Fréttablaðið


Fréttablaðið - 23.09.2021, Qupperneq 50

Fréttablaðið - 23.09.2021, Qupperneq 50
KVIKMYNDIR Dune Leikstjóri: Denis Villeneuve Leikarar: Timothée Chalamet, Rebecca Ferguson og Oscar Isaac thorvardur@frettabladid.is Mikil eftirvænting hefur ríkt eftir kvikmyndinni Dune úr smiðju fransk-kanadíska leikstjórans Denis Villeneuve. Sökum Covid-faraldurs- ins var frumsýningu hennar frestað um tæpt ár og nú er loks tækifæri til að sjá sýn Villeneuve á hina klass- ísku vísindaskáldsögu Dune eftir Frank Herbert. Villeneuve hefur átt í orðaskaki við framleiðendur myndarinnar, Warner Bros, vegna ákvörðunar fyrirtækisins um að frumsýna Dune vestanhafs samtímis í kvik- myndahúsum og á streymisveit- unni HBO Max. Leikstjórinn er afar ósáttur við þetta og hefur gagnrýnt Warner Bros harðlega og sagt fyrir- tækið láta stjórnast af duttlungum Wall Street, á kostnað listrænnar sýnar hans. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þekktur leikstjóri tekst á við Dune. Árið 1984 kom Dune út í leikstjórn David Lynch með Kyle MacLachlan og Virgina Madsen í aðalhlutverk- um. Sitt sýnist hverjum um hana og hefur Lynch sjálfur sagt að Dune sé eina misheppnaða myndin hans. Þó hefur hún fengið uppreist æru á undanförnum árum og er komin í hóp svokallaðra költ-mynda. Sandauðn og sandormar Í fjarlægri framtíð er efnið melange, eða spice, nauðsynlegt til ferða milli stjarnanna. Hertoginn Leto Atreides, leikinn af Oscar Isaac, er skipaður af keisaranum til að hafa umsjón með vinnslu malange á eyðimerkurplánetunni Arrakis, þar sem hver vatnsdropi er lífsnauð- synlegur og heljarinnar sandormar skapa stöðuga hættu. Atreides-fjölskyldan flyst búferl- um frá heimaplánetu sinni Caladan og tekur við plánetunni úr höndum Harkonnen-fjölskyldunnar undir forystu Vladimir Harkonnen bar- óns, sem Stellan Skarsgaard leikur. Fljótlega kemur í ljós að Atreides- fjölskyldan fékk í hendur eitraðan kaleik frá keisaranum. Sonur Leto og arftaki, Paul Atrei- des, er efnilegur ungur maður og söguhetjan. Hann býr yfir dulræn- um hæfileikum sem munu koma honum mjög að gagni á hinni óvin- veittu eyðimerkurplánetu. Tim- othée Chalamet fer með hlutverk Paul, en virðist hafa verið fenginn til verksins fremur vegna útlits síns en leiklistarhæfileika. Paul er fjarlægur og áhyggjufullur, sem Chalamet kemur ágætlega til skila, en tekst ekki að gefa persónunni mikla dýpt, hvort sem það er sök handritsins eða hans sjálfs. Paul hefur lært speki Bene Gess- erit-trúarreglunnar undir hand- leiðslu móður sinnar og hjákonu Leto hertoga, lafði Jessicu, sem leikin er af Rebecca Ferguson. Hún tilheyrir reglunni og hefur þjálfað son sinn í að beita tækni hennar, sem er afar kraftmikil og nytsamleg, til fá sínu framgengt. Við komuna til Arrakis hrópa innfæddir að Paul og ákalla hann sem Messías. Á Arrakis býr þjóðflokkur Fre- mena. Þau hafa búið í eyðimörkinni í aldaraðir og aðlagast ólífvænleg- um aðstæðum með þróaðri tækni sem gerir þeim kleift að kreista fram hvern vatnsdropa. Fremenar eru ekki hrifnir af aðkomumönnum sem gefa lítt fyrir plánetuna, hið eina sem þeir hafa áhuga á er krydd- ið. Til að gera langa sögu stutta neyðist Paul til að leita aðstoðar Fremena í baráttu sinni gegn Har- konnen-fjölskyldunni. Framhald veltur á áhorfendum Dune er fremur augljós allegóría fyrir nýlendutímann, þar sem utan- aðkomandi (og hvítt) fólk kemur, mergsýgur náttúruauðlindir, kúgar innfædda og fer með gróðann á brott. Paul veitir íbúum Arrakis von um að hann muni breyta um stefnu og gera meira til að byggja plánet- una upp, þeim til hagsbóta. Hvort úr því rætist kemur í ljós í framhalds- mynd sem Villeneuve vonast til að gera, en það veltur á því hvort fólk flykkist á þessa í bíó. Bókin Dune er mikill doðrantur og ekki öfundsvert fyrir Villeneuve að reyna að koma sögunni til skila á skjáinn. Mikill tími fer í að skapa heiminn og stemninguna. Varpað er ljósi á baktjaldamakkið í keisara- veldinu í fyrri hluta Dune, en síðan tekur við nánast viðstöðulaus hasar. Fyrri hlutinn er mun áhugaverðari og hefði mátt gefa honum meira vægi á kostnað eltingarleikja og bardaga, þó að þeir séu vissulega afar glæsilegir. Það tekst ekki áfallalaust að koma orðum Herbert til skila og er útkoman sú að útlit er ofar inni- haldi. Handritið er ekki jafn glæsi- legt og útlit myndarinnar. Fyrir vikið skilur Dune lítið eftir sig en Oscar Isaac tekst þó að gera sér mat úr hlutverki sínu og leikur feikna vel eins og alltaf. Aðrir leikarar ná ekki sömu hæðum og eru Chalamet og Zendaya, í hlutverki Chani, ekki eftirminnileg. Ekki hjálpar skegg- leysið Jason Momoa í hlutverki her- mannsins Duncan Idaho. Babs Olus- anmokun stelur hins vegar senunni í litlu hlutverki og er leitt að hann fái ekki meira að moða úr. Upplifun og flótti Óhætt er að segja að Dune sé mikið sjónarspil. Kvikmyndin kostaði 165 milljónir dollara í framleiðslu og sést hver dollari á skjánum. Myndataka Greig Fraser er mögnuð og tölvu- brellurnar eru í heimsklassa. Sömu- leiðis er tónlistin frábær enda er það Óskarsverðlaunahafinn Hanz Zimmer sem ber ábyrgð á henni. Dune er mikil upplifun og Ville- neuve hefur mikið til síns máls í gagnrýni sinni á Warner Bros. Þetta er ekki kvikmynd sem nýtur sín í sjónvarpinu heima, þetta er mynd til að sjá í bíó. Ekki þó búast við kvikmynd sem hreyfir við þér, sestu heldur í bíósætið og leyfðu Villeneuve að flytja þig til fjarlægrar framtíðar. Ekki veitir af smá flótta á þessum síðustu og verstu tímum. n NIÐURSTAÐA: Dune er stórbrotið sjónarspil sem nýtur sín vel á stjóra tjaldinu en skilur lítið eftir sig. Tilkomumikill veruleikaflótti Dune er komin í kvikmyndahús, ári á eftir áætlun. MYND/WARNER BROS. Leikarar Dune stilla sér upp á rauða dreglinum á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum þar sem hún var frumsýnd 3. september. FRÉTTABLAÐIÐ/EPA KVIKMYNDIR Malignant Leikstjórn: James Wan Aðalhlutverk: Annabelle Wallis, Maddie Hasson, Michole Briana White, George Young toti@frettabladid.is Hryllingur er vitaskuld dásamleg kvikmyndagrein og óumdeild and- leg heilsubót samkvæmt marg- reyndu læknisráði og sígildri kenn- ingu Aristótelesar um kaþarsis. Verstur andskotinn bara að hug- myndafræðilegt svigrúm hryll- ingsmyndanna er svo þröngt að frumleikinn líður fyrir að