Börn og menning - 01.04.2009, Blaðsíða 6

Börn og menning - 01.04.2009, Blaðsíða 6
Það er víst allt á hvolfi um þessar mundir, fullorðnir lesa barnabækur og börn lesa bækur ætlaðar fullorðnum. Heilmargar bækur hafa verið skrifaðar um þetta ófremdarástand á síðustu árum, áhyggjufullt bókmenntafólk hefur bloggað um þetta í gríð og erg, margar greinarnar verið skrifaðar og háskólanámskeið haldin. Hér er ætlunin að líta aðeins á þau sjónarhorn sem fram hafa komið í þessari umræðu. Bækur sem hunsa landamæri Það hefur líklegast ekki farið fram hjá neinum að lestur fullorðinna á bókum ætluðum börnum hefur aukist á undanförnum árum. í fræðiritum um efnið er oftast miðað við fyrstu Harry Potter-bókina sem kom út árið 1997 en auðvitað eru mýmörg dæmi síðan um barnabækur sem jafnframt höfða til fullorðinna. Mætti þar nefna þríleik Philips Pullman um ævintýri Lýru, bækur Lemony Snicket í ritröðinni sem á íslensku fékk heitið Úr bálki hrakfalla (A series of unfortunate events á ensku), Eragon-bækur Christophers Paolini og svo er það auðvitað nýjasta æðið, sem fjallað er um hér í blaðinu en það eru vampírusögur Stephenie Meyers í Ljósaskiptaritröðinni. Þessar bókmenntir eru oft kallaðar „crossover literature" í erlendum fræðiritum, bókmenntir sem virða landamæri að vettugi. Þetta hljómar afar frelsandi en það hafa þó verið skiptar skoðanir um þetta landamæraflakk. í nokkurra ára gömlum þætti sem BBC-sjónvarpsstöðin gerði um efnið tjáðu rithöfundar áhyggjur sínar af því að aukinn lestur barnabóka meðal hinna fullorðnu væri einhverskonar fyrirboði um allsherjar hrun siðmenningarinnar. Þessi tilhneiging til lesturs barnabóka væri til marks um slæmt ástand skólakerfisins sem skilaði fólki út í lífið í því ástandi að allt annað lesefni en barnabækur væri því um megn. Hér gætir auðvitað óstjórnlegs hroka í garð barnabókmennta en margir hafa hinsvegar tekið undir þessa skoðun upp að ákveðnu marki. Þá er iðulega bent á að við lifum í glansheimi ímynda þar sem allt sé einfaldað og fótósjoppað. í þessum heimi er reynt að sjá til þess að ekkert sé of erfitt eða tormelt og lestur barnabóka meðal fullorðinna sé í raun í takt við þessa heimsmynd. Galdradrengurinn umdeildi Rithöfundurinn A.S. Byatt skrifaði fræga grein í dagblaðið New York Times þar sem hún veltir fyrir sér vinsældum bókanna um galdradrenginn meðal fullorðinna lesenda. Hún er ekki hrifin af þeim og segir þær skrifaðar fyrir fólk sem horfi á sápur og raunveruleikaþætti og gleypi í sig kjaftasögur af fræga fólkinu. Bækurnar um

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.