Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 112
111KIRKJUTENGD ÖRNEFNI Í SKAGAFIRÐI
Flestar kirkjur í Skagafirði, aðrar en sóknarkirkjur, á 16.-17. öld virðast hafa
verið kallaðar bænhús og þegar kom fram á 18. öld voru flest guðshús, a.m.k.
þau sem voru búin að missa fyrrum meiri þjónusturéttindi, kölluð bænhús.
Þegar hlutverk aflagðra guðhúsa eru skoðuð blasir við að mismikil virðing
hefur verið borin fyrir þeim. Hafi fjós verið byggt „þar sem Grafreiturinn
var“219 við gamla bæjarstæðið í Gilhaga er sú aðgerð ekki ósvipuð því þegar
fjóshaugurinn var settur yfir Bænhústóftina á Hofi í Vesturdal á 20. öld.220
Kirkjugarðar virðast hafa lotið sömu lögmálum og guðshús, samanber
notkun bænhússins á Stóru-Ökrum þar sem hýst var sauðfé. Notagildið var
mikilvægara en viðkvæmni gagnvart fyrri þjónustu hússins, hafi hún verið
nokkur, eða þeim sem leg áttu í moldum. Allt bendir til að örnefni geti
verið mikilvægar heimildir um fornar kirkjur og grafreiti, sérstaklega hafi
merki þeirra verið lengi sýnileg í landslaginu, hafi guðshúsin verið lengur í
notkun en grafreitir eða fengið ný hlutverk s.s. skemmur og smiðjur. Engin
örnefni eru til sem vísa til kirkna og garða sem aflögð voru þegar á 11. og
12. öld og þar sem öll merki um þau hafa verið horfin þegar kirkna er fyrst
getið í ritheimildum. Þannig má tengja saman sýnileika minja og örnefna
sem vitna beint til kirkjugarða og kirkjuhúsa. Sá hængur er á örnefnum að
þau standa tæplega ein sem sönnunargögn og nýtast ekki ein við rannsóknir
á elstu kirkjum. Hægt er að lesa úr þeim staðsetningar og skilgreiningar
s.s. um kirkjur, bænhús, áningarstaði messugesta og leiðir til kirkju, sem
koma sér vel í kirkjurannsóknum. Aukaafurð örnefnakönnunar eins og
þessarar er sú að í kirkjutengdum örnefnum felast upplýsingar um ferðaleiðir
messugesta og presta og að örnefni sem tengjast messuferðum finnast ekki
síður á aðliggjandi jörðum en á kirkjujörðinni sjálfri.
Guðshús virðast hafa jöfnum höndum verið kallaðar kirkjur og bænhús í
seinni tíma heimildum og þá virðist ekki skipta máli hvaða stöðu þær höfðu
meðan þær voru í notkun. Það þarf því að fara varlega í að meta stöðu
kirkna út frá bænhúsnafninu þó svo að bænhús virðist í kirkjulögum og
máldögum frá 14. öld hafa verið sérstakur hópur guðshúsa sem höfðu stopula
prestsþjónustu, sennilega án graftarréttinda. Í mörgum tilvikum er Jarðabókin
fyrsta og eina heimildin sem til er um kirkju og kirkjugarð og þótt þar sé
getið um löngu aflagt bænhús ber ekki að skilja það svo að kirkjan hafi haft
stöðu bænhúss, samkvæmt fyrrgreindri skilgreiningu, þegar hún var í notkun.
Fólk virðist hafa kallað flestöll guðshús bænhús og fornleifarannsóknir
á undanförnum árum í Skagafirði hafa sýnt fram á að grafið var við allar
219 ÖStÁM – Gilhagi, bls. 8.
220 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 9. bindi, bls. 143.