Morgunblaðið - 20.05.2021, Side 6
6 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 20. MAÍ 2021
+ + + = 19.990 kr.
A L LT ÓTA K M A R K A Ð
Fjölskyldupakkinn:
Rúmur helmingur starfsmanna
Landspítalans, eða 56,8%, var í
hlutastarfi við spítalann á seinasta
ári en hlutastörfin ná frá 10% og upp
í 99% starfshlutfall. Hlutfall hluta-
starfsmanna hefur verið svipað sein-
ustu árin en alls störfuðu 6.390
starfsmenn á Landspítalanum í
4.378 stöðugildum á árinu 2020.
Þetta kemur fram í svari Svandís-
ar Svavarsdóttur heilbrigðisráð-
herra við fyrirspurn Óla Björns
Kárasonar alþingismanns um rekst-
ur Landspítalans 2010-2020.
Fram kemur að heildarframlög
ríkisins til Landspítalans á fjárlög-
um voru 16 milljörðum kr. hærri á
seinasta ári en á árinu 2010 reiknað á
föstu verðlagi. Framlögin voru
75.749 milljónir kr. á síðasta ári og
höfðu þá hækkað um 2% á milli ára.
Reiknað á föstu verðlagi voru fram-
lögin um 59,7 milljarðar á árinu
2010.
Einnig óskaði þingmaðurinn m.a.
upplýsinga um hversu stór hluti
starfsmanna spítalans sem eru í fullu
starfi fengi einnig launagreiðslur frá
öðrum opinberum stofnunum sem
fjármagnaðar voru af ríkinu. Í
svarinu kemur fram að nær fjórð-
ungur starfsmanna Landspítalans í
fullu starfi fékk einnig greiðslur frá
öðrum opinberum stofnunum á um-
liðnum áratug. Hlutfall þeirra var
23,5% í fyrra og 24,6% á árinu 2019.
Þessi hópur starfsmanna fékk tæp-
lega 303 milljónir kr. samtals í laun
hjá öðrum stofnunum en Landspít-
alanum í fyrra og var hlutfall þeirra
launagreiðslna 4,9% af þeim launum
sem þeir fengu á spítalanum.
Hlutfall launagjalda af rekstrar-
kostnaði Landspítalans var 73,3% í
fyrra, 73,7% árið 2015 og 70,9% árið
2010. Frá 2008 hefur starfsmönnum
fjölgað um 20% og stöðugildum um
14%. Frá 2010 hefur launakostnaður
hækkað umtalsvert reiknað á föstu
verðlagi. Hann var rúmir 49 millj-
arðar á núvirði 2010 en ríflega 61,5
milljarðar í fyrra. Bent er á í svarinu
að árið 2010 sé ekki raunsætt við-
miðunarár því þá voru fjárveitingar
til spítalans lækkaðar umtalsvert í
kjölfar efnahagshrunsins og stöðu-
gildum fækkað. Á þessu tímabili hafi
einnig mannfjöldinn vaxið, eldri ald-
urshópar stækkað auk þess sem
spítalinn hafi tekið við fjölmörgum
nýjum verkefnum. omfr@mbl.is
56,7% í hlutastarfi á Landspítala
- Heildarframlög til spítalans í fyrra
voru 16 milljörðum hærri en árið 2010
Morgunblaðið/Ómar
Landspítalinn Launakostnaðurinn var um 61,5 milljarðar á seinasta ári.
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Mikill hugur er í nýjum eigendum
trjáplöntustöðvarinnar Kvista í
Reykholti í Bláskógabyggð. Þeir
hafa pantað nýtt gróðurhús sem ger-
ir þeim kleift að rækta tvöfalt fleiri
trjáplöntur.
Ein af stærri trjáplöntustöðvum
landsins, Kvistar í Reykholti, var til
sölu í nokkurn tíma. Hólmfríður
Geirsdóttir og Steinar Ástráður Jen-
sen hafa verið að draga saman seglin
og vildu hætta í ræktun á trjáplöntun
sem þau hafa stundað í tuttugu ár.
Þau einbeita sér nú að ræktun jarð-
arberja í annarri stöð sem þau eiga.
„Við skógarbændur höfum verið
að líta í kringum okkur eftir mögu-
leikum til að koma á úrvinnslu á trjá-
viði. Það hefur ekki gengið eftir, enn
sem komið er. Við sjáum hins vegar
tækifæri til að hér megi koma upp
slíkri vinnslu, samhliða rekstri trjá-
plöntuframleiðslunnar,“ segir María
E. Ingvadóttir, fyrrverandi formað-
ur Félags skógareigenda á Suður-
landi, en hún er formaður stjórnar
Kvistabæjar sem er nýtt nafn stöðv-
arinnar.
