Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 153
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS152
um miðbik síðustu aldar. Margir af okkar færustu vísindamönnum kepptust
við að reyna að skilgreina hvað væri sérstaklega íslenskt, og eðli málsins
samkvæmt hlutu þá að vakna spurningar um hvort fornleifar sem ekki gátu
staðið undir slíkum gæðastimpli gætu þá talist til þjóðminja. Um sumt var
enginn vafi: handritin til dæmis voru pottþétt þjóðminjar og stórt hlutfall af
tilvitnunum 647 snérist um þau, sérstaklega á meðan handritadeildan stóð
sem hæst. Annar minjaflokkur sem einnig er oft tengdur þessu hugtaki eru
torfbæirnir. Talsverð umræða var í blöðum um miðja 20. öld um nauðsyn
þess að varðveita þau fáu torfhús sem þá stóðu enn og eru þau iðulega kölluð
þjóðminjar. Mann hlýtur að gruna að svo hátíðlegt orðfæri hafi meðal annars
átt að slá vopnin úr höndum efasemdarmanna sem sáu ekki í torfbæjunum
glæsilega fulltrúa íslenskrar þjóðmenningar heldur ljót og óheilsusamleg
hreysi sem engum væru til sóma.
Friðlýsta minjastaði og friðlýst hús kallar fólk líka oft þjóðminjar, eins
og til að hnykkja á því að viðkomandi staður sé merkilegur, því annars væri
hætta á að það færi milli mála að hann væri þess virði að púkka upp á. Það er
áhrifameira að tala um friðlýstar þjóðminjar en friðlýstar fornleifar.
Aðrir flokkar fornleifa – eða þjóðlegra fyrirbæra – koma ekki skipulega
fyrir í sambandi við notkun hugtaksins „þjóðminjar“ en það getur engum
dulist sem skoðar fræðastarf íslenskra fornleifafræðinga og þjóðháttafræðinga
á 20. öld að eitt meginviðfangsefni þeirra var að skera úr um hvað væri
íslenskt og hvað ekki. Það gat snúist um það hvort einstakir gripir hefðu verið
smíðaðir á Íslandi – og stundum hefur fólk haft nánast angistarfullar áhyggjur
af þeim vafa sem er á því hvort að gripir á borð við Valþjófsstaðahurðina
eða Eyrarlandslíkneskið séu íslensk verk – en líka og ekki síður um hver
væru einkenni íslensks handverks, íslenskrar efnismenningar. Þannig komst
Kristján Eldjárn til dæmis að því eftir að hafa rannsakað íslenskt haugfé frá
víkingaöld í kjölinn að þó að gripirnir sjálfir væru erlendir – og bæru því
vitni hvaðan Íslendingar væru upprunnir – þá sýndi samsetning þeirra að
þegar á 10. öld hefðu Íslendingar verið búnir að koma sér upp sínum eigin
séreinkennum. Efnismenning þeirra var líkust þeirri norsku en hún var ekki
eins, hún hafði sitt eigið yfirbragð: sérstök þjóð var þá þegar í burðarliðnum
þó hún væri ennþá að tjá þjóðerni sitt í gegnum útlenda gripi.16 Það leiðir
af þessu að slíka gripi má þá kalla þjóðminjar. Það loðir við þessi fræði að
útlendir gripir teljast þeim mun ótvíræðar vera þjóðminjar eftir því sem þeir
eru eldri. Af 100 gripum sem Kristján Eldjárn lýsir í bók sinni Hundrað ár í
Þjóðminjasafni telst mér til að 21 sé ábyggilega útlendur, búinn til erlendis, en
16 Kristján Eldjárn 2000, bls. 485-86.