Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 50
GUÐRÚN SVEINBJARNARDÓTTIR
TVÆR KINGUR FRÁ VÍKINGAÖLD
Ekki hefur varðveist mikill fjöldi skrautgripa frá víkingaöld á Íslandi Sjá
má skyldleika margra þeirra við gripi í Skandinavíu og er líklegt að þeir
gripir hafi komið þaðan til landsins. Það er akkur í því þegar bætist í þetta
gripasafn, en í þessari grein er fjallað um tvo slíka gripi, kingur sem komu
fram í dagsljósið fyrir tilviljun vegna uppblásturs á tveimur búsetustöðum
inni í landi. Í greininni eru kingurnar settar í samhengi við aðrar sams konar
kingur sem geta varpað ljósi á uppruna þeirra, aldur og notkun. Þá er, í ljósi
fundaraðstæðna beggja gripanna, bent á mikilvægi þess að minjavarslan sé í
góðum samskiptum við almenning í landinu svo að hann viti hvert eigi að
leita þegar gripir finnast í jörðu.
Niðurstöður úr umhverfisrannsóknum benda til þess að landið hafi
verið grónara fyrir landnám og á meðan það var að byggjast en síðar varð.
Vísbendingar um þetta er einnig að finna í síðari ritheimildum. Uppblástur
er talinn hafa hafist vegna veðurfarsbreytinga áður en fólk fór að koma til
landsins, en aukist til muna við landnámið vegna ágangs manna og dýra.1
Landið er enn að blása upp, þó í minna mæli vegna uppgræðslu sem beinist
að því að stöðva uppblásturinn. Ein afleiðing þess að land blæs upp er að
fornleifar finnast. Um 33% heiðinna grafa sem voru þekktar árið 1999 höfðu,
til dæmis, fundist þannig, aðallega á Suðurlandi.2 Bæjarstæði hafa einnig
blásið upp, ekki síst á hálendinu þar sem jarðvegur er oft þunnur. Margir bæir
á slíkum stöðum virðast ekki hafa verið lengi í byggð. Kingurnar tvær sem
eru viðfangsefni þessarar greinar fundust með 56 ára millibili (1947 og 2003)
á uppblásnum bæjarstæðum á tveimur stöðum inni í landi (sjá mynd 1).
Allt fram til ársins 1969, þegar ný þjóðminjalög mæltu fyrir um það að
forngripum sem fyndust á víðavangi skyldi skila til Þjóðminjasafns Íslands til
varðveislu,3 var það undir finnandanum komið að gera slíkt. Þó að mörgum
1 Sigurður Þórarinsson 1961.
2 Adolf Friðriksson 2000, bls. 591.
3 Þjóðminjalög 1969.