Morgunblaðið - 11.03.2021, Page 66
66 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 11. MARS 2021
Við erum iðulega minnt á þaðað sagan er skrifuð afsigurvegurunum, sem ígegnum tíðina hafa oftast
verið vel stæðir og valdamiklir karl-
menn. Þegar kemur að því að skoða
Íslandssöguna hafa sagnfræðingar
og fornleifafræðingar gert sitt á
umliðnum árum til að draga fram
aðstæður, framlag og hlutskipti
kvenna í gegnum tíðina. Það getur oft
reynst snúið að átta sig á samhengi
hlutanna þegar dómskjöl og aðrar
heimildir þegja þunnu hljóði um hluti
sem okkur nútímafólkinu finnst
skipta máli. Hversu margar þeirra
kvenna sem dæmdar voru til dauða
samkvæmt Stóradómi, lögum sömd-
um af 24 karlmönnum sem giltu hér á
landi í rúm 300 ár frá því þau voru
sett 1564, hafði verið nauðgað? Það
eru sannarlega grimm örlög að vera
fyrst nauðgað, oftast nær af ein-
hverjum nákomnum sem brugðust
þannig trausti sínu, og síðan drekkt
af yfirvaldinu.
Ein þeirra kvenna sem dæmdar
voru samkvæmt Stóradómi var
Sunnefa Jónsdóttir, frá Geitavík á
Borgarfirði eystri, sem 1739, þá 16
ára gömul, eignaðist barn að því er
segir með Jóni, 14 ára bróður sínum.
Tveimur árum seinna eignaðist hún
annað barn sem einnig var kennt
bróður hennar. Fyrir vikið voru þau
systkin tvívegis dæmd til dauða fyrir
blóðskömm, en sökum ungs aldurs
áttu þau von um að verða náðuð af
Danakonungi. Mál systkinanna dróst
á langinn í réttarkerfinu eftir að
Sunnefa lýsti á Alþingi árið 1743 því
yfir að Hans Wium, sýslumaður á
Skriðuklaustri, þar sem hún hafði
setið í haldi, væri í reynd faðir seinna
barnsins. Úr varð eitt lengsta sakamál
Íslandssögunnar sem lauk ekki fyrr
en 1757 þegar Sunnefa lést í varðhaldi
á Eiðum, en heimildum ber ekki
saman um hvort hún hafi verið svelt í
hel eða Hans Wium sjálfur drekkt
henni í Bessastaðaá á stað sem síðan
hefur verið nefndur Sunnefuhylur.
Frásögnin af örlögum Sunnefu,
bláfátækrar alþýðustúlku sem stóð
uppi í hárinu á valdamanni, hefur
heillað jafnt skáld sem sagnfræðinga í
gegnum tíðina. Líkt og leikskáldið
bendir á í leikskránni skrifaði Rögn-
valdur Erlingsson frá Víðivöllum leik-
rit sem Leikfélag Fljótsdalshéraðs
frumsýndi árið 1979 og Agnar Hall-
grímsson sagnfræðingur er meðal
þeirra sem ritað hafa greinar um
málið. Rýnir las, á táningsaldri, fyrst
um mál Sunnefu í hinni frábæru bók
Fjarri hlýju hjónasængur – öðruvísi
Íslandssaga eftir Ingu Huld
Hákonardóttur. Bókin veitir ómetan-
lega innsýn í myrka tíma fyrri alda
og grimmúðleg örlög alþýðufólks –
ekki síst kvenna – og er full ástæða til
að endurprenta hana, enda mögnuð
lesning.
Árni Friðriksson fer, í samvinnu
við leikhópinn Svipi, þá leið að segja
nokkurs konar ef-sögu í heimilda-
leikriti sínu þar sem sett er fram til-
gáta um það hvernig hlutirnir gætu
mögulega hafa verið og Sunnefu liðið
á ólíkum æviskeiðum. Leikkonur
verksins eru mættar á svið Tjarnar-
bíós til að kafa ofan í örlög Sunnefu,
en reka sig fljótt á það að heimildum
ber ekki alltaf saman og eru óþægi-
lega oft þöglar um mikilvæga hluti.
