Fréttablaðið - 27.05.2021, Side 12
Norðan Botnssúlna á Uxahryggjaleið er móbergsfjall
sem ekki lætur mikið yfir sér en ber sérkennilegt nafn,
Kvígindisfell. Nafnið vísar til kvíginda, sem merkir
ungir nautgripir og er skylt orðunum kvíga og kvígur
(bolakálfur). Er talið að grónar f latir norðan fjallsins
hafi fyrr á tímum verið afréttur fyrir unga nautgripi.
Þótt fjallið sé 783 m hátt og af því frábært útsýni þá
hefur það löngum þurft að standa í skugga þekktari
nágranna sinna eins og Botnssúlna, Skjaldbreiðs, Þóris-
jökuls, Oks, Fantófells og Hvalfells. Umhverfi þess er
ekki síður fallegt og þar hafa orðið atburðir sem verð-
skulda að því sé sýnd athygli. Því til staðfestingar er
Biskupsbrekka norðan Kvígindisfells, skammt frá svo-
kölluðum Víðikerjum. Þar andaðist eftir stutt veikindi
Jón biskup Þorkelsson Vídalín árið 1720, en hann var
þá staddur þarna á leið frá Skálholti í útför mágs síns á
Staðarstað. Jón Vídalín var einn helsti lærdómsmaður
og latínuskáld síns tíma og við hann er kennd Vídalíns-
postilla, íslenskt guðræknirit sem í eina og hálfa öld var
ein mest lesna bók á Íslandi.
Til að heiðra minningu hins ástsæla Jóns Vídalíns
hafa verið reistir krossar í Biskupsbrekku en einnig er
þar minnisvarði eftir listamanninn Pál Guðmundsson
á Húsafelli. Stutt frá urðu enn voveiflegri atburðir þegar
ómennið Hallbjörn Oddsson var veginn þar ásamt sjö
öðrum. Átti honum, samkvæmt Landnámu, að hafa
sinnast við konu sína og myrt hana með því að höggva
af henni höfuðið. Eltu ættingjar hennar Hallbjörn uppi
og drápu þar sem nú standa átta vörður fyrir þá sem létu
lífið í bardaganum. Kallast þær Hallbjarnarvörður en
frá þeim sést vel til Kvígindisfells og flatanna þar sem
geldnautin sprönguðu um forðum. Ganga á Kvígindis-
fell er ekki erfið og er gengið upp á fjallið úr norðaustri.
Tilkomumiklu hamragili er fylgt austan megin upp
fjallið og eru 5 km upp á hátindinn, sem er vestast nokk-
urra tinda. Af honum er frábært útsýni að áðurnefndum
fjöllum en einnig sést ofan í Hvalfjörð. Hægt er að ganga
aðra og vestari leið niður af fjallinu, en þeir sem vilja
lengri göngu gætu haldið áfram ofan í Hvalfjörð, norðan
Hvalfells og meðfram risafossinum Glym. n
Í fótspor
nauta, biskups
og morðingja
Kvígindisfell séð úr norðri en í forgrunni er ein af Hallbjarnarvörðum. MYND/TG
Skammt frá
Kvígindisfelli
er talið að hafi
verið afréttur
fyrir kvígindi,
það er unga
nautgripi.
MYND/TG
Útsýni af
Kvígindisfelli
er frábært, ekki
síst í suður að
Botnssúlum.
MYND/HARALD
JÓHANNESSON
FÓKUS Á HJARTA LANDSINS 27. maí 2021 FIMMTUDAGUR
Ólafur Már
Björnsson,
augnlæknir og
ljósmyndari
Tómas
Guðbjartsson,
hjartaskurð
læknir og náttúru
unnandi