Börn og menning - 01.04.2011, Blaðsíða 8

Börn og menning - 01.04.2011, Blaðsíða 8
8 Börn og menning múmínbókin en sú síðasta, Seint í nóvember, sem ekki hefur birst á íslensku, hangir að nokkru leyti saman við hana. Þessar tvær bækur gerast líklega á sama tíma og í Seint í nóvember segir þá frá atburðum í Múmíndal meðan múmínfjölskyldan erfjarverandi. Þetta dregur fram að ferðalög og fjarvera eru tvær hliðar á sama peningnum. Þegar einhver leggur upp í ferðalag er hann fjarverandi ef horft er á málið af sjónarhóli þeirra sem verða eftir heima. Fjarvera í frásögn Það er áhugavert að bera Seint i nóvember saman við fyrstu múmínbókina, Álfarnir og flóðið mikla. í báðum bókunum leggur einhvers konar fjarvera grunninn að frásögninni en munurinn á því hvernig það gerist segir ýmislegt um þróun bókaflokksins. í fyrstu bókinni er kveikjan að atburðarásinni sú að múmínpabbi hefur stungið af. Múmínmamma og múmínsnáðinn leggja upp í leit að honum. Snabbi verður á vegi þeirra og slæst í för með þeim. Að lokum finnst múmínpabbi aftur, hann er búinn að byggja múmínhúsið og þau setjast þar að og allt fellur I Ijúfa löð. Þetta er klassískt frásagnarmynstur úr ævintýrum - eitthvað vantar, lagt er upp I leit, loks finnst það sem leitað er og heimurinn er í föstum skorðum á ný. í síðustu bókinni, Seint I nóvember, er fjarvera líka grundvallaratriði en í þessu tilfelli er fjarveran grunnur undir sálfræðilegri skáldsögu þar sem frásögnin er bæði flóknari en hún var í byrjun bókaflokksins og almenn óhamingja miklu meira áberandi. Eins og nafnið Seint í nóvember gefur til kynna er langt liðið á nóvember þegar sagan gerist. Það er kalt og blautt og dimmt. Hemúllinn er í vandræðum með að muna hvernig er að vakna glaður á morgnana. Fillífjonkan er einmana og í tilvistarkreppu sem kemur m.a. fram í því að hún nennir ekki lengur að þrífa en það hafði áður verið líf hennar og yndi! Snúður hefur nokkra takta úr lagi í kollinum en finnur ekki afganginn af laginu og ákveður því að snúa til baka í Múmíndalinn til að leita að því. Framan af bókinni færist sjónarhornið milli þessara og fleiri persóna sem allar eru meira eða minna þreyttar, niðurdregnar og einmana. Hver um sig ákveður að reyna að ráða bót á vandanum með því að bregða sér yfir í Múmíndalinn og heimsækja múmínfjölskylduna. En þegar persónurnar koma í Múmíndalinn verða þær fyrir vonbrigðum því múmínfjölskyldan er alls ekki heima og múmínhúsið stendur tómt. Þær eru ráðvilltar en flytja inn í húsið, nema Snúður sem tjaldar, og reyna að takast á við tilveruna í fjarveru múmínfjölskyldunnar. Niðri í brunni I fyrstu múmínbókunum er alltaf að finna persónur sem eru daprar eða beinlínis óhamingjusamar. Sem dæmi má nefna bísamrottuna í Halastjörnunni, hemúlinn í Pípuhatti galdrakarlsins og að sjálfsögðu Morrann. Óhamingjan verður sífellt almennari eftir því sem líður á bókaflokkinn og í síðustu bókinni eiga næstum allar persónurnar við hana að stríða. í Seint ( nóvember ristir angistin, einmanaleikinn og þunglyndið jafnvel of djúpt til þess að hægt sé að kalla bókina barnabók með góðu móti. Það gegnsýrir alla bókina og kemur m.a. fram í myndmáli og umhverfislýsingum, sem einkennast m.a. af tómleika og myrkri. Hér eru nokkur dæmi: ■ Snúður gengur snemma í bókinni um skóg sem er lýst á þann veg að hann hafi verið „regnþungur og trén alveg hreyfingarlaus. Allt hafði visnað og dáið ,.."3 • Hemúllinn átti minningu um notalegt gestaherbergi í múmínhúsinu að sumarlagi en í nóvember reynist veruleikinn annar og I bókinni segir: Fögur sumarmyndin af syðra gesta- herberginu hafði horfið, nú sá hann bara stigann sem lá upp í dimmt risið með tómum herbergjum.4 ■ Snúður ráfar niður á bryggju og horfir niður ( sjóinn, botninn undir bryggjunni er þakinn þangi „sem stormurinn hafði tætt sundur".5 • Dagarnir verða styttri og persónurnar sjá aldrei sólina. En þær sjá ... ... gulan sólseturshimininn og skarpar útlinur fjallanna I kring, það var eins og þau byggju niðri I brunni.6 Umhverfislýsingar og myndmál af þessu

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.