Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 162
161ÞJÓÐMINJAR SEM INNVIÐIR
talað við aðra, vera ekki háð því að spegla okkur eingöngu í eigin bæjarlæk,
heldur eiga hlut í fortíð alls mannkyns. Og því fylgja bæði réttindi og skyldur.
Íslendingar, venjulegir Íslendingar, eru í vaxandi mæli heimsborgarar,
fólk sem finnst það eiga erindi og hafa eitthvað að segja við afganginn af
mannkyninu. Íslendingar mæla sig við aðra eins og það sé sjálfsagt mál og þeir
skilgreina sig ekki lengur sem einstakt afbrigði heldur sem vel heppnað dæmi
um nútímaþjóð sem hægt er að gera sömu kröfur til og annarra. Fortíðin
sem slíkt fólk hefur vitund um og vill geta speglað sig í er ekki takmörkuð
við strendur þessarar eyju heldur er hún fortíð mannkynsins alls. Sú fortíð er
okkar fortíð líka og það er almenn samstaða meðal þeirra sem fást við sögu
mannkyns að við – og allir – séum velkomin. Það er ekki sjálfsagt mál – og
til eru dæmi um þjóðir og hópa sem telja sig hafa einkarétt á fortíð sinni – en
samstaðan um aðgengi að sameiginlegri fortíð er eitt af því sem stuðlar að
bættum alþjóðasamskiptum og batnandi lífskjörum í heiminum.
Ef við viljum vera með í þessu þá verðum við að sýna hvorttveggja: að við
höfum eitthvað til málanna að leggja og að við séum tilbúin að greiða götu
þeirra sem vilja nota íslenskar fornleifar til að auka skilning og vitund um
fortíð mannkyns. Það loddi við hin þjóðernislegu fræði að tilfelli okkar væri í
raun hundómerkilegt, að enginn annar en við gæti mögulega haft áhuga á því
nema að koma sér fyrst upp sérstakri Íslandsást. Það er vitleysa. Tilfelli okkar
er síst ómerkilegra en annarra og hér eru aðstæður til rannsókna yfirhöfuð
hagfelldar af ýmsum ástæðum sem snúast ekki um hvort eða hversu frábær
við erum heldur aðgengi og viðráðanleika. Við höfum tækifæri til að leggja
ýmislegt markvert til málanna og við höfum tækifæri til að leyfa öðrum að
spegla sig í fortíð okkar. Við eigum að grípa þau tækifæri.
Frá sjónarmiði lífsgæða og alþjóðavæðingar má færa rök fyrir því að hægt
sé að gæða hugtakið „þjóðminjar“ nýrri merkingu. Þær eru þá ekki minjar
um þjóðerni okkar heldur minjar sem við berum ábyrgð á sem þjóð. Sú ábyrgð
felst ekki bara í að passa upp á minjarnar, koma í veg fyrir að þær týnist
eða eyðileggist, heldur að gera þær aðgengilegar og skiljanlegar. Þetta er ærið
verkefni og við eigum talsvert í land með það. Það eimir enn eftir af þeirri
skoðun að nóg sé að varðveita merkilegu leifarnar – þar sem mælikvarðinn á
merkilegheitin er hinn táknræni, þeim mun táknrænni sem fornleifarnar eru
þeim mun merkilegri eru þær taldar – en fyrir utan að slík nálgun stenst enga
röklega skoðun þá útilokar hún einfaldlega heimildir sem skipta máli hvort
heldur sem er fyrir vitund og speglun okkar sjálfra, og fyrir möguleika okkar
á að eiga samræðu við aðra um fortíð okkar.
Við eigum að hugsa um þetta verkefni eins og upp byggingu og við-