Morgunblaðið - 15.05.2021, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 15.05.2021, Blaðsíða 27
UMRÆÐAN 27 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. MAÍ 2021 Að minnsta kosti tveir stjórnmálaflokk- ar stefna að inngöngu Íslands í Evrópusam- bandið og lagði annar þeirra, Viðreisn, ný- lega fram tillögu á Al- þingi í þá veru. Það er góð tilbreyting í stjórnmálum að tak- ast á um grundvallar- mál og að því leyti er þessi tillaga fagnaðarefni. Það þarf nefnilega að rifja upp reglulega og mun oftar en gert er hversu arfa- vitlaus sú hugmynd er að Ísland gangi í Evrópusambandið. Í rúman aldarfjórðung höfum við Íslendingar hagað okkar skipt- um við Evrópusambandið á grund- velli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn hefur reynst afskaplega vel og tryggt okkur aðgang að mikil- vægum mörkuðum og þátttöku í samstarfi Evrópuríkja, samstarfi sem við teljum okkur til hagsbóta. EES-samningurinn felur það í sér að meginstefnu að við tökum þátt í því sem okkur hentar en stöndum utan við það sem samræmist ekki okkar grundvallar- hagsmunum. Sjálfstæð við- skiptastefna Með því að standa utan við Evrópusam- bandið höldum við okkar sjálfstæðu við- skiptastefnu og höfum fullt forræði á viðskiptasamn- ingum við önnur ríki, á okkar for- sendum, hvort sem það er tvíhliða, eins og gagnvart Kína, eða í sam- floti með hinum EFTA-þjóðunum. Hvaða þýðingu hefur sjálfstæð viðskiptastefna? Jú, fríverslunar- samningar Íslands ná í dag til 74 ríkja og landsvæða og tæplega 3,2 milljarða manna, eða rúmlega þriðjungs mannkyns. Þrír samn- ingar EFTA bíða gildistöku, við Indónesíu, Ekvador og Gvatemala, og þá er fríverslunarsamningur EFTA og Mercosur, tollabanda- lags Argentínu, Brasilíu, Para- gvæs og Úrúgvæs, á lokametr- unum. Samanlagt mun Ísland þá eiga í fríverslunarsambandi við ríki þar sem búa tæplega fimm milljarðar manna eða tveir af hverjum þremur jarðarbúum. En kostirnir við að standa utan við ESB eru fleiri og stærri en forræði á utanríkisviðskiptum. Þar vegur auðvitað þyngst að við stöndum utan við sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB, stefnu sem fyrir löngu hefur sannað gagnsleysi sitt og skaðsemi. Þar fyrir utan erum við laus við stefnu ESB þegar kemur að dreifbýlis- þróun, skattamálum, gjaldmiðils- samstarfi, byggðastefnu, réttar- vörslu, dóms- og innanríkismálum, tollabandalagi, utanríkistengslum, öryggis- og varnarmálum, fjár- hagslegu eftirliti, framlagsmálum og stofnunum, svo eitthvað sé nefnt. Það sem okkur hentar Aftur: Við erum aðilar því sem hentar en stöndum utan við það sem ekki þjónar okkar hags- munum. Því hefur verið linnlaust haldið að íslenskum almenningi að við séum svo gott sem aðilar að ESB á grundvelli EES-samnings- ins vegna þess að við innleiðum svo mikið af regluverkinu (nefnt hefur verið 80-90%) og því allt eins gott að stíga skrefið til fulls. Þetta eru blygðunarlausar rang- færslur. Í upphafi kjörtímabilsins lét utanríkisráðherra gera úttekt á þessu og leiddi hún svart á hvítu í ljós að frá gildistöku samnings- ins árið 1994 og til ársloka 2016 innleiddum við Íslendingar 13,4% þeirra gerða sem Evrópusam- bandið samþykkti á sama tímabili. Þetta hlutfall hefur lítið breyst á síðustu fimm árum. Innganga í ESB myndi þýða að allir 34 mála- flokkar ESB ættu við um okkur en ekki einungis þeir sem okkur eru hagfelldastir. Hagsmunagæsla mikilvæg innan EES En þótt EES-samningurinn sé góður þá fáum við ekkert gefins. Við þurfum sjálf að búa þannig um hnútana að samningurinn þjóni sem best íslenskum hags- munum og því miður hefur því mikilvæga verkefni ekki