Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 152
151ÞJÓÐMINJAR SEM INNVIÐIR
hann að í Reykjavík hafi öllu gömlu verið rótað burt, jafnt þjóðminjum
sem öskuhaugum.12 Öskuhaugar eru samkvæmt þessu ekki þjóðminjar en
greinilegt er samt að Halldóri hefur þótt eftirsjá í þeim og sú hugsun átti eftir
að ágerast, ekki síst í ritum Kristjáns Eldjárns, að þjóðminjar gætu vel verið
alls konar hlutir sem létu kannski ekki mikið yfir sér, þær þyrftu hvorki að
vera mjög einstakar né sérstök listaverk.13 Eftir sem áður loðir það mjög skýrt
við þennan skilning að þjóðminjar séu úrval – það megi kannski deila um
hvoru megin hryggjar tilteknar minjar lendi en að það sé ákveðin skipting:
sumar fornleifar eru þjóðminjar og aðrar ekki.
Annar vandi sem átti líka eftir að ágerast eftir því sem leið á 20. öldina var
hvernig ætti að skilgreina hvað væri þjóðlegt, hvað er íslenskt og hvað ekki.
Magnús Kjartansson gerði grín að þessu í grein í Dagblaðinu 1979. Hann
deildi við Halldór Laxness14 um dönskuslettur og taldi í því samhengi að orðið
„sko“ væri ekki danskt tökuorð – af „sgu“ – heldur boðhátt sagnarinnar „að
skoða“. Magnús vildi meina að ástæðan fyrir því að Íslendingar gætu varla
komið út úr sér setningu án þess að hafa í henni orðið „sko“, væri að það
væri svo rótgróið í málinu, að það væri sjálft landnámsorðið:
Þegar fyrsta fley landnámsmanna bar að ströndum okkar og Ísland reis úr hafi
... hefur fyrsta hljóðið sem barst úr barka norræns landnámsmanns vísast verið
sko, hrópað af þeim þrótti sem þanin lungu og strengd raddbönd leyfðu.
Á næstu áratugum hefur orðmyndin sko hljómað um gervallt landið, þegar
aðkomumenn hrifust af stórleik búsældarlegra héraða. Þannig má færa rök
fyrir því að sko sé sjálft landnámsorð íslendinga, engu ómerkara en efnislegar
þjóðminjar ...
Hér er raunar aftur á ferðinni gamla hugmyndin að margt fleira en fornleifar,
meðal annars orð, geti verið þjóðminjar en Magnús bætir við:
Einhver gæti sosum fundið upp á því að fussa og sveia og benda á að allar
fornar þjóðminjar séu andstyggileg áhrif frá keltum, norðmönnum og
sömum.15
Það var þessi áhyggja, hvað það væri við íslenska menningu sem væri sérstakt
og upprunalegt, og hvernig eitthvað gæti verið upprunalegt í landi sem hefði
aðeins rúmlega þúsund ára sögu, sem hélt vöku fyrir mörgum Íslendingnum
12 Halldór Laxness 1925, bls. 2.
13 Kristján Eldjárn 1967 („Merkilegur girðingarstaur – rifur úr vefstaðnum forna.“ bls. 130-32) er gott
dæmi um þetta.
14 Halldór Laxness 1979.
15 Magnús Kjartansson 1979.