Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Side 150
149ÞJÓÐMINJAR SEM INNVIÐIR
Þessarar þjóðsyndar verður æskulýður vor sárt að gjalda! „Nútíðin hvilir á
forntíðinni“. Allar lífsrætur vorar eru runnar úr þeim jarðvegi, sem slit feðra og
tár mæðra vorra hafa frjógað og döggvað. Og það er einn sá mesti styrkur vor
að finna til þessarar rótfestu! – Það er þjóðerniskendin, sterkasta taug þjóðlífsins!10
Þessi hugsun, tengingin milli fornleifa og þjóðernis, að fornleifarnar beinlínis
skilgreini þjóðernið, að rökin fyrir því að við eigum eitthvað sameiginlegt
hreint og beint liggi í verkum og vegsummerkjum formæðra okkar og
forfeðra, var ekki ný af nálinni á þessum tíma. Hún kemur strax fram hjá Helga
Sigurðssyni í frægri grein hans í Íslendingi 1863 þar sem hann gerði grein fyrir
stofngjöf sinni til Forngripasafnsins og útskýrði hvaða máli forngripir skiptu
fyrir þjóðernið:
Þó að allar fornmenjar hafi sitt gildi, hvaðan sem þær eru ættaðar, eru
þó hverri þjóð gagnlegastar og kærastar þær hinar sömu, sem ættaðar eru frá
fornöld hennar og gömlu þjóðerni; og því kærari eru, eða ættu þær að vera
þjóðinni, sem hún hefur varðveitt meira af þessu gamla þjóðerni, og hvílir
fremur við fornöldina, eins og t. d. Íslendingar. Henni, þ. e. [þjóðinni] er og
jafnskylt að gæta fornmenja sinna ... sem fornaldarsagna sinna og þjóðernis.
Því sje þeirra ekki gætt, er að því vísu að ganga, að þjóðerni það, sem á þeim
er byggt, verður á völtum fæti.11
Með öðrum orðum er þjóðerni sem ekki byggir á fornum minjum, sem
ekki hefur tengsl við fortíðina, og sem ekki hefur áhuga á þeim tengslum,
innantómt og tilgangslaust. Það sem hafði breyst í upphafi 20. aldar var að þá
var farið að nota hugtakið þjóðminjar einmitt um þetta, sem sé þær minjar
sem táknuðu eða beinlínis væru sá þráður sem tengdi fólkið í landinu við
fortíðina og þar með uppsprettu þess sem gerði okkur að þjóð. Án þjóðminja
værum við ekki þjóð, og það var ekki nóg að tala eigið tungumál, hafa eigin
lög eða þjóðbúning, það var nauðsynlegt að hafa fornleifar sem hægt væri að
kalla þjóðminjar.
Þessi skilningur var í fullu gildi fram á áttunda áratug 20. aldar hið minnsta
en snemma komu fram þversagnir og vandamál sem áttu á löngum tíma
eftir að grafa undan notagildi þessarar hugmyndar. Eitt af því augljósasta er
að samkvæmt þessum skilningi geta ekki allar fornleifar verið þjóðminjar.
Þetta kemur til dæmis skýrt fram hjá Halldóri Laxness í pistli sem hann
skrifaði um bágborið ástand íslenskrar menningar árið 1925, en þar segir
10 Helgi Valtýsson 1912.
11 Helgi Sigurðsson 1863, bls. 153.