Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 218
BERGÞÓRA GÓA KVARAN
EYÐIBÝLI Á ÍSLANDI
Inngangur
Rannsóknarverkefnið Eyðibýli á Íslandi hófst árið 2011. Stofnað var til þess af
áhugasömum einstaklingum innan fyrirtækjanna R3-Ráðgjöf, Glámu-Kíms
arkitekta og Stapa jarðfræðistofu. Stofnað var áhugamannafélag um verkefnið
sem hefur meðal annars að markmiði að varðveita og koma lífi í yfirgefin hús
á landsbyggðinni.
Verkefnið hefur meðal annars verið styrkt af Nýsköpunarsjóði náms-
manna, Húsafriðunarsjóði, Mennta- og menningarmálaráðuneyti, sveitar-
félögum, fyrirtækjum og áðurnefndum aðstandendum. Á hverju sumri hafa
háskólanemar verið ráðnir til þess að fara um landið og rannsaka yfirgefin
íbúðarhús. Fyrsta sumarið unnu fimm nemar að því að skrá eystri hluta
Suðurlands, annað sumarið voru nemarnir orðnir átta og voru þá tekin fyrir
tvö landsvæði, Vesturland og Norðurland eystra og þriðja sumarið fjölgaði
nemendum í tíu og rannsökuð voru hús á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.
Fjórða sumarið voru nemarnir níu og voru þá rannsökuð hús á Austfjörðum
og Suðurlandi. Það er því óhætt að segja að umfang verkefnisins hafi farið
vaxandi en háskólanemarnir hafa komið úr arkitektúr, fornleifafræði,
þjóðfræði, stjórnmálafræði og verkfræði. Þau eru yfirleitt langt komin með
grunnnám eða byrjuð í framhaldsnámi.
Ólík einkenni eru á yfirgefnum íbúðarhúsum. Sum húsin teljast til merkra
menningarminja og geta verið mikilvægar heimildir um byggðasögu og
byggingarmynstur ákveðinna svæða. Önnur hús eru áhugaverð sökum aldurs,
húsagerðar, byggingarlags eða sérstaks landslags í nágrenni þeirra. Enn önnur
geta tengst fornminjum eða sagnaslóðum og verið áhugaverð af þeim sökum.
Það sem er þó ekki síður mikilvægt er að vekja almenning til umhugsunar
um þær menningarminjar sem þarna eru til staðar.
Eftir hvert sumar hafa verið gefnar út rannsóknarskýrslur en alls eru þær
orðnar sjö talsins, Eyðibýli á Íslandi 1.-7., og er efni hverrar skýrslu helgað