enda- laust er hægt að vekja ótta, spennu og viðbjóð með því að spila á frum- stæðustu hvatir okkar með eilífri endurtekningu hins sama. Litlu verður því blóðþyrstur Vöggur feginn, þannig að ekki er annað hægt en að taka þessu nýj- asta og frumlegasta útspili hroll- vekjupáfans James Wan í háa herr- ans tíð, vægast sagt fagnandi Wan gerði verðskuldað storm- andi lukku fyrir sautján árum með Saw og hefur allar götur síðan verið aðalgæinn í meginstraums- hryllingnum. Saw, eins ferlega góð og hún er, gat að sjálfsögðu af sér nýjan hryllingsmyndabálk sem útvatnaðist hratt og örugglega, eins og gengur og gerist í þessari deild, með endalausri halarófu framhalds- mynda sem fóru stigversnandi og náðu nýlega síðasta lágpunkti með hinni fádæma lélegu Spiral: From the Book of Saw. Eftir að hafa sveiflað söginni með stæl hnyklaði Wan vöðvana með upphafsmyndum bálkanna sem kenndir eru við The Conjuring og Insidious sem fóru ágætlega af stað en hafa, samkvæmt náttúrulögmál- inu, myglað hratt og örugglega. Breytir þó litlu um að með Mal- ignant sýnir Wan og sannar hressi- lega að enn má treysta á hann í þess- um efnum. Auðvitað er hann ekkert að finna upp hryllingshjólið, en galsinn í þessu drama um illkynja óféti, sem gengur berserksgang eftir að hafa verið fjarlægt með afdrifa- ríkri skurðaðgerð, er bara svo fjandi galsafengið að úr verður óvenjugóð hryllingsskemmtun. Þá má Freddy heitinn Krueger heldur betur snúa sér í öskustónni ef þetta nýjasta illfygli úr smiðju Wans, með stolna hárkollu úr Ringu, mun ekki snúa ítrekað aftur í efni- legum en um leið bráðfeigum, nýjum myndabálki. Skepnan sú hefur alla burði til þess og vel það. Annars segir hér af henni Madis- on sem, að því er virðist, upp úr þurru byrjar að þróa með sér svefn- rofalömun sem er þeim annmörk- um háð að lömuð af ótta sér hún fyrir sér subbuleg morð sem síðan reynast bara mjög svo raunveruleg. Skýringuna á þessum leiðindum er að finna í skuggalegri fortíð hennar og þótt allur málatilbúnað- ur gegn henni og í kringum morðin sé algerlega út í hött þá tekst Wan að stilla þessu þannig upp að maður gengur ruglaðri sögunni á vald strax í upphafi. Djöflasýrunni pakkar hann svo smekklega í stíliseraðan 80‘s-bún- ing sem hann skreytir vísunum í sígildar myndir á borð við Polter- geist og Carrie. Malignant er þar fyrir utan merkilega lítið ógeðsleg, en vinnur það upp og rúmlega það með góðum húmor og sturluðum hasaratriðum sem fengin eru að láni úr The Terminator, þannig að úr verður staðlaður en samt brakandi ferskur hrollur sem kallar frekar fram hlátur en gæsahúð. Vel gert! n NIÐURSTAÐA: Klikkuð og kleyf- huga hryllingsmynd sem tekst ítrekað að koma skemmtilega á óvart þegar hún lætur öllum illum látum og fer út og suður innan staðlaðs hryllingsmyndarammans með hæfilegum slettum af hasar og gríni. Skemmtilega illkynja djöflasýra Annabelle Wallis, óskyld dúkkunni eftir því sem næst verður komist, upplifir skelf- ingu í illkynja vökusvefni. 28 Lífið 23. september 2021 FIMMTUDAGURFRÉTTABLAÐIÐLÍFIÐ FRÉTTABLAÐIÐ 23. september 2021 FIMMTUDAGUR

x

Fréttablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.