Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Page 232
ÞÓR MAGNÚSSON
ÞÓRHALLUR VILMUNDARSON
Minningarorð
Þórhallur Vilmundarson prófessor og fyrr
skrifari Hins íslenzka fornleifafélags andaðist
hinn 27. nóvember 2013. Er við hæfi, að hans
sé minnzt nokkrum orðum í Árbók.
Þórhallur var fæddur á Ísafirði 29. marz
1924, sonur hjónanna Vilmundar Jónssonar
læknis þar, síðar landlæknis, og Kristínar Ólafs-
dóttur læknis, sem bæði voru þjóðkunn. Hann
ólst upp fyrstu árin á Ísafirði og þar til faðir
hans var skipaður landlæknir og fjölskyldan
fluttist suður. Þórhallur lauk stúdentsprófi frá
Mennta skólanum í Reykjavík árið 1941 og
cand. mag. prófi í íslenzkum fræðum, sem svo
nefndist þá, frá Háskóla Íslands árið 1950, og
stundaði síðan nám ytra um hríð, í Ósló og Kaupmannahöfn.
Árin 1951-1960 var hann kennari við Menntaskólann í Reykjavík, kenndi
þar íslenzku og íslenzkar bókmenntir og Íslandssögu. Síðan kenndi hann
íslenzka bókmenntasögu við Háskóla Íslands og var skipaður þar prófessor í
sögu Íslands árið 1961. Að auki sinnti hann margvíslegum störfum öðrum á
sviði íslenzkra fræða, bókmennta- og kennslufræði, birti greinar víða og flutti
erindi um þau efni, gaf út annála, fornrit og minningabækur; sjá um það Skrá
um rit háskólakennara. Þá sat hann í nýyrðanefnd, er síðar nefndist Íslenzk
málnefnd, árin 1961-2001.
Árið 1969 varð Þórhallur forstöðumaður Örnefnastofnunar Þjóðminja-
safnsins, sem nú er innan vébanda stofnunar Árna Magnússonar, og gegndi
því embætti til ársins 1998. Á vegum stofnunarinnar gaf hann út ritið Grímni
á árunum 1980-1996, og lagði mest efni til þess sjálfur.