Morgunblaðið - 05.05.2021, Side 48
Svo finnst henni hún sjálf alveg langflottasta pían í bænum,
skortir ekkert á sjálfsöryggið og knúsar alla. Hún skammast sín
ekki fyrir nokkurn skapaðan hlut og er bara alveg yndisleg,“ seg-
ir Embla og bætir því við að Kolbrún hafi líka kennt henni, og
aukið með henni, eiginleika á borð við þolinmæði og samkennd
með öðru fólki. „Hún tekur samt á. Hún tekur á alla daga. Þegar
þú átt fatlað barn þá ferðu inn í annan heim þar sem meirihluti
fólks skilur þig ekki. Hverjar hindranirnar eru og hvað daglegt
líf og áhyggjur ganga út á,“ segir Embla og tekur dæmi um
kunningjakonu sína sem missti fjölfatlað barn. „Hún talaði um
hversu fáir virtust skilja hana þegar hún ákvað að halda upp á
andlát dóttur sinnar með eins fallegum hætti og henni var unnt
því á sama tíma og fráfall barnsins olli henni sorg, þá upplifði hún
einnig mikið frelsi og létti. Fólk skildi ekki af hverju hún var ekki
harmi slegin á leiðinni að stökkva út í sjó en það er ekki hægt að
smána fólk eða dæma það fyrir hluti sem maður hefur bara ekki
hundsvit á. Það gengur bara ekki upp. Eitt af því sem lífið hefur
kennt mér er að maður verður að taka öllum nákvæmlega eins og
þeir eru. Maður veit ekkert hvaðan fólk er að koma, hvert það er
að fara, hvað það hefur upplifað eða hvað það hefur gengið í
gegnum. Það eiga allir sína sögu og það er rangt að dæma.“
„Svo ég stóð bara þarna með þriggja ára fatlað barn, annað
sex ára og fimmtíu þúsund krónur í vasanum.“
Eftir að Kolbrún kom í heiminn árið 2007 sá Embla ekkert
annað í stöðunni en að vera heimavinnandi með börnin. „Þetta
stöðvaði mig í flestu sem ég var byrjuð á en ég náði samt að klára
bévítans stúdentinn og má alveg eiga það, en ég hefði samt aldrei
nokkurn tíma getað það án pabba. Hann var rosalega góður að
hjálpa mér með Kolbrúnu og námið og ég verð ævinlega þakklát
honum fyrir það. Hann var og er mín stoð og stytta.“
Embla hafði alltaf hugsað sér að halda áfram í námi að
stúdentsprófi loknu en þar sem Kolbrún þarf aðstoð við allt sem
tengist daglegu lífi varð lítið úr því.
„Það tóku við endalausar skoðanir, læknatímar, endurhæfing,
aðgerðir og fleira og fleira sem fylgir þessu. Þetta var bara mitt
starf. En svo heldur enginn venjulegri vinnu þegar aðstæður eru
svona. Það er enginn að fara að ráða manneskju í vinnu sem er
með fjölfatlað barn á heimilinu og annað þriggja ára. Ég reyndi
það ekki einu sinni. Ég bara ákvað að vera heima með börnin og
hugsaði að svona væri bara líf mitt. Þetta yrði mitt hlutskipti.“
Árið 2010 skilja Embla og barnsfaðir
hennar. Þá er eldra barnið sex ára og yngra
þriggja. „Allir í kringum okkur sáu að sam-
bandið okkar myndi aldrei lifa af að vera
með fatlað barn. Við áttum ekki séns en ég
vissi samt ekkert hvað ég átti að fara að
gera. Ég var jú búin að vera að sinna börn-
unum í þrjú ár og var komin út af kortinu
hvað varðