Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Síða 85
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS84
árvekni ábúenda á hverjum tíma, því hvað fólki fannst merkilegt og mikilvægt
en einnig sýnileika þess sem örnefnið vitnaði til. Fátt er hægt að fullyrða um
hvort órofa vitneskja er um örnefni frá gamalli tíð og varðveislan hlýtur að
velta á því að búskapur hafi verið samfelldur og að þekking hafi haldist á milli
kynslóða. Þótt einhver örnefni hafi tapast hefur ótrúlegur fjöldi þeirra varðveist
og í flestum tilfellum eru þau ómetanlegar heimildir um hugmyndir fólks um
kirkjur, a.m.k. í þeim tilfellum þar sem þau eru einu heimildirnar um löngu
liðna tíð. En þau geta einnig reynst villandi s.s. Dómhringurinn sem svo var
kallaður við þingstaðinn í Garði í Hegranesi, en reyndist vera kirkjugarður.3
Fornleifarannsóknir, sem hafa farið fram á bæjum þar sem örnefni vitnuðu
um guðshús, hafa leitt í ljós að sum er auðvelt að tengja fornleifunum en
önnur ekki. Örnefnið Bænhúsgarður átti við hringlaga garðlag á Ysta-Mói
í Flókadal og vitað var um bænhús þar um 1480.4 Þegar garðurinn var
kannaður sumarið 2010 kom í ljós að hann hafði verið notaður til greftrunar
á 11. öld og flest benti til að guðshúsið hefði verið í notkun a.m.k. fram á
14. öld.5 Fjárhús sem stóðu í Neðra-Ási í Hjaltadal fram á tíunda áratug 20.
aldar voru kölluð Bænhús. Örnefnið var tilkomið af því að þau voru reist á
grunni guðshúss sem stóð þar fram á 13. öld.6 Í Ási var reist fyrsta kirkja í
Skagafirði eftir því sem sögur herma.7 Niðurstaða fornleifarannsóknar þar
var sú að elstu byggingarleifar undir fjárhúsunum væru af kirkju frá 11. öld.8
Þannig má segja að þessi kirkjutengdu örnefni hafi reynst tækar heimildir
um elstu guðshús og grafreiti. Þá er það spurningin hvort það var tilviljun
að þessi tvö örnefni reyndust tengjast svo gömlum guðshúsum eða hvort
önnur kirkjutengd örnefni geti nýst til að staðsetja elstu kirkjur. Einnig hvort
örnefni vitna um það hver staða guðshúsa var á jörðum svo sem hver munur
var á bænhúsi og kirkju.
Í elstu skráðum lögum, frá 13. öld, er gerður greinarmunur á bænhúsi og
kirkju9. Þá voru biskupar farnir að stjórna kirkjuhaldi og leyfðu eða bönnuðu
það að vild, skipuðu bæjum í sóknir og vígðu „sönghús og bænahús.“10 Í
14. aldar máldögum eru guðshús skilgreind samkvæmt stöðu þeirra gagnvart
prestsþjónustu, í alkirkjur, hálfkirkjur, þriðjungskirkjur, fjórðungskirkjur og
bænhús. Heimildir eru um að fjórðungskirkjur hafi þá verið kallaðar bænhús,
3 Guðný Zoëga 2009, bls. 4-12.
4 Diplomatarium Islandicum/Íslenzkt fornbréfasafn V, bls. 355.
5 Guðný Zoëga 2010, bls. 20-22.
6 Orri Vésteinsson 2000, bls. 19-22.
7 Íslenzk fornrit XV, bls. 10.
8 Orri Vésteinsson 2000, bls. 22.
9 Bænhús var þar sem heimilisfólk gekk til bæna, með stopula eða litla prestsþjónustu. Grágás, bls. 43.
10 Grágás, bls. 16.