Mátti ekki hætta
María segir að þetta sé mikil fjár-
festing og þótt skógarbændur kunni
að rækta skóg hafi þurft annað fólk
til að annast uppeldið. Þau hafi því
byrjað á því að ráða ræktunarstjóra,
Aldísi Björk Sigurðardóttur. Hún
komi úr fjölskyldu skógarbænda og
hafi þau komið með þeim í verkefnið.
Einnig er Hólmfríður Geirsdóttir
hluthafi í félaginu og leiðbeinir nýj-
um eigendum og starfsfólki. Eig-
endur eru átta einstaklingar sem all-
ir tengjast skógrækt með ein-
hverjum hætti. Þeir stofnuðu nýtt
félag um kaupin.
Áform eru um stóraukna skóg-
rækt í landinu á vegum ríkisins,
áhugafélaga og almennings. Ástæð-
an er ekki síst sú að skógrækt er góð
leið til að binda kolefni og með því er
hægt að taka þátt í að fullnægja
skuldbindingum Íslands í loftslags-
málum.
„Við treystum orðum ríkisstjórn-
arinnar og verðum einnig vör við
áhuga frá fyrirtækjum sem vilja kol-
efnisjafna starfsemi sína. Kvistabær
er önnur stærsta trjáplöntustöð
landsins og ef henni hefði verið lokað
eða tekin undir aðra starfsemi hefði
komið upp alvarleg staða. Við sáum
að það gekk ekki,“ segir María.
Nýja félagið er að taka fyrstu
skrefin. Farið er að sjást í pínulítil
tré í gróðurhúsunum og verið er að
þjálfa starfsfólk.
Framleiðslan tvöfaldast
Næsta skref er að stækka stöðina.
Pantað hefur verið nýtt 1.800 fer-
metra gróðurhús og við það tvöfald-
ast framleiðslugetan. Tvær upp-
skerur eru á ári og segir Hólmfríður
að hægt verði að framleiða 2,5 til 3
milljónir plantna á ári.
Kvistabær einbeitir sér að vinsæl-
ustu trjátegundunum sem eru birki,
sitkagreni, stafafura og alaskaösp.
Eigendur stöðvarinnar hafa áhuga á
að auka fjölbreytnina og bjóða upp á
fleiri tegundir sem reynst hafa vel á
Suðurlandi. Það verður vonandi
hægt með auknu plássi.
„Tré verður ekki til á einum mán-
uði, það er nýtt líf sem þroskast með
hverjum degi sem líður og er ekki
hægt setja upp í hillu til geymslu,“
segir Aldís og bendir á að það taki ár
að rækta skógarplöntu. Hún og
Hólmfríður mæla með að ræktendur
geri áætlanir nokkur ár fram í tím-
ann og semji um afhendingu ákveð-
ins magns á hverju ári. Annars geti
þeir ekki gengið að plöntunum vís-
um. Aldís tekur fram að ekki verði
smásala í Kvistabæ næstu misserin
heldur verði miðað við sölu sam-
kvæmt föstum samningum.
Tré verður ekki til á mánuði
- Áhugafólk um skógrækt kaupir stóra trjáplöntustöð í Reykholti í Bláskógabyggð og eflir starfið
- Framleiðslan verður tvöfölduð og fjölbreytni aukin - Liður í að mæta auknum áhuga á skógrækt
María E. Ingvadóttir er við-
skiptafræðingur og skógar-
bóndi á Akurbrekku, skógrækt-
arbýli á Rangárvöllum. Hún var
þekkt sem formaður Hvatar, fé-
lags sjálfstæðiskvenna í Reykja-
vík á sínum tíma og varaþing-
maður fyrir flokkinn, auk þess
sem hún gegndi ýmsum störf-
um í atvinnulífinu.
Áhuginn á skógrækt kviknaði
á miðjum aldri, eins og hjá
mörgum. Í hennar tilviki eftir
starf sem viðskiptafulltrúi í
sendiráði Íslands í Moskvu. Mik-
il mengun var í borginni og ekki
mikið hugsað þar um náttúru-
vernd. „Ég áttaði mig á hvað
skiptir mestu máli; að græða
landið og fegra með skógi.“
Úr félagsmál-
um í skógrækt
SKÓGARBÓNDI
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Kvistabær Stjórnendur í aspauppeldi, Aldís Björk Sigurðardóttir, Hólmfríður Geirsdóttir og María E. Ingvadóttir.