Fréttablaðið - 10.07.2021, Síða 24
Uppbygging á innan-
hússlausnum er
almennt okkar mark-
mið.
Myrkur Games ráðast ekki
á garðinn þar sem hann er
lægstur heldur taka slaginn
við stærstu tölvuleikjafram-
leiðendur heims, með vænt-
anlegum leik sínum Echoes
of the End. Innanhússlausnir
hafa verið allt í öllu hjá fyrir-
tækinu, sem tilkynnti nýlega
um samstarf við stóran,
alþjóðlegan útgefanda.
„Við hittumst fyrst í þriggja vikna
áfanga sem snerist um að búa til
tölvuleik á þremur vikum,“ segir
Halldór Snær Kristjánsson, forstjóri
Myrkur Games, um tilurð fyrir-
tækisins. Hann stofnaði Myrkur
árið 2016 ásamt þeim Daníel Arnari
Sigurðssyni og Friðriki Aðalsteini
Friðrikssyni sem kynntust í tölv-
unarfræði í Háskólanum í Reykja-
vík, með áherslu á tölvuleikjaþróun.
Eldskírn Flokkunarhattsins
„Á þessum tíma þekktumst við
ekki neitt en vorum settir saman
í hóp eins og með Flokkunarhatti
Hogwartskóla,“ segir Halldór. „Ég
var nýlega byrjaður að leigja skrif-
stofu svo ég stakk upp á því að við
færum þangað og gerðum eitthvað
geggjað.“
Við tóku svefnlausar nætur þar
sem félagarnir fóru í gegnum eld-
skírn í tölvuleikjagerð. „Við hopp-
uðum beint í djúpu laugina og
bjuggum til leik sem var allt of stór
og metnaðarfullur fyrir nýgræðinga
eins og okkur, en þrátt fyrir það
tókst býsna vel til. Það mikilvægasta
sem við lærðum þar var að okkur
þótti frábært að vinna saman og
að við vorum allir með brennandi
áhuga á tölvuleikjagerð.“
Í kjölfarið fór þríeykið að vinna
að sýndarveruleikatækni sem var
heitasta heitt í tölvuleikjaheim-
inum á þeim tíma, og stofnuðu
Myrkur Games í kringum verk-
efnið. Þrátt fyrir að hafa klárað það
til fullnustu áttuðu félagarnir sig á
að ástríða þeirra lægi annars staðar.
„Okkur langaði að búa til umfangs-
mikinn og metnaðarfullan tölvu-
leik saman, rétt eins og við gerðum
þegar við kynntumst í tölvunar-
fræðinni.“
Áður en Myrkur hófst handa
lögðu þeir í mikla markaðs- og
tæknigreiningu. „Við komumst að
þeirri niðurstöðu að markaðurinn
lægi vel við því að gera það sem við
vildum gera. Við tók nokkurra ára
vinna við að byggja upp gott kjarna-
teymi, og þá þekkingu og verkferla
sem verkefnið krafðist.“ Fyrirtækið
hlaut um þetta leyti styrk frá Tækni-
þróunarsjóði, sem Halldór segir að
hafi stutt enn frekar við uppbygg-
inguna.
Myrkur var ekki að ráðast á
markaðinn þar sem hann er lægstur,
en umrætt verkefni er sögudrifinn
ævintýraleikur á engum smá-
skala. Samkeppnisaðilar á þeim
markaði eru einhverjir stærstu
tölvuleikjaframleiðendur heims
en Halldór segir að það hafi ekki
aftrað ástríðunni. „Myrkur í heild
er byggt á þeirri hugmynd að með
því að nýta mikla tæknifram-
þróun í tölvuleikjaiðnaðinum geti
minna fyrirtæki eins og Myrkur
gert sömu hluti og þessir risastóru
framleiðendur,“ segir Halldór. „Það
sem gengur okkur í hag er að hver
einasti leikur á þessum markaði er
svo stór og umfangsmikill að það
tekur mörg ár fyrir jafnvel stærstu
fyrirtækin að gefa út hvern leik, sem
tekur svo kannski bara nokkra tíma
fyrir leikmenn að klára. Þarna sáum
við gullið tækifæri til að anna hluta
af þeirri gríðarlegu eftirspurn sem
er eftir svona leikjum.“
Tvífarar og hreyfirakning
Til að leikur Myrkurs gæti orðið
að veruleika voru ýmsar tækni-
legar áskoranir sem þurfti að leysa.
