Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Blaðsíða 44
43ÞORPIÐ Í VIÐEY
með uppgrefti á öskuhaugum gefur svo enn annað sjónarhorn, t.d. inn í
neyslu, mataræði, efnismenningu og daglegt líf. En safnið má einnig nota
til að fá nýtt sjónarhorn á málefni sem eiga sér mun víðari skírskotun í
Íslandssögunni s.s. iðnvæðingu og þéttbýlismyndun eða um innflutning og
nýlendustefnu. Frekari rannsóknir í Þorpinu ásamt samanburði á gripum frá
öðrum uppgraftarstöðum frá sama skeiði gætu hæglega varpa betra ljósi á þær
miklu samfélagsbreytingar sem áttu sér stað hér á landi á síðari hluta 19. aldar
og fram eftir 20. öld og endurspeglast m.a. í breyttu búsetu- og neyslumynstri.
Þótt ekki sé liðinn langur tími frá því að Þorpið fór í eyði er stór hluti
af þeirri efnismenningu sem myndaði Þorpið horfinn. Efnismenning
Þorpsins dreifðist með fyrrum íbúum þess, var endurnýttur, skemmdist, var
hent, eða glataðist með öðrum hætti. Eftir standa nokkrir valdir kjörgripir
hjá brottfluttum þorpsbúum, hlutar íbúðarhúsa sem voru endurbyggðir í
Reykjavík og víðar og svo rústir og önnur ummerki í eyjunni ofan jarðar og
neðan. Leifar af Þorpinu hafa eyðst hratt eins og oft virðist reyndar raunin
með ungar minjar. Ungum rústum virðist nefnilega oft jafnvel enn meiri
hætta búin en „hefðbundnari“ og eldri rústum. Ástæðan er e.t.v. sú að þær
eru einfaldlega of nýlegar eða ungar til að það sé almennt viðurkennt að
varðveisla þeirra sé mikilvæg og gripið sé til aðgerða til að verja þær.
Innan fornleifafræði eru rannsóknir á nýliðinni tíð stundum litnar hornauga
og jafnvel álitnar sérviskuleg hliðargrein. Lagaumhverfi greinarinnar rammar
inn þessa hugsun þar sem aðeins þær minjar sem náð hafa 100 ára aldri teljast
til fornleifa. Þorpið í Viðey telst því ekki til lögmætra fornleifa ennþá, nema
að litlu leyti. En hvað veldur því að fornleifarannsóknir á nýliðinni tíð þykja
eins léttvægar og raun ber vitni? Það er vert að benda á að sagnfræðingar
setja sér engin slík tímamörk á viðfangsefnum sínum og saga 20. aldar er
þeim jafn mikilvæg og annarra alda, fjarlægari í tíma. Það er áhugavert að
velta því fyrir sér hvers vegna slíkur munur er á sjónarhorni sagnfræðinga
og fornleifafræðinga. Munurinn virðist liggja í efniviðnum sjálfum, þ.e.
tengjast eðli rústanna sjálfra. Það virðist eðlilegt og sjálfsagt að kanna skjöl og
munnlega sögu frá nýliðinni fortíð en ekki efnislegar leifar frá sama skeiði.
Rústir frá nýliðinni tíð eru í eðli sínu áþreifanlegur minnisvarði um hrörnun
og endalok, á tímabili sem er óþægilega nærri okkur í tíma, á annan hátt en
t.d. skjöl eða annars konar efniviður getur orðið það. Rústirnar af Þorpinu í
Viðey, og aðrar sambærilegar rústir, eru ekki einungis minnisvarði um fortíð
sem er fyrir mörgum gleymd eða að gleymast, þær geta komið okkur til að
endurskoða viðteknar hugmyndir um fortíð og nútíma. Það er ekki síst þess
vegna sem varðveisla og rannsóknir á þeim eru mikilvægar.