alltaf ver- ið sinnt af nægilegri festu, þótt kúvending hafi orðið í þeim efnum á síðustu árum undir forystu Guð- laugs Þórs Þórðarsonar utanrík- isráðherra. Það er óskandi að Viðreisn og systurflokkur hennar á þingi haldi umræðu um aðild að Evrópusam- bandinu sem hæst á lofti í kosn- ingabaráttunni sem fram undan er. Því betur sem að er gáð því verri er hugmyndin um aðild að Íslands að Evrópusambandinu. Aðild að Evrópusambandinu fer gegn hagsmunum Íslands Eftir Diljá Mist Einarsdóttur » Það er óskandi að Viðreisn og systur- flokkur hennar á þingi haldi umræðu um aðild að Evrópusambandinu sem hæst á lofti í kosn- ingabaráttunni. Diljá Mist Einarsdóttir Höfundur er hæstaréttarlögmaður, aðstoðarmaður utanríkis- og þróun- arsamvinnuráðherra og frambjóðandi til 3. sætis í prófkjöri Sjálfstæðis- flokksins í Reykjavík. Varnarsamstarf Ís- lands byggist á tveimur grunnstoðum; annars vegar aðild Íslands að Atlantshafsbandalag- inu frá 1949 og hins vegar varnarsamn- ingnum milli Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951, en samning- urinn var undirritaður af Bjarna Benedikts- syni, þáverandi utanríkisráðherra, fyrir hönd Íslands. Frá upphafi hef- ur varnarsamstarfið einnig verið mikilvæg stoð í atvinnulífinu hér á landi og þá sérstaklega á Suð- urnesjum. Í september 2006 fóru Banda- ríkjamenn frá Íslandi með fast herlið en uppfylla enn mikilvægar skuld- bindingar, nú með færanlegum, getumiklum liðsafla, í samræmi við þær tæknibreytingar sem orðið hafa síðastliðinn áratug. Tæknibreyt- ingar og nýr búnaður gerir fasta við- veru óþarfa, þess í stað er enn mik- ilvægara en áður að hér á landi séu til staðar á öllum tímum allir nauð- synlegir innviðir, búnaður, kerfi, mannskapur og geta til að styðja við tímabundna viðveru liðsafla Atlants- hafsbandalagsins og aðildarþjóða bandalagsins, þar með talið Banda- ríkjanna. Þjóðaröryggisstefna Íslands endurspeglar þessar áherslur, en í 6. áherslulið kemur fram að tryggja eigi að í landinu séu til staðar varnar- mannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnar- málum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Eitt af mik- ilvægustu verkefnum utanríkis- ráðherra hefur verið að uppfylla áhersluatriði þjóðaröryggis- stefnunnar og eru framkvæmdir og uppbygging á öryggissvæðunum dæmi um ábyrga stjórnun og forystu hvað varðar öryggis- og varnarmál. Mannvirkjasjóður Atlantshafs- bandalagsins kemur að fjármögnum framkvæmda Frá 2006 hafa íslensk stjórnvöld í samstarfi við Atlantshafsbandalagið og aðildarþjóðirnar tekið ábyrgð á eigin vörnum og framkvæmd þeirra að því marki sem herlausri þjóð er mögulegt. Í upphafi fór verkefnið hægt af stað, varnar- málalög og varnarmál urðu fyrst að sjálfstæð- um fjárlagalið árið 2008. Utanríkis- ráðuneytið tók á þeim tíma yfir ábyrgð á framkvæmd og stjórn- sýslu varnarverkefna, samanber forseta- úrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnar- ráði Íslands. Frá árinu 2014 hefur mikilvægi öryggis- og varnarmála aukist umtalsvert og hefur utanrík- isráðuneytið mætt þeim áskorunum með stofnun öryggis- og varn- armálaskrifstofu, sem er búin sér- fræðingum sem hafa getu til að tak- ast á við hefðbundnar, óhefðbundnar og nýjar áherslur í öryggis- og varn- armálum. Fjárveitingar hafa verið auknar umtalsvert, samið hefur ver- ið við Bandaríkin um aukna tíma- bundna tilfallandi viðveru og fram- kvæmdir, auk þess sem Mannvirkja- sjóður Atlantshafsbandalagsins kemur í auknum mæli að fjár- mögnum framkvæmda hér á landi, það er þeirra verkefna, sem teljast til sameiginlegra þarfa bandalagsins og aðildarþjóðanna. Allir njóta