Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Side 210
209MARÍUKIRKJA Í BORG
Í visitasíu Jóns Vídalín biskups í Eyvindarhólum 1704 kemur fram að
klukka hangi fyrir kirkjudyrum og er önnur sögð tilheyra Borgarkirkju.15
Það er hið eina sem við vitum um örlög kirkjugripa í Stóru-Borg.
Borgarkirkja stóð að sunnlenskri venju suðaustanvert við bæjarhúsin í
Borg. Byggð lagðist niður í gömlu Borg um 1840 og í byrjun 20. aldar
sáust þar engin ummerki kirkjurústar eða kirkjugarðs. Laust eftir 1920
var Ingimundur Brandsson bóndi í Ystabæli að afla sér byggingagrjóts í
Borgarrústum. Hann reyndi fyrir sér með grjótöflun suðaustan í bæjarhólnum
og þá - alveg óvænt - kom hann niður á beinagrind manns og lét verk falla.
Árið 1960 batt ég ástir við Borgarhól, nýfluttur að Skógum, og þær hafa enst
mér til dagsins í dag. Kaldaklifsá og Bakkakotsá höfðu sameiginlegt útfall
framan við Borgarhól er hér var komið við sögu. Fjaran sem legið hafði
framan að hólnum sópaðist brott og hafbrim átti greiða leið upp í hann, hratt
fór að ganga á moldir. Í stórbrimi 1969 þvoði það kirkjugarðsmoldir svo að
grafir genginna Austurfjallamanna tóku að birtast ein af annari og þessu hélt
áfram næstu árin. Fátt í lífi mínu hefur jafnast á við áhrifin af því að koma að
gröfum genginna Austur-Eyfellinga lögðum kistulausum í moldir.
Líkami þess framliðna hafði mótað skírt far á grafarbotninum, það var líkt
og hann hefði risið upp úr gröf sinni. Ég var víst aldrei trúaður á kenningu
kirkjunnar um upprisu holdsins og alveg fór hún forgörðum er ég gekk um
ljósar mannabeinmoldir á Borgarfjöru eftir stórbrim. Minjar um Borgarkirkju
voru ofan við miðjan kirkjugarð, hann hafði verðir færður út til suðurs
á miðöldum. Fátt bar þar vel í veiði. Ég fann hluta af útlendum fægðum
altarissteini, úr porfir og afhenti Þjóðminjasafninu. Í moldum suðvestur frá
kirkjustæði fann ég ritstíl úr blýi markaðan rúnum. Áður hafði ég fundið
vaxtöflu úr tré framan við bæjarrústir og hefi gert grein fyrir því á öðrum
stað.16
Happafundurinn varð 16. nóv. 1972. Þá fann ég í austurhluta kirkjugrunns
Limogesplötu franska frá 13. öld, markaða í gulllögðu smelti vængjuðu nauti,
einkenni Lúkasar guðspjallamanns, komna frá krossmarki. Þarna var þá
fundinn hluti af írska krossinum sem Brynjólfur Sveinsson biskup heimti af
kirkjuhaldara í Borg að sækja með dómi til laga og réttar árið 1641, hann
hefur þá verið búinn að mæta svívirðu eyðileggingar. Í kirkjugrunni lágu tvær
kistur saman, mismunandi að lengd, lok fallin niður. Ég vogaði ekki, ólærður
maður, að rjúfa grafarhelgi. Ægir skeytti því engu. Eftir næsta stórbrim sá
þeirra engan stað.
15 Bps A II:13. Vísitasíubók Árna Þorvarðarsonar um Austfirðingafjórðung 1697.
16 Þórður Tómasson 1983, bls. 103-107.