Fréttablaðið - 09.09.2021, Blaðsíða 22
Útgefandi: Torg ehf Veffang: frettabladid.isÁbyrgðarmaður: Björn Víglundsson Sölumaður auglýsinga: Jón Ívar Vilhelmsson, jonivar@frettabladid.is, s. 550 5654,
En rekstrarformið
má ekki kæfa
snilldina sem býr í
fólkinu.
2 9. september 2021 FIMMTUDAGURSAMTÖK ATVINNULÍFSINS
Halldór Benjamín Þorbergs-
son er framkvæmdastjóri
Samtaka atvinnulífsins.
Hann segir ýmis tækifæri til
hagvaxtar í augsýn í kjöl-
far kórónukreppunnar, en
mikilvægt sé að atvinnulíf
og stjórnvöld snúi bökum
saman til að tryggja atvinnu-
lífinu vindinn í bakið.
„Þannig verða verðmætin til,
sem aftur standa undir sterku vel-
ferðarkerfi,“ undirstrikar Halldór.
Ársfundur atvinnulífsins 2021
er haldinn í dag og verður í beinu
streymi á helstu vefmiðlum og á
vefsíðu SA.
„Eftir heimsfaraldurinn stendur
íslenskt samfélag frammi fyrir
heilmiklum áskorunum. Um það
verður ekki deilt. Í kjölfarið þurf-
um við að koma hér á stöðugleika
og sjálfbæru ástandi í hagkerfinu.
Það gerum við meðal annars með
því að styrkja nýja atvinnuvegi,
ryðja úr vegi óþarfa hindrunum,
einfalda regluverk, nýta fjármuni
hins opinbera betur til að lækka
skatta og styrkja þannig atvinnu-
lífið til frekari vaxtar.
Samtök atvinnulífsins tóku
nýlega saman 21 áskorun og jafn-
margar lausnir við þeim sem við
hvetjum alla og ekki síst stjórnvöld
til að kynna sér og koma í gagnið.
Þannig náum við sem bestri og
skjótastri viðspyrnu,“ útskýrir
Halldór. Tillögurnar snúa að
opinberum rekstri, skattastefnu,
rekstrarumhverfi atvinnulífsins,
sjálfbærri þróun, vinnumarkaðn-
um, menntamálum og heilbrigðis-
málum. Á ársfundinum verður auk
annars farið yfir þessar tillögur.
Halldór Benjamín vill meðal
annars auðvelda fyrirtækjum að
skapa störf, ekki síst vegna þess
að eftir kórónukreppuna hefur
langtíma atvinnuleysi aukist.
„Störfin þurfa að verða til á
almennum vinnumarkaði en ekki
hjá hinu opinbera. Opinberir aðilar
mega ekki spenna upp launaþróun-
ina með þeim hætti sem almennur
vinnumarkaður getur ekki fylgt
eftir. Þá verður fjölgun starfa ekki
sjálfbær, en til þess að svo megi
verða þarf að einfalda skattkerfið
og afnema hindranir í rekstrarum-
hverfi fyrirtækja. Til dæmis hvað
varðar stofnun fyrirtækja, leyfis-
veitingar og erlenda fjárfestingu.
Rekstrarumhverfi fyrirtækja á
Íslandi þarf að standast erlendum
keppinautum þeirra, og ekki síður
íslenska ríkinu, snúning. Í þeim
efnum þarf ekki síst að gera bragar-
bót á vinnumarkaðslíkaninu, sem
einkennist eins og sakir standa af
óskilvirkri kjarasamningsgerð,
höfrungahlaupi og launastefnu sem
ógnar stöðugleika.“
Rekstrarformið er ekki aðal
atriðið – heldur notandinn
Heilbrigðismálin hafa undanfarið
verið í deiglunni, enda mikið mætt
á heilbrigðiskerfinu í heims-
faraldri.
„Þótt jafnt og þétt heyrist
gagnrýni á einstaka þætti heil-
brigðisþjónustunnar er óumdeilt
að þjónustan er frábær og sinnt
af starfsfólki í fremstu röð. Til að
mynda eru dauðsföll af völdum
Covid-19 hvergi færri en hér á
landi þegar miðað er við hlutfall
af smituðum. En rekstrarformið
má ekki kæfa snilldina sem býr
í fólkinu,“ segir Halldór sem vill
að samið verði við alla þá sem
veita heilbrigðisþjónustu óháð
rekstrarformi þjónustuaðila, með
notandann í forgrunni. Þannig sé
fjármögnun og jafnt aðgengi fólks
að sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu
tryggt.
„Heilbrigðisgjöld hins opinbera
á Íslandi eru einna hæst á Norður-
löndunum þegar leiðrétt hefur
verið fyrir aldurssamsetningu.
Auk þess er þjóðin sífellt að eldast.
Langtímaáætlun ríkisfjármála
gerir ráð fyrir að þessi kostnaður
muni aðeins koma til með að
aukast á komandi árum og ára-
tugum. Ef ekkert verður að gert er
ljóst að hagkerfið mun ekki standa
undir þessum kostnaði. Þess vegna
á einföld regla að stýra heilbrigðis-
þjónustunni: Ríkið ákvarðar verð,
magn og gæði þjónustunnar en
einkaaðilar, ríkisstofnanir og
önnur rekstrarform keppast við að
veita þjónustuna á sem hagkvæm-
astan og bestan máta – og án þess
að fólk þurfi að bíða mánuðum
og árum saman eftir meina sinna
bót,“ segir Halldór Benjamín.
