Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Blaðsíða 209
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS208
Fjórir skrifa undir visitasíuna, þar af tveir prestar, Sigurður Jónsson og Jón
Magnússon í Eyvindarhólum.
Brynjólfur biskup visiteraði Eyvindarhólakirkju þann sama dag og varð
heimsóknin söguleg. Jón Björnsson í Borg var einn kirkjugesta. Biskup varð
þar fyrir óvenjulegu áreiti. Upphóf Þorsteinn nokkur Ásbjarnarson mikla
háreysti svo að biskupinn varð að þegja af sinni meiningu. Gekk honum illa
að þagga niður í Þorsteini.10
Allt er mér ókunnugt um upphafsmanninn Þorstein, einnig um eftirmál
hafi þau einhver orðið.
Brynjólfur biskup heimsótti Borgarkirkju rúmum 20 árum seinna, þann 4.
sept. 1662. Þá var til í kirkjunni hökull af bláum dúk með gulum silkiborða-
krossi. Hann var fóðraður með lérefti, gamall og götóttur en sterkur þó.
Einnig er nóteraður sloppur sem þá var næstum nýr. Hann hafði lagt til Jón
Björnsson, enda var sá gamli úr fallinn. Ennfremur altarisklæði með stólum.11
Altarisstólur voru til í mörgum kirkjum. Refilsaumaðar altaris stólur
Holts kirkju undir Eyja fjöllum með helgra manna myndum voru líklega á
bál bornar 1886.
Jón Björnsson sem hér um getur sat Borg með sæmd. Dóttir hans, Ásta, átti
Jón Hallgrímsson, Magnússonar á Kirkjulæk í Fljótshlíð. Þau voru foreldrar
Hallgríms föður Klemensar bónda í Kerlingardal. Ættin situr þar enn að búi.
Síðasta visitasía í Borg var gerð af Þórði Þorlákssyni biskupi 1. október
1679. Þar koma fram sömu kirkjugripir og hjá Brynjólfi biskup 1662,
ennfremur silfurkaleikur með patínu, hvorutveggja gamalt, tvær altarispípur
af kopar, misjafnar en báðar hljóðgóðar og Maríulíkneski.12 Kirkjan er sögð í
5 stafagólfum, þiljuð bak og fyrir og í rjáfri en gólf þiljað að neðan í kórinn.
Einhverjar fjalir vantar, þ.á.m. tvær í bjórþil. Jón Björnsson lofar að það skuli
lagfært. Húsið er annars stæðilegt að veggjum og viðum, þilið nokkuð gisið
að framan. Hurð er sögð á járnum með hespu. Altari og prédikunarstóll.13
Nú var brátt liðið að lokum hins gamla guðshúss. Í Jarðabók Árna
Magnússonar og Páls Vídalín 1709 segir um Stóru-Borg: „Hjer hefur
kirkja verið (bænhús) og embættað af sóknaprestinum að Hólum, Skógum
og Steinum, þá fólk hefur verið til sakramentis, líka endur og sinnum á
bænadögum um lángaföstu; kirkjan er fallin og hefur hjer ekki embættisgjörð
flutt verið í 10 ár að menn minnir.“14
10 Bps A II:7. Vísitasíubók Brynjólfs Sveinssonar.
11 Bps A II:10. Vísitasíubók Brynjólfs Sveinssonar 1642-1663
12 Bps A II:11. Vísitasíubók Þórðar Þorlákssonar 1675-1695A.
13 Bps A II:11. Vísitasíubók Þórðar Þorlákssonar 1675-1695A.
14 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1. bindi, bls. 44.