Framan af sýningu stökkva leikkon-
urnar milli þess að leika persónur
fyrri tíma og ræða, sem þær sjálfar,
hvor við aðra um það hvernig best sé
að nálgast efniviðinn. Eftir því sem
fram vindur tekur sagan hins vegar
nær alfarið yfir með áhrifaríkum
hætti.
Undir styrkri leikstjórn Þórs
Tulinius býður leikhópurinn áhorf-
endum upp á rannsóknar- og frá-
sagnarleikhús eins og það gerist best.
Allir leikmunir eru sýnilegir á sviðinu
frá upphafi og leikkonurnar grípa í
það sem þær þurfa á að halda hverju
sinni til að miðla okkur sögunni,
hvort sem það eru fræðibækur,
prjónar eða langspil. Upprúllað teppi
verður ungbarn þegar á þarf að
halda, nýtist sem þvottur í vinnu
kvennanna, minnir á drekkingarpok-
ann sem dæmdum konum var gert að
sauma sér fyrir aftöku og breytist
jafnvel í vatnið sjálft sem Sunnefa
veit að mun umlykja hana um síðir.
Tveir ljósir flekar eru áberandi í
stílhreinni leikmynd Egils Ingibergs-
sonar, sem jafnframt hannar vand-
aða lýsingu, og á þá er varpað frá-
bærum teiknuðum hreyfimyndum
Móeiðar Helgadóttur af ýmsum per-
sónum sögunnar sem bera svipmót
leikkvennanna þegar við á. Leikkon-
urnar ganga inn og út úr teikning-
unum með hrífandi hætti og Sunnefa
ræðir meðal annars við Jón bróður
sinn, feðgana og sýslumennina Jens
og Hans Wium og Mette Mariu,
danska eiginkonu Jóns Oddssonar
Hjaltalín, sýslumanns í Reykjavík.
Teikningarnar og samspilið við þær
bætir miklu við upplifunina og
tengslin við persónur.
Eðli málsins samkvæmt er vatnið
aldrei langt undan í leikmynd Egils. Í
stórum bala minnir vökvinn á örlög
alltof margra kvenna sem drekkt var
fyrir að eignast börn utan hjóna-
bands og skipti þá engu með hvaða
hætti þungunina bar að.
Með hlutverk Sunnefu fer Tinna
Sverrisdóttir, sem vakti fyrst athygli
rýnis fyrir útgeislun og kraft í sýn-
ingunni Stertabendu sem sýnd var í
Kúlunni 2016. Tinna hefur einstak-
lega sterka sviðsnærveru og miðlar
vel þeirri miklu sorg sem einkennir
líf titilpersónunnar. Með raddbeit-
ingu og fasi sýnir hún okkur þá
breytingu sem verður á Sunnefu frá
því hún eignast sitt fyrsta barn á tán-
ingsaldri og þar til hún lífsreynd og
þreytt eftir málaferli og langa fanga-
vist mætir örlögum sínum tæpum
tuttugu árum síðar. Við sjáum reiði
hennar og orku meðal annars í kraft-
miklum flutningi á blóðskammarþul-
unni þar sem taldir eru upp þeir ætt-
ingjar sem ekki má leggjast með, en
listann má skoða á Vísindavefnum í
svari Más Jónssonar sagnfræðings
við því hvað Stóridómur sé.
Margrét Kristín Sigurðardóttir
bregður sér lipurlega í hlutverk
þeirra fjölmörgu persóna sem á vegi
Sunnefu verða á lífsleiðinni. Vald-
mannsleg var hún sem Hans Wium,
kúguð sem móðir Sunnefu, blátt
áfram sem Kristín vinnukona og
dásamlega skemmtileg sem Mette
Maria, þar sem hún talaði ljómandi
fína dönsku. Með tónlist sinni og
hljóðmynd magnar hún upp stemn-
inguna hverju sinni og nýtir hljóðfæri
sín með áhrifaríkum hætti til að
þagga niður í titilpersónunni þegar
orð hennar verða of eldfim.