Of mikil miðstýring í íslensku
menntakerfi
Halldóri verður einnig tíðrætt um
menntakerfið. Hann segir kröfur
um þekkingu og færni í atvinnulíf-
inu taka sífelldum breytingum.
„Og þessum kröfum verður
að mæta á sama tíma og almenn
grunnfærni þarf að vera til staðar.
Skólastarfið í dag heldur einfald-
lega ekki í við gjörbreytt umhverfi
nemenda samfara hraðri tækni-
þróun,“ útskýrir hann.
Halldór saknar þess að meiri
umræða eigi sér ekki stað um
menntamál nú í aðdraganda
kosninga.
„Ég sakna þess að heyra ekki
meiri umræðu um menntun hér
á landi. Menntun er undirstaða
atvinnulífsins. Það er enginn
að ræða það að aukið sjálfstæði
skólanna leiðir óumflýjanlega af
sér meiri fjölbreytni og þannig
verður meiri framþróun – í takt
við breyttar þarfi nemenda og
atvinnulífs framtíðarinnar. Þróun
menntakerfisins endurspeglar
einfaldlega ekki þá færni sem við
vitum þó að mun þurfa til í störf
framtíðarinnar. Þetta er áhyggju-
efni,“ segir Halldór.
Framlög hins opinbera til
málaflokksins í heild eru hlutfalls-
lega meiri hér en annars staðar á
Norðurlöndum en árangurinn er
ekki eftir því.
„Ég myndi vilja sjá fjármagnið
fylgja nemendunum. Með auknu
valfrelsi nemenda og svigrúmi
stjórnenda öðlumst við um leið
möguleika til að prófa okkur áfram
til að sjá hvers konar aðferðir henta
mismunandi hópum nemenda
best. Kerfið er nú þegar á eftir og
hefur ekki tekist að bregðast við
breyttu samfélagi. Til að mynda
fer hlutfall nemenda með erlent
móðurmál sífellt hækkandi.
Við vitum að árangurinn heilt
yfir verður ekki bættur ef stórir
hópar eru látnir sitja eftir. Til að
stuðla að jöfnum tækifærum óháð
efnahag, móðurmáli og félags-
legum aðstæðum þarf til dæmis
að efla íslenskukennslu á öllum
skólastigum og svo þarf að brúa
umönnunarbilið sem myndast
þegar fæðingarorlofi lýkur.“
Loftslagsvandinn ekki leystur
með frekari skattlagningu
Halldór Benjamín segir
mikilvægt að tryggja uppbygg-
ingu grænna innviða. Sjónarmið
um náttúruvernd megi ekki leiða
til þess að möguleikar til grænnar
orkuframleiðslu séu takmarkaðir
um of. „Við þurfum að tryggja
raforku til framtíðar og það gerum
við ekki nema með því að virkja.
Þannig stuðlum við að orkuöryggi,
sem við verðum að hafa í nútíma
samfélagi til að viðhalda lífsgæð-
um og samkeppnishæfni landsins.“
Halldór vill einnig skapa hvata
svo fjármagn leiti í grænar og
sjálf bærar lausnir í stað þess að
stjórnvöld reyni að skattleggja
fólk og fyrirtæki út úr loftslags-
vandanum.
„Tryggja þarf aukið gagnsæi
og birta bókhald yfir tekjur og
ráðstöfun grænna skatta til að
tilgangur og markmið skattheimt-
unnar sé skýr. Það á ekki að líta á
græna skatta sem tekjuöflun fyrir
ríkið til langs tíma, enda á frekar
að einblína á að ná tilætluðum
áhrifum með slíkum sköttum.
Hagrænir hvatar þurfa að koma
til – þar sem aðkoma atvinnu-
lífsins leikur lykilhlutverk. Það er
mjög mikilvægt að fjármagn rati í
réttan farveg,“ segir Halldór.
„Ný löggjöf, breyttir fram-
leiðsluhættir og auknar kröfur
um vistvænar vörur og þjónustu,
sem styðja markmið um hringrás
hráefna, er í mikilli sókn um allan
heim og einkennir nýjan raun-
veruleika fyrirtækja. Þröskuldur-
inn getur hins vegar reynst hár og
breytingar kostnaðarsamar fyrir
lítil og meðalstór fyrirtæki. Þess
vegna er mikilvægt að stjórnvöld
styðji atvinnulífið í aðgerðum
sínum í átt að sjálf bærni. Þá þurfa
yfirvöld að sinna leiðbeiningar-
hlutverki sínu af kostgæfni svo
fyrirtæki eigi auðveldara með
að aðlaga sig nýjum veruleika
sem snýr að lögum og regluverki.
Mikilvægt er að lög og reglur taki
mið af aðstæðum hér á landi og
skerði ekki samkeppnisskilyrði
íslensk atvinnulífs.“
Halldór segir að hanna þurfi
skynsamlega hvata til að fjárfest-
ar og lánveitendur setji fjármuni í
grænar og sjálf bærar lausnir með
það að markmiði að ýta undir
kolefnishlutlaust hagkerfi.
„Þessu er meðal annars hægt að
ná fram með hvötum til útgáfu
grænna verðbréfa.“ n
Vill samhent átak í viðspyrnunni
Halldór Benja-
mín Þor-
bergsson er
framkvæmda-
stjóri Samtaka
atvinnulífsins.
Hann segist
sakna meiri
umræðu um
menntamál í
aðdraganda
kosninga enda
sé menntun
undirstaða
atvinnulífsins.
MYND/BIG