Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 84
SIGRÍÐUR SIGURÐARDÓTTIR
KIRKJUTENGD ÖRNEFNI Í SKAGAFIRÐI
Byggðasafn Skagfirðinga hefur staðið fyrir rannsóknum á elstu kirkjum í
Skagafirði undir heitinu Skagfirska kirkjurannsóknin1. Í henni er lögð áhersla
á að skrá og kortleggja jarðir þar sem elstu kirkjur í byggðum Skagafjarðar
hafa sennilega verið. Skráðar heimildir um kirkjur fyrir 1300 eru fáar og
ófullkomnar og því hefur víða verið leitað fanga. Grein þessi byggist á könnun
örnefna í Skagafirði sem gætu tengst kirkjum og kirkjuhaldi. Fyrir vikið
einskorðast hún við afmarkað svæði og, af því að efnið er æði viðamikið, er
ekki farið í samanburð við önnur landsvæði á þessu stigi málsins. Hér eru
skoðaðir möguleikar þess að nota kirkjutengd örnefni sem heimildir um
guðshús, þ.e. kirkjur og bænhús. Örnefni eru sótt í örnefna- og fornleifaskrár,
Byggðasögu Skagafjarðar og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem skráð
var í Skagafirði á árunum 1709-1714, í sóknalýsingar frá 19. öld og í munnmæli
en í þeim koma oft fram heimildir um kirkju- og grafreitatengd örnefni.
Ganga verður út frá því að fjöldi örnefna hafi tapast á löngum tíma og á milli
kynslóða og að einhver hafi afbakast eða vikið fyrir nýjum heitum samhliða
breytingum á kirkjuhaldi, nýtingu lands og þróun tungumálsins. Þó má búast
við að einhver örnefni hafi varðveist óbreytt einkum hafi þau skírskotað til
einhvers sem fólk taldi sig þekkja. Spurningin er hvort örnefni geti nýst sem
heimildir um guðshús og grafreiti frá elstu tíð, hvort hægt sé að sannreyna
þau með uppgreftri eða hvort í þeim felist ágiskanir fremur en raunveruleiki.
Yfirleitt eru menn sammála um mikið notagildi örnefna fyrir rannsóknir á
minjum og menningarsögu en tengsl milli örnefna og fornleifa eru þó ekki
alltaf einföld.2 Í mörgum tilfellum koma kirkjutengd örnefni ekki fram
skriflega fyrr en mörg hundruð árum eftir að guðshúsin sjálf hurfu af yfirborði
jarðar. Varðveisla örnefna og munnmæla hefur vafalaust tengst áhuga og
1 Sigríður Sigurðardóttir 2012, bls.17-40; Guðný Zoëga og Guðmundur St. Sigurðarson 2010, bls.
95-115.
2 Svavar Sigmundsson 1996, bls. 70; Magnús Finnbogason 1937, bls. 193. Haraldur Bernharðsson
2004, bls. 27; Þórhallur Vilmundarson 1976, bls. 79-80.