Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Blaðsíða 78
77TVEIR KOSTULEGIR PREDIKUNARSTÓLAR
saman 1633 að Gísla látnum.52 Sýnir atvikið þær hagkvæmnisástæður sem
ríktu við kvonbænir á þeim þrönga hjónabandsmarkaði sem fólk úr hæsta lagi
samfélagsins bjó við en að sögn Boga Benediktssonar þótti óhæfa á þeim tíma
að gifta dætur sínar öðrum en þeim er væru helmingi ríkari en konuefnið.53
Hjónin á Skarði hafa bæði verið gagnkunnug Bræðratungu-stólnum úr
uppvextinum. Faðir Valgerðar gaf hann og hún ólst að nokkru upp með hann
fyrir augunum. Eggert hefur aftur á móti kynnst gripnum í sinni upprunalegu
dýrð á námsárum sínum í Bræðratungu. Hafi stóllinn verið gerður sérstaklega
í tengslum við brúðkaup Kristínar hafði hann með afdrifaríkum hætti
spunnist inn í líf þeirra beggja. Þá höfðu feður beggja gefið predikunarstóla
til heimakirkna sinna. Þegar hjónin fetuðu í fótspor þeirra má ætla að leitað
hafi verið fyrirmyndar í Bræðratungu-stólnum kostulega sem vissulega hefur
skorið sig frá venjulegum predikunarstólum. Skýringarinnar á sérstæðri gerð
Skarðs-stólsins er þá ekki að leita í staðsetningu hans í kirkjunni eins og
annars hefði legið beint við að álíta.
Lokaorð
Hér hafa ýmsar efasemdir verið hafðar uppi og spurningar verið vaktar
um skýringar á kostulegri gerð predikunarstólanna í Skarðskirkju og úr
Bræðratungu. Er litið svo á að Bræðratungu-stóllinn mótist af praktískum
aðstæðum, þ.e. upprunalegri staðsetningu sinni í þröngri einkakapellu Gísla
lögmanns Hákonarsonar, en jafnframt af vilja til að gera hana sem veglegasta.
Aftur á móti er hér látið að því liggja að gerð Skarðs-stólsins ráðist fyrst og
fremst af að við smíði hans hafi fyrirmynd verið sótt til Bræðratungu þótt
engan veginn sé um eftiröpun að ræða. Síðarnefndi stóllinn er hins vegar
aldrei talinn hafa staðið á altari kirkjunnar. Hér er því hafnað þeirri skýringu
að formgerð stólanna mótist af staðsetningu þeirra yfir háaltari í kirkjunum
sjálfum og tvíþættu notagildi, þ.e. sem predikunarstóls og altaristöflu.
Helsta tilefni þessarar greinar er að vekja athygli á að full þörf er á að
52 Bogi Benediktsson 1889–1904, bls. 112–113. Bogi Benediktsson 1909–1915, bls. 277–279. Jón
Halldórsson 1911–1915, bls. 104–105. Þóra Kristjánsdóttir 2005, bls. 46–49. Um Kristínu segir í
Biskupasögum Jóns Halldórssonar: „Kristín var stór lukkukona, framar flestum kvinnum hér í landi
í sinni tíð, lögmannsdóttir, biskups hústrú, tveggja biskupa móðir [Gísla Hólabiskups (1657–1684)
og Þórðar Skálholtsbiskups (1674–1697)], sá og dótturdóttur sína biskups hústrú [Þrúði (1666–
1738) konu Björns Þorleifssonar Hólabiskups (1697–1710)]. Sat í sínu ekkjustandi á Víðivöllum
í Skagafirði, hafði sér til uppheldis nokkrar Hóla dómkirkju jarðir. Andaðist nærri áttræðis aldri
1694.“ Jón Halldórsson 1911–1915, bls. 105–106. Hér má sjá hvernig kona og ágæti hennar er
skilgreint út frá þeim körlum sem hún tengdist. Sjá Guðný Hallgrímsdóttir 2013, bls. 16.
53 Jón Halldórsson 1911–1915, bls. 104. Bogi Benediktsson 1889–1904, bls. 113–114.