góðs af varnarsamstarfinu Öryggissvæðin, áður varnarsvæði, eru á Keflavíkurflugvelli, Miðnes- heiði, Helguvík, Bolafjalli, Gunnólfs- víkurfjalli og Stokksnesi. Allir lands- menn hafa notið og njóta enn góðs af varnarsamstarfinu. Ljósleiðari Atl- antshafsbandalagsins, sem er hring- tengdur umhverfis landið, er einnig nýttur til að örva samkeppni á fjar- skiptamarkaðnum. Olíubirgða- stöðvar Atlantshafsbandalagsins í Helguvík og á Keflavíkurflugvelli, ásamt olíuhöfninni í Helguvík og tengdu lagnakerfi, þjóna einnig öllu borgaralegu millilandaflugi hér á landi. Þá er mikið af mikilvægum innviðum Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli nýtt fyrir borg- aralegt flug og gögn úr ratsjár- eftirlitskerfum Atlantshafs- bandalagsins eru enn mikilvæg fyrir flugleiðsögu og flugöryggi. Eins og Suðurnesjamenn hafa orð- ið varir við kemur mikill fjöldi er- lends liðsafla og sérfræðinga til Ís- lands á hverju ári, hluti þeirra hefur stutta dvöl og aðrir lengri. Margir dvelja á öryggissvæðinu á Keflavík- urflugvelli og aðrir á hótelum, flestir á Suðurnesjum. Frá upphafi Covid- faraldursins hefur erlendur liðsafli verið uppistaðan í ferðamanna- iðnaðinum og með því viðhaldið rekstrarhæfni margra ferðaþjón- ustufyrirtækja á Suðurnesjum og þar með skapað atvinnu. Til að uppfylla þjóðréttarlegar varnarskuldbindingar Íslands er á öryggissvæðinu m.a. gistiaðstaða fyrir þá sem þurfa að dvelja innan öryggissvæðisins og önnur aðstaða, t.d. mötuneyti og fleira. Í dag er mötuneytið og fundaraðstaðan á ör- yggissvæðinu einnig nýtt í bólusetn- ingar fyrir alla íbúa á Suðurnesjum, auk þess sem aðrar öryggisstofnanir hér á landi nýta alla aðstöðuna til æf- inga og þjálfunar. Sameiginlegt hagsmunamál bandalagsþjóðanna Á öryggissvæðunum starfa allt að 50 fastir starfsmenn varnarmála- sviðs Landhelgisgæslu Íslands, sem fer með framkvæmd rekstrar- tengdra verkefna í umboði utanrík- isráðuneytisins, ásamt fjölda verk- taka sem sjá um þjónustu á svæðinu, t.d. rekstur mötuneytis, öryggis- gæslu, ræstingar, viðhald og önnur tilfallandi verkefni. Helstu verkefni varnarmálasviðs Landhelgisgæslu Íslands eru rekst- ur íslenska loftvarnakerfisins, hátæknibúnaðar sem krefst mikillar sérhæfingar, stjórnstöðvar Atlants- hafsbandalagsins, ratsjár- og fjar- skiptastöðva, viðhald og rekstur mannvirkja og svæða og gistiríkja- stuðningur til stuðnings við erlendan liðsafla. Það er ekki á færi lítillar þjóðar með 369.000 íbúa að fjármagna kostnaðarsamar uppfærslur og end- urnýja sérhæfðan hátæknibúnað og mannvirki, því hafa Atlantshafs- bandalagið og Bandaríkin í auknum mæli komið að verkefnum hér á landi enda sameiginlegt hagsmunamál bandalagsþjóðanna. Til að koma til móts við íbúa á Suð- urnesjum hefur mikil vinna verið lögð í að bæta hljóðvist, en verkefnið hefur verið unnið í nánu samstarfi við Isavia og norska varnarmála- ráðuneytið. Stjórnstöð Atlantshafsbandalags- ins á öryggissvæðinu hefur verið endurbætt og búnaður endurnýjaður í takt við nýjar og auknar kröfur og tæknibreytingar. Í dag er stjórn- stöðin hér á landi með þeim full- komnari hjá Atlantshafsbandalag- inu, en stjórnstöðin er hluti af samþættu eftirlitskerfi bandalags- ins, sem rekið er í flestum aðild- arríkjunum, undir stjórn herstjórna bandalagsins í Bretlandi og Þýska- landi. Á Keflavíkurflugvelli hefur aðflugsviti verið endurnýjaður í sam- vinnu við Isavia. Einnig er verið að endurbæta akstursbrautir flugvéla, flughlöð og flugskýli, en 16 flugskýli á Keflavíkurflugvelli eru á eignalista bandalagsins og á ábyrgð utanríkis- ráðherra. Byggingu þvottastöðvar fyrir flugvélar