Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 64
HJALTI HUGASON
TVEIR KOSTULEGIR PREDIKUNARSTÓLAR
Um hugsanleg tengsl tveggja kirkjugripa frá 17. öld
Inngangur
Í upphafi þessarar aldar (2001) hóf glæsilegur bókaflokkur göngu sína, Kirkjur
Íslands, sem ætlað er að fjalla um allar friðaðar kirkjur á landinu hvort sem er
vegna aldurs, þ.e. að kirkjurnar hafi verið reistar fyrir 1918, eða með sérstakri
ákvörðun menntamálaráðherra að tillögu Húsafriðunarnefndar. Útgefendurnir,
Þjóðminjasafn, Húsafriðunarnefnd (síðar Minjastofnun) og Biskups stofa,
hafa staðið myndarlega að útgáfunni og að henni hafa komið margir helstu
sérfræðingar okkar á sviði byggingarsögu, byggingarlistar, fornleifa fræði og
á fleiri sviðum. Auk þess sem fjallað er um kirkjubyggingarnar sjálfar og
gripi þeirra eru einnig birtar ítarlegar greinar um hvern kirkjustað. Þegar
þessi grein er rituð (í ársbyrjun 2014) eru bindin orðin 22. Áætlun liggur
fyrir um útgáfu sex til viðbótar og koma hin síðustu væntanlega út haustið
2016.1 Meginviðfangsefni ritanna eru þær friðuðu kirkjur sem nú standa auk
þeirra gripa og áhalda sem prýða þær nú en einnig er þó í nokkrum mæli
fjallað um forna kirkjugripi úr viðkomandi kirkjum sem varðveittir eru í
Þjóðminjasafni. Ritröðin leggur mikilvægan grunn að kirknasögu landsins en
kirkjur eru viðamikill þáttur í byggingararfleifð þjóðarinnar og bæði þær og
búnaður þeirra eru fyrirferðarmikil í listasögu okkar fram á 20. öld. Eins og
öll góð fræðileg verk miðlar ritröðin mikilli þekkingu, svarar ótal spurningum
en kveikir jafnframt aðrar. Er hið síðast talda ekki hvað síst verðugt hlutverk
í fræðunum. Þannig spinnst orðræðan áfram og skilningur og þekking eykst
smám saman eftir því sem tímanum vindur fram.
Löngu áður en Kirkjur Íslands hófu að koma út hafði forvitni mín vaknað
um hugsanleg tengsl eða skyldleika milli tveggja fornra og sérstæðra kirkjugripa,
nánar til tekið predikunarstólsins í kirkjunni á Skarði á Skarðsströnd og stóls úr
Bræðratungukirkju í Biskupstungum sem nú er varðveittur í Þjóðminjasafni
1 Margrét Hallgrímsdóttir, Þorsteinn Gunnarsson og Karl Sigurbjörnsson 2001, bls. 7-10.