Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 149
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS148
Hin þrönga, klassíska merking hugtaksins þjóðminjar
Víða merking hugtaksins „þjóðminjar“ byrjaði snemma að þoka fyrir
annarri þrengri og virðist sú hafa verið búin að hasla sér völl í kringum
1910. Það var einmitt um það leyti sem byrjað var að kalla Forngripasafnið
Þjóðminjasafn9 og sú breyting helst örugglega í hendur við að hugtakið
fær þrengri merkingu og fer að ná fyrst og fremst yfir fornleifar og jafnvel
bara ákveðinn hluta fornleifa. Þjóðminjar eru samkvæmt því þesslags hlutir
sem geymdir eru á Þjóðminjasafninu en óljósara er hvort fólki fannst þá að
allir hlutir geymdir á Þjóðminjasafninu væru þar með þjóðminjar eða hvort
sambærilegir hlutir – jafngamlir og jafnmerkilegir í einhverjum skilningi – sem
ekki væru á Þjóðminjasafninu gætu líka verið þjóðminjar. Sjaldnast talar fólk
skýrt um þetta en öll tilbrigðin eru til, sem sé:
Þjóðminjar geta verið
• allir hlutir sem eru geymdir á Þjóðminjasafninu, en bara þeir
– frá járnnöglum til Grundarstóla
• mikilvægu/flottu hlutirnir sem geymdir eru á Þjóðminjasafninu
– t.d. Grundarstólar
• allir hlutir eins og þeir sem geymdir eru á Þjóðminjasafninu, óháð því
hvar þeir eru niðurkomnir
– frá járnnöglum til skinnhandrita
• allir hlutir eins og mikilvægu/flottu hlutirnir á Þjóðminjasafninu,
óháð því hvar þeir eru niðurkomnir
– t.d. skinnhandrit
Undir þennan skilning geta líka fallið hlutir, eins og gömul hús og minjastaðir,
sem fólki finnst að mætti geyma á Þjóðminjasafninu ef það væri bara tæknilega
hægt að flytja þá þangað.
Eitt af fyrstu dæmunum um þessa merkingu er frá 1912 en í grein um
nauðsyn þess að setja niður lýðháskóla í Skálholti segir Helgi Valtýsson:
Fornar þjóðminjar eru öflugir þættir þjóðerniskendarinnar. Því höfum vér
Íslendingar sorglega gleymt á síðustu öldum. Vér vitum eigi hvílíkur styrkur
það er hverri þjóð að byggja og starfa á sögulegum grundvelli. Sögustaðir vorir
margir hverjir eru niðurníddir, gleymdir og ókunnir miklum hluta þjóðarinnar.
9 Matthías Þórðarson 1911 er fyrsta dæmið um að safnið sé kallað þjóðmenjasafn í árlegum skýrslum
um það. Matthías er fyrst titlaður þjóðminjavörður, en ekki fornminjavörður, í félagatali Hins
íslenzka fornleifafélags sem prentað er í Árbók þess 1927, bls. 80 (NN 1927).