Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Blaðsíða 38
37ÞORPIÐ Í VIÐEY
minnti í það minnsta á þá, sem þarna höfðu fæðst, lifað og starfað, já og jafnvel
dáið. Yfir öllu plássinu ríkti dauðakyrrð, ef undan er skilið garg svartbakanna,
sem virtust hafa lagt undir sig eyjuna.62
Það var mörgum heimildamönnum einnig hugleikið hvernig Þorpið einfald-
lega „hvarf “ á stuttum tíma. Það sem virtist fasti í tilveru þessa fólk leystist
upp við endalok Þorpsins og dreifðist með fyrri íbúum þess. „Þetta hvarf
bara eins og dögg fyrir sólu,“ sagði fyrrum íbúi um eyðingu Þorpsins.63 En
efnismenning Þorpsins hvarf auðvitað ekki. Ákveðinn hluti hennar varð eftir
í eyjunni, á formi húsgrunna, brunna, vega, kálgarða og alls þess sem jörðin
hefur að geyma. Það sem eftir varð var gjarnan sá efniviður sem fenginn var
af svæðinu, s.s. grunnar húsa sem hlaðnir voru úr grjóti úr eyjunni og bólvirki
hafnarinnar sem var hlaðið úr sama efnivið. Stór hluti af öðrum efniviði
Þorpsins kom annars staðar frá og hvarf annað eftir að lífdögum þess lauk.
En í stað þess að einblína bara á það sem varð eftir í Þorpinu er áhugavert
að reyna að skoða það sem „hvarf“, bæði hvaðan efniviðurinn sem myndaði
Þorpið kom upphaflega og hvar hann endaði eftir að hann fór úr Viðey. Til
að reyna að skoða þetta betur var reynt að rekja uppruna þeirra hluta og fólks
sem mynduðu Þorpið. Þorpsbúar sjálfir komu víðs vegar að eins og áður hefur
verið minnst á. Þeir áttu flestir rætur í sveitum landsins þótt algengt hafi verið
að þeir hafi síðast búið á höfuðborgarsvæðinu áður en þeir fluttu í eyjuna.
Flestir þeirra fluttu aftur til höfuðborgarsvæðisins eftir að Þorpið leið undir
lok en þó var vitanlega allur gangur á því. Byggingarefni mannvirkja virðist
hafa komið nokkuð víðs vegar að. Grunnar húsa og bólvirki hafnarinnar í
Þorpinu var líklega fengið í klöppunum við Þorpið. Sama efni var líklega
notað í Steinhúsið að hluta en annar efniviður kom annars staðar frá og var
að mestu endurnýtt timbur frá Íslandi og Noregi.
Miklar timburbryggjur og -hús í Mandal í Noregi voru keyptar til niðurrifs,
fluttar til Íslands og notaðar í bryggjur og byggingar Milljónafélagsins og
talsvert magn af timbri kom frá hvalveiðistöð að Framnesi við Dýrafjörð sem
starfaði 1893-1903. Þar voru tekin niður hús, bryggjur og fleiri mannvirki
og timbur flutt til Þorpsins og endurnýtt. Að auki var eitt húsanna í Þorpinu
byggt úr timbri úr Kútter Ingvari sem fórst við eyjuna 1906. Flest húsanna
í Þorpinu voru því byggð úr endurnýttu efni sem átti sér sögu og hafði
þjónað hlutverki á öðrum stöðum áður en það var notað á Sundbakka.
Þegar lífdögum Þorpsins lauk reyndist erfitt að selja eignirnar í Viðey og
því gripu eigendur þeirra á það ráð að taka niður húsin og nýta sér viðinn
62 http://frontpage.simnet.is/torol/vita/upphaf.htm.
63 Úr viðtali Örvars B. Eiríkssonar við Svavar Gíslason, sjá Örvar B. Eiríksson 2003, bls. 31.