Ein þeirra var hreyfirakningar-
tækni (e. motion capture) sem var
nauðsynleg til að glæða persónur
leiksins lífi. „Við ákváðum strax að
reisa okkar eigið upptökuver,“ segir
Ljóst yfir Myrkur Games
Halldór segir að mikil tækniframþróun í iðnaðinum hafi gert litlum tölvu-
leikjaframleiðendum kleift að gera sömu hluti og risarnir á markaðnum.
FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Andrúmsloftið er temmilega afslappað í höfuðstöðvunum á Fiskislóð.
FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Leikararnir Aldís
Amah Hamilton
og Karl Ágúst
Úlfsson fara
með aðalhlut-
verkin í Echoes
of the End. Hér
eru þau útbúin
hreyfirakningar-
tækni ...
MYND/MYRKUR
GAMES
Halldór. „Það var hvorki einfalt né
ódýrt, en það hefur reynst algjör-
lega rétt ákvörðun, og veitir okkur
vissa sérstöðu í samanburði við
önnur fyrirtæki af svipaðri stærð.
Uppbygging á innanhússlausnum
er almennt okkar markmið. Auk
versins smíðuðum við líka hátækni
skönnunarver, samansett af tugum
myndavéla og öðrum búnaði, sem
leyfir okkur nokkuð einfaldlega að
„skanna“ leikara og skapa nákvæma
eftirlíkingu af leikurum innan leiks-
ins – eins konar tölvugerða tvífara.
Það er ljóst að þessar lausnir hafa
skilað Myrkri miklum árangri, en
nýlega tilkynnti Myrkur um sam-
starf sitt við framleiðandann Prime
Matter, sem hefur höfuðstöðvar í
Þýskalandi.
„Þetta var algjör draumaniður-
staða fyrir okkur,“ segir Halldór.
„Við erum komin í samstarf við
alþjóðlegan útgefanda sem deilir
metnaði okkar fyrir því að þróa
framúrskarandi leikjaupplifun.
Prime Matter kemur inn með fjár-
magn í verkefnið fyrir umtalsverða
stækkun teymisins og tryggir þróun
fram að útgáfu. Þetta er langstærsta
skref Myrkur Games frá upphafi,
og stórt skref fyrir leikjaiðnaðinn
á Íslandi.“
Endalokin bergmála
Í stiklu sem Prime Matter gaf út á
dögunum má sjá brot úr leiknum
sem Myrkur hefur verið að vinna
að frá upphafi. Leikurinn ber heitið
Echoes of the End og á sér stað í
fantasíuheimi með ívafi af vísinda-
skáldskap. Leikmenn bregða sér í
hlutverk söguhetjunnar Ryn, sem er
leikin af Aldísi Ömuh Hamilton, og
takast á við erfiðar ákvarðanir sem
hún stendur frammi fyrir.
Aðspurður um hvenær áhuga-
samir geti fengið að sjá meira af
leiknum og jafnvel hvenær hann
sé væntanlegur í hillur verður Hall-
dór dulur. „Við viljum ekki tala um
útgáfudag fyrr en við erum komin
aðeins nær honum en það er nóg í
höfn,“ segir hann.
Í dag er Myrkur nýf lutt í nýtt
skrifstofuhúsnæði á Fiskislóð og
segir Halldór að markmiðið sé að
tvöfalda starfsmannahópinn sem
telur í dag átján manns. „Við erum
að ráða inn nokkuð hratt og erum
að leita að fólki í öll hlutverk fyrir-
tækisins, allt frá listamönnum yfir
í forritara,“ segir hann. „Við erum
loksins komin á fullt skrið og erum
spennt fyrir að fá meira frábært
liðsafl til að hjálpa okkur að gera
leikinn að veruleika.“ ■
Arnar Tómas
Valgeirsson
arnartomas
@frettabladid.is
Rýmin á skrifstofunni heita eftir stöðum úr leiknum. Halldór grátbað blaða-
mann að nota ekki mynd af skrifstofu sinni, Lord’s Peak. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
... sem kemur þeim inn í leikinn sem persónunum Ryn og Abram.
24 Helgin 10. júlí 2021 LAUGARDAGURFRÉTTABLAÐIÐ