Börn og menning - 01.04.2011, Qupperneq 6
6
Börn og menning
Nú þegar synir mínir eru gengnir langleiðina
upp úr lögbundinni æsku er ég hugsi yfir
ýmsu sem lýtur að barnauppeldi. Ég er ekki
síst hugsi yfir afstöðu foreldra almennt. Svo
virðist sem jafnréttisbaráttan hafi fært okkur
samfélag sem stofnanavæðir barnauppeldi.
Barn er ekki fyrr komið í heiminn en stofnanir
taka við því og annast það lungann úr
deginum, jafnvel lengur en sem nemur
vinnudegi fullorðins fólks. Nú hef ég ekkert
á móti leikskólum sem slíkum og hefði sjálfur
haft gott af vist á slíkri stofnun, en leikskólar
eiga ekki að vera munaðarleysingjahæli.
Það er afar vafasamur afrakstur af
jafnréttisbaráttunni að foreldrar skuli neita
sér að miklu leyti um samvistir við börn undir
grunnskólaaldri. Ég hélt að jafnréttisbaráttan
hefði ekki aðeins átt að færa okkur val um
það hvort við sæktumst eftir frama eða ekki,
heldur líka svigrúm til að sinna börnunum
okkar fyrstu árin. Niðurstaðan er hins vegar
sú að flestir foreldrar vinna fulla vinnu frá
því barn verður eins árs eða svo. Þetta eru
viðkvæmustu ár barnanna og þörfin fyrir
skilyrðislausa ást ofar hverri kröfu. Ráðslag af
þessu tagi hlýtur því að hafa áhrif á mótun
barnanna.
Áður en lengra er haldið skal tekið fram
að ég ber mikla virðingu fyrir því starfi sem
unnið er á leikskólum. Synir mínir voru á
leikskólum í 4-6 tíma á dag og undu sér
ákaflega vel. Starfsfólkið var alúðlegt og
faglegt í alla staði. Satt að segja er þetta það
skólastig sem ég ber hvað mesta virðingu
fyrir og síst hefði ég viljað að synir mínir færu
á mis við það. En ég hefði ekki heldur viljað
að þeir dveldu þar lengur en 4-6 tíma á dag
- það fannst þeim sjálfum nóg og báðu aldrei
um að fá að vera lengur - og ég hefði ekki
viljað missa af samverunni með þeim fyrir og
eftir skólatíma. Leikskólakennarar geta seint
komið í stað foreldra.
Rannsóknir hafa sýnt að mikil fjarvera
foreldra frá börnum, t.d. vegna yfirvinnu,
hefur neikvæð áhrif á málþroska auk þess sem
fylgni er á milli fjarveru og vímuefnaneyslu.
Þá hefur Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir fært
rök fyrir því, m.a. í bókinni Árin sem enginn
man: áhrif frumbernskunnar á börn og
fullorðna, að tengslamyndun fyrstu áranna
hafi afgerandi áhrif á sjálfsmynd barna,
samskiptahæfni þeirra og hæfileikann til að
tengjast öðrum á fullorðinsárum. Af þessu
leiðir að börn sem lítið hafa af foreldrum
sínum að segja á viðkvæmum mótunaraldri
fá annars konar sjálfsmynd en hin og margt
bendir til þess að fjarvera foreldranna hafi
áhrif á hæfni þeirra til að fást við streitu og
til að setja sig í spor annarra. Það þýðir að
samfélagsgerðin breytist þegar flestir alast
upp á leikskólum og kannski erum við þegar
farin að sjá merki þess.
Það einkennilegasta í þessu öllu er samt
að foreldrar skuli hafa fyrir því að eignast
börn til þess að koma þeim strax í vistun. Ég
var svo eigingjarn að ég gat ekki neitað mér
um samveru við syni mína í uppeldinu og
sé ekki eftir því. Þetta voru góð ár þótt við
hjónin þyrftum að neita okkur um gólfefni
og glæsibifreið.
Höfundur er rithöfundur