lýkur í sumar. Hluti þessara framkvæmda er til að mæta nýjum kröfum um umhverfisvernd. Þá hefur fjarskiptakerfi Atlants- hafsbandalagsins hér á landi verið endurbætt, endurnýjað og í ágúst 2020 var lokið við að uppfæra rat- sjáreftirlitskerfin, en mannvirkja- sjóður Atlantshafsbandalagsins lagði til 3,5 milljarða króna í verkefnið. Framangreind verkefni eru flest viðbót við hefðbundin árleg rekstrar- og viðhaldsverkefni, sem fjármögnuð eru af utanríkisráðuneytinu. Önnur verkefni, sem hafa verið eða eru í framkvæmd, hafa að mestu verið fjármögnuð af Atlantshafsbandalag- inu. Áætluð heildarupphæð framan- greindra verkefna er um 20 millj- arðar og áætlað er að verkefnin skapi samtals 420 ársstörf á fram- kvæmdatímanum, sem er að hluta til lokið. Verkefnin skapi allt að 1.150 ársstörf til 2025 Í undirbúningi er áframhaldandi uppbygging, t.d. bygging vöruhúsa þar sem stuðningsbúnaður verður hýstur komi til hættuástands á Norður-Atlantshafi, búnaður sem getur komið að notum hér á landi á hættutímum, þ.m.t. eru stórar vara- aflsvélar, vinnuvélar og færanlegt mötuneyti. Aðrar framkvæmdir fela í sér endurbætur á mannvirkjum, byggingu gistiskála, endurbætur til að uppfylla nýjar kröfur um umhverfisvernd og endurnýjun á þotugildrum á Keflavíkurflugvelli ásamt endurbótum á hafnaraðstöð- unni í Helguvík og aðstöðu þar til eldsneytisáfyllingar fyrir skip. Áætl- uð heildarupphæð framangreindra verkefna er allt að 27 milljarðar og má gera ráð fyrir að verkefnin skapi allt að 1.150 ársstörf á framkvæmda- tímanum, sem er áætlaður til 2025. Þá má gera ráð fyrir að föstum starfsmönnum muni fjölga um 80 til 100 og til viðbótar munu þjónustu- og verktakakaup aukast umtalsvert, en allar framkvæmdirnar kalla á umtalsverða aukningu í viðhaldi og þjónustu. Miðstöð öryggis- og varnarmála Eins hefur verið gerður samn- ingur við danska varnarmálaráðu- neytið um að á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sé hýstur neyð- arbúnaður fyrir Grænland, búnaður sem einnig gæti til framtíðar nýst hér á landi í neyð. Af framangreindu má fullyrða að Suðurnesin séu miðstöð öryggis- og varnarmála og að varnarverkefnin séu mikilvæg stoð í að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf á Suðurnesjum, verkefni sem skapa fjölbreytt störf við allra hæfi og á öllum menntunar- stigum. Á sama tíma og lokað var á ferða- mannaflæðið inn í landið hélt varnarsamstarfið áfram. Gistinætur erlends liðsafla og sérfræðinga hér á landi árið 2020 voru samtals 55.431, þar af voru 28.647 gistinætur á hót- elum utan öryggissvæðisins, flestar á Suðurnesjum. Það má því áætla að einstaklingarnir hafi greitt um 1,5 milljarða króna fyrir gistingu, fæði og ferðir (rútur og bílaleigubíla). Út frá sömu forsendum má áætla að hersveitirnar sem til landsins komu hafi keypt aðra þjónustu fyrir allt að tvo milljarða króna. Að jafnaði dvelja tímabundið hér á landi um 150 erlendir liðsmenn, flestir á Suður- nesjum, og er hlutfallið í ár óbreytt. Markmiðið með grein þessari er að upplýsa um mikilvægi varnar- samstarfsins, þýðingu þess fyrir fjöl- breytt atvinnulíf á Suðurnesjum og hagnýtingu mikilvægra innviða í þágu almennings. Öryggis- og varnarmál mikilvæg stoð Eftir Vilhjálm Árnason » Óhætt er að fullyrða að Suðurnesin séu miðstöð öryggis- og varnarmála og að varn- arverkefnin séu mikil- væg stoð í að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf á Suðurnesjum. Vilhjálmur Árnason Höfundur er varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og frambjóðandi í 1. sæti. vilhjalmura@althingi.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.