fornleifafræðinga að hafa
aðgang að fólki sem man það tímabil sem rannsakað er og þegar svo ber við,
er mikilvægt að nýta það vel. Flestir af þeim sem bjuggu í Þorpinu í Viðey eru
nú látnir en þó er enn á lífi hópur fólks sem ólst upp í Viðey og bjó þar jafnvel
fram á unglingsár. Við rannsóknir á Þorpinu voru tekin ítarleg viðtöl við fimm
þorpsbúa á níræðis- og tíræðisaldri og nýttar upplýsingar úr fimm öðrum
viðtölum sem Örvar B. Eiríksson, sagnfræðinemi tók árið 2003 við vinnslu
BA ritgerðar sinnar um Þorpið.45 Markmiðið með viðtölunum var að safna
upplýsingum um daglegt líf í Þorpinu og reyna eins og hægt væri að fanga
andrúmsloftið í Þorpinu, fá upplýsingar um venjur og hefðir og síðast en ekki
síst um efnismenningu staðarins. Lagt var upp með staðlaða spurningalista m.a.
um efnivið húsa, skipulag og innviði, neyslu, endurnýtingu og daglegt líf s.s.
mataræði, mataráhöld, eldivið, rusl og afganga o.s.frv. Kannað var hvaða hluti
af efnismenningu Þorpsins var fenginn á staðnum/heimagerður og hvað var
aðflutt og þá hvaðan og hvert efniviður Þorpsins dreifðist þegar hætt var að búa
þar. Því var spurt um hvað fjölskyldur komu með sér til eyjunnar og hvað þær
tóku með sér þegar þær fóru og hvort heimildamenn okkar ættu enn einhverja
gripi sem fjölskyldan hafði haft í Viðey. Spurt var um hvaðan þorpsbúar komu,
hversu lengi þeir stöldruðu við og hvert þeir fluttu að dvölinni lokinni. Þrátt
fyrir að lagt hefði verið upp með að ná eins góðri innsýn og hægt var í daglegt líf
í Þorpinu enduðu viðtölin þó óhjákvæmilega á því að snúast að mestu almennt
um barnæsku í þéttbýli á fyrri hluta 20. aldar, enda áttu viðmælendurnir það
allir sameiginlegt að hafa aðeins búið í Þorpinu fyrstu æviárin.
44 Í yfirliti yfir málasafn Þórðar Björnssonar frá 1954 (varðveitt í Einkaskjalasafni Þjóðskjalasafns
Reykjavíkur) kemur fram að hann leggur það ár fram tillögu í bæjarstjórn um Byggðasafn (í Viðey).
Um hlutverk eyjunnar og Þorpsins er einnig fjallað víða í dagblöðum, sjá t.d. „Hver verður framtíð
eyjanna úti á Sundum?“ 1976, bls. 12-13; Ólafur Jóhannsson 1983, bls. 14 og Guðmundur Gíslason
1951, bls. 114. Árið 1988 Stóð Reykjavíkurborg fyrir samkeppni um nýtingu Viðeyjar og stýrihópur
sem fjallaði um framtíðarhlutverk Viðeyjar og fleiri eyja skilaði niðurstöðum árið 2001. Framtíðarsýn
um Viðey og aðrar eyjar á Sundum 2001, bls. 1.
45 Brot úr viðtölunum birtust í BA ritgerð Örvars B. Eiríkssonar 2003.