Búningar Beate Stormo þjóna per-
sónum vel og vísa með góðum hætti í
sögutímann. Sviðshreyfingar úr
smiðju Aðalheiðar Halldórsdóttur og
Elínar Signýjar Ragnarsdóttur eru
hrífandi og sviðsumferðin öll til fyrir-
myndar. Á sviði Tjarnarbíós tekst
leikhópnum að skapa frumlegan og
magnaðan leikhúsgaldur um drama-
tískt efni sem enginn leikhús- eða
söguunnandi má láta framhjá sér
fara.
Hver fær að segja söguna?
Tjarnarbíó
Sunnefa bbbbm
Eftir Árna Friðriksson í samstarfi við
leikhópinn. Leikstjórn: Þór Tulinius.
Sviðshreyfingar: Aðalheiður Halldórs-
dóttir og Elín Signý Ragnarsdóttir.
Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson.
Teikningar: Móeiður Helgadóttir. Bún-
ingar: Beate Stormo. Tónlist og hljóð-
mynd: Margrét Kristín Sigurðardóttir.
Blóðskammarþululag: Kristín Hrönn
Waage, Margrét Kristín Sigurðardóttir
og Tinna Sverrisdóttir. Leikkonur: Tinna
Sverrisdóttir og Margrét Kristín Sigurð-
ardóttir. Leikhópurinn Svipir frumsýndi
í Sláturhúsinu á Egilsstöðum 19. sept-
ember 2020 og í Tjarnarbíói í Reykjavík
fimmtudaginn 4. mars 2021, en rýnt var
í sýninguna á seinni staðnum.
SILJA BJÖRK
HULDUDÓTTIR
LEIKLIST Best „Undir styrkri leikstjórn
Þórs Tulinius býður leikhóp-
urinn áhorfendum upp á rann-
sóknar- og frásagnarleikhús
eins og það gerist best.“
Húðfegrun ehf | Vegmúli 2 | Sími 533 1320 | www.hudfegrun.is
Tímapantanir í síma 533 1320
Búumyfir20ára reynslu í húðmeðferðum -Þitt útlit.Okkar þekking.
LÚXUS
Húðslípun
NÝJUNG
Einstök og áhrifaríkmeðferð semveitir
húðinni slípun, hreinsun, raka og næringu.
Meðferðin er líka notuð í þeim tilgangi að
undirbúa húðina fyrir lasermeðferðir og
auka árangur þeirra.
Bíddu bara – hlátursprengja fyrir
glaðsinna grindarbotna nefnist nýtt
verk eftir Björk Jakobsdóttur, Sölku
Sól Eyfeld og Selmu Björnsdóttur í
leikstjórn Ágústu Skúladóttur sem
frumsýnt verður í Gaflaraleikhúsinu
9. apríl. „Þetta einlæga, beitta og
drepfyndna verk fjallar um raun-
veruleika íslenskra kvenna; um
vonir og drauma, biturleika og frú-
strasjónir. Þær Björk, Salka Sól og
Selma byggja verkið alfarið á sinni
eigin reynslu, draga ekkert undan
en ljúga helling. Þetta er verk um
íslenskar konur, samið af íslenskum
konum og fyrir íslenskar konur (og
fyrrverandi, núverandi og tilvonandi
eiginmenn sem þora að koma). Það
má segja að þetta sé olnboga-verk,
því áhorfendur munu skjóta olnboga
í sessunautana ótt og títt og hvísla:
svona ert þú! Uppistand, samtöl og
söngur af bestu sort,“ segir í til-
kynningu frá Gaflaraleikhúsinu.
Salka Sól, Selma og Björk fara
með öll hlutverkin í uppfærslunni
ásamt því að flytja tónlist eftir þær
sjálfar og Karl Olgeirsson. Leik-
mynd og búninga hannar Þórunn
María Jónsdóttir og lýsingu Freyr
Vilhjálmsson. Miðasala er á tix.is og
hjá Gaflaraleikhúsinu í síma 565-
9900 og gegnum netfangið:
midasala@gaflaraleikhusid.is.
Verk um raunveru-
leika íslenskra kvenna
Salka Sól Eyfeld Selma Björnsdóttir Björk Jakobsdóttir
Bíddu bara hjá Gaflaraleikhúsinu