Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 70
69TVEIR KOSTULEGIR PREDIKUNARSTÓLAR
Annað atriði sem rýrir gildi þeirrar skýringar að predikunarstóllinn á
Skarði hafi staðið á altarinu er að í kirkjunni er einnig forn altarisbrík eða
altarisskápur. Með því er átt við þrískipta töflu sem hægt er að loka með
vængjum líkt og þeim sem prýða stólinn og hefur að geyma útskornar
myndir. Myndirnar í bríkinni telur Þór Magnússon með „ágætustu
íslenzkum kirkjugripum“, þær eru frá síðari hluta miðalda, í gotneskum stíl
og líklega gerðar í Þýskalandi eða Hollandi að mati Matthíasar Þórðarsonar
(1877–1961).18 Þessir tveir öndvegisgripir hafa ekki þjónað sem altaristöflur
á háaltari í sömu kirkju á sama tíma. Nú er að athuga að miðaldabríkin
var orðin löskuð og hlaut mikla endurgerð í Kaupmannahöfn á árunum
1787–1788.19 Ef miðaldabríkin hefur vikið fyrir stólnum þegar hann kom í
kirkjuna má vera að hún hafði látið svo mjög á sjá að endurgerðar hafi verið
þörf tæpum 140 árum síðar. Algengt var að altaristöflum sem gengu úr sér
eða voru af öðrum ástæðum fjarlægðar af upprunalegum stað væri komið
fyrir yfir kórdyrum og vikju síðan á óæðri staði og þá e.t.v. í hlutum líkt og
raun varð á í Bræðratungu en þar var gömul altaristafla að endingu notuð í
þiljur eins og síðar verður rakið. Hitt vekur meiri vangaveltur hvort líklegt
sé að slík umskipti hafi orðið á 9. áratug 18. aldar að forn miðaldabrík hafi
verið dregin fram að nýju, send utan til viðgerðar eða „forvörslu“ og komið
fyrir á upprunalegum stað en minnisvarði um merkishjón í Skarðs-ættinni
látinn þoka um set. Vart er til annað dæmi um slíkt frá þessum tíma. Virðist
líklegra að Skarðs-bríkina hafi allan tímann verið á sínum stað nema árið sem
hún var send utan og sú staðsetning hennar einmitt valdið því að henni var
gert þetta til góða. Þá er þess að geta að ekkert í meginmyndefni töflunnar
kallaði á að hún væri fjarlægð af guðfræðilegum ástæðum eftir siðaskiptin.20
Hugsanlegt væri að predikunarstóllinn hafi verið látinn þjóna sem altaristafla
veturinn sem miðaldabríkin var í viðgerð. Ólíklegt þykir að ráðist hafi verið
í svo viðamikla breytingu á kirkjunni fyrir svo skamman tíma enda skýrir
það ekki þá gerð stólsins sem hér er til umræðu þar sem vængjunum var ekki
komið fyrir á honum við þetta tækifæri.
Loks má benda á að Daði og Arnfríður voru af fyrstu eða annarri kynslóð
lúthersks fólks hér á landi eftir því hvernig talið er, fædd um aldarfjórðungi
eftir siðaskipti í Skálholtsbiskupsdæmi.21 Vera má að erfingja þeirra hafi þótt
18 Þór Magnússon 2010, bls. 161–162.
19 Þór Magnússon 2010, bls. 161–162.
20 Þór Magnússon 2010, bls. 163–166.
21 Sagt hefur verið að Daði á Skarði héti eftir Daða Guðmundssyni (d. 1563) í Snóksdal. (Ingiberg J.
Hannesson 1987, bls. 41). Hann var mikill andstæðingur Jóns Arasonar og nokkurs konar veraldlegur
verndari siðaskiptamannanna í Skálholti. Loftur Guttormsson 2000, bls, 54, 59, 61 (rastaður texti).