Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Blaðsíða 157
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS156
Þjóðminjar teljast þær minjar um menningarsögu Íslendinga sem ákveðið
hefur verið að varðveita í Þjóðminjasafni Íslands, í byggðasöfnum eða með
friðun ...20
Hér hafði lagatæknin tekið völdin; samkvæmt þessu teljast hvorki handritin
– önnur en þau örfáu sem eru á minjasöfnum – né íslenskir forngripir á
erlendum söfnum eða í einkaeigu til þjóðminja. Skilgreiningin er orðin
eignaréttarleg og varðar meira verkaskiptingu stofnana og embættismanna
en eiginlegt gildi þeirra minja sem til greina gæti komið að kalla þjóðminjar.
Við þetta situr hjá löggjafanum – í síðustu umferð var aðeins reynt að tjasla
í með því að búa til nýja skilgreiningu, þjóðarverðmæti sem nær þá yfir allt
sem ekki er á forsjá Þjóðminjasafnsins,21 en slíkar hugtakakúnstir sýna vel
hversu vitsmunalega gelt þessi hugtök eru orðin. Þau hafa enga jarðtengingu
og skipta engu máli nema í olnbogaskotum embættismanna.
Hitt er markverðara þetta með friðun allra fornleifa sem hér hefur verið í
gildi frá 1989. Þar að baki liggur róttæk og rökrétt hugsun af allt öðrum meiði
en hafði ráðið ferðinni fram að því. Samkvæmt henni eru allar fornleifar
jafnmerkilegar, óháð aldri – svo fremi að þær séu eldri en hundrað ára – óháð
uppruna og óháð því hvort þær tengjast einhvernveginn hugmyndum okkar
um íslenskt þjóðerni. Í þessu felst líka að við ætlum okkur að taka ábyrgð á
öllum þessum leifum, stórum og smáum, ljótum og fallegum, merkilegum og
ómerkilegum. Líklega endurspeglar þetta fremur vísindalegan styrk íslenskrar
fornleifafræði fremur en einhverja sérstaka geðsveiflu í þjóðarsálinni þarna í
lok níunda áratugarins – sennilega hafði hin sálræna þörf lognast út af löngu
fyrr – en á þessum tíma var komin kynslóð af fornleifafræðingum sem fannst
fornleifafræði ekki bara snúast um þjóðerni og áttaði sig á mikilvægi þess að
vernda fornleifar almennt. Rökin fyrir því eru einkum tvennslags:
• í fyrsta lagi ætti það að vera keppikefli að vernda allar fornleifar en ekki
bara sumar. Rök fyrir því geta auðvitað talist þjóðernisleg, en í stað þess
að gæði minjanna sjálfra séu í forgrunni þá eru það gæði minjavörslunnar
sem sker úr um hvort við erum almennileg þjóð eða ekki.
• Hin rökin eru að ef við ætlum að reka hér nútímalegar fornleifa rannsóknir
þá verður allt að vera undir, ekki bara sumt. Það tengist því að við viljum
geta spurt spurninga um ýmislegt fleira en bara það sem varðar íslenska
menningu sem slíka. Það eru til önnur viðfangsefni og mörg þeirra krefjast
20 Þjóðminjalög nr. 88, 29. maí 1989, 7. gr, 3. mgr.
21 Lög um menningarminjar nr. 80, 29. júní 2012, 2. gr.