Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Síða 105
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS104
notaðar sem smiðjur, eftir að þær voru lagðar af sem guðshús, eins og virðist
hafa verið gert í Keldudal og Neðra-Ási fyrir 800 árum.168 Kirkjubyggingar
stóðu stakar og því var skynsamlegt að nýta þær sem smiðjur því mikil
eldhætta var af eldsmíðinni. Merki eru um að kirkjur hafi verið reistar á
smiðjugrunnum eins og á eldri kirkjustaðnum í Seylu.169 Í þessu samhengi
má skoða örnefnið Krosshól í túninu á Lýtingsstöðum þar sem einhvern tíma
gæti hafa staðið smiðja, en þar kom upp nokkuð af ösku og gjallleifum þegar
hóllinn var sléttaður.170 Lýtingsstaðakirkja gæti hugsanlega hafa verið færð
til eins og Seylukirkja en örnefnið gæti einnig verið dregið af einhverju
allt öðru. Þar sem Héraðsdalskirkja stóð fram á 18. öld sást „víða aska og
dýrabein og meira að segja gjall sem vitnar um eldsmíði“171 og líklegt að hún
hafi verið notuð sem smiðja eftir að hún fór úr notkun sem guðshús. Hóll
hjá Grafreitnum í Gilhaga var kallaður Smiðjuhóll eða Öskuhóll, segir í yngstu
örnefnaskrá.172 Kannski er það hending að smiðjunafn kallist á við kirkju á
sama stað þar en fornleifarannsóknir hafa þó sýnt fram á nokkuð sterk tengsl
þar á milli. Hugsanlegt er að eldurinn og askan í aflinum hafi verið talin
„hæfa“ guðshúsi betur en búsmali eða geymsluvarningur en dæmin í Lista 2
sýna þó að fólk hafi ekki verið mjög upptekið af fyrra hlutverki hússins eftir
að búið var að taka það til annarra nota.
Kirkjutengd örnefni á jörðum þar sem ekki eru aðrar heimildir um kirkjur
Nokkur örnefni, sem eru tilkomin af messuferðum eða eru dregin af
einkennum sem fólk tengdi við kirkjur, finnast á jörðum sem hafa ekki aðrar
tengingar við guðshús. Tíðavarða heitir klettahóll á Skefilsstöðum á Skaga, þar
um lá alfaraleið.173 Á Hafragili í Laxárdal er Krosshóll. Fyrir ofan hann voru
fjárhús sem kölluð voru Krosshólshús.174 Engar kenningar eru um nafngiftina.
Á Illugastöðum í Laxárdal er Biskupskelda sem dregur nafn af ónefndum
biskupi. Í landi Kirkjuhóls, sem var hjáleiga frá Víðimýri eru Kirkjuhólsás og
Kirkjuhólsdalur.175 Á Breið í Tungusveit er Róðhóll, sem skrásetjari örnefna segir
að sé tilkominn af krossi sem var settur upp eftir að manneskja lét þar lífið.176
168 Guðný Zoëga 2013b, bls. 39.
169 Guðný Zoëga 2013a, bls. 2.
170 ÖStÁM – Lýtingsstaðir, Margeir Jónsson skráði, bls. 1.
171 Byggðasaga Skagafjarðar III, bls. 179.
172 ÖStÁM – Gilhagi, bls. 8.
173 ÖStÁM – Skefilsstaðir, bls. 6.
174 ÖStÁM – Hafragil í Laxárdal, bls. 2.
175 Byggðasaga Skagafjarðar II, bls. 399; ÖStÁM – Víðimýri, bls. 3.
176 ÖStÁM – Breið, bls. 1.