Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Side 158
157ÞJÓÐMINJAR SEM INNVIÐIR
þess að við skoðum alls konar leifar sem ekkert augljóslega þjóðlegt er við,
járnnagla og dýrabein, leirker og glerbrot. Á þessu er líka sú þjóðernislega
hlið að geta okkar til að rannsaka okkar eigið tilfelli, okkar eigin sögu
og menningu, á sömu forsendum og aðrar þjóðir rannsaka sín tilfelli, er
mælikvarði á það hversu almennileg þjóð við erum. Þetta verðum við að
geta ef við ætlum að eiga samræðu við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli
og ef við viljum geta lagt eitthvað af mörkum til alþjóðlegrar samræðu.
Hitt sem hafa má til marks um það að hugmyndin um þjóðminjar hefur
misst jarðtengingu sína er hvernig komið er fyrir hinu skylda hugtaki
„þjóðmenning.“ Þegar við segjum „íslensk menning“ þá getur það átt við
bæði menninguna í samtímanum, hvort sem er almennt eða sérstaklega um
listir og fræði, en líka menningararfinn og söguna: Íslendingasögurnar eru
íslensk menning, burstabæirnir eru íslensk menning. En þegar við segjum
„þjóðmenning“ þá á það klárlega ekki við menninguna í samtímanum,
sinfónían eða dansflokkurinn eru ekki þjóðmenning. Þjóðmenningin er
arfurinn og einkum sá hluti hans sem mest neftóbaksfýla er af. Þjóðmenning
er leiðin leg: hún er sagga fullu moldar kofarnir, ungbarna dauðinn og rímurnar.
Það er sennilega táknrænt að ritröðin Íslensk þjóðmenning byrjaði að koma út
1987, þegar það var ennþá ekki fráleitt að halda að slíkur titill hefði almenna
tilhöfðun en útgáfan dagaði upp eftir 1990 þegar aðeins fjögur af níu fyrir-
huguðum bindum höfðu komið út.22 Eflaust voru margar ástæður fyrir því
að svo fór sem fór en nafn ritraðarinnar hefur örugglega ekki hjálpað til
og engum með snefil af markaðsvitund myndi nú til dags detta í hug að
setja hugtakið „þjóðmenning“ í titil á bók sem ætti að seljast. Maður veltir
auðvitað fyrir sér markaðsvitund núverandi forsætisráðherra þegar hann
ákveður að „íslensk þjóðmenning“ sé sérstakur og aðgreindur málaflokkur
sem hægt sé að flytja milli ráðuneyta.23 Það bendir til að enn sé til markaður
fyrir slíkar hugmyndir, en hann er örugglega lítill og fer hratt minnkandi.
Þjóðerni og fornleifar
Hugtakið „þjóð“ var nógu svalt fram yfir miðja tuttugustu öld til að
hægt væri að bendla það við ýmislegt og reikna með að það vekti jákvæð
hugrenningar tengsl. Það hafði breyst undir lok aldarinnar og ástæðuna má
skoða frá nokkrum hliðum.
22 Frosti F. Jóhannsson ritstj. 1987, 1988, 1989, 1990.
23 Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 69 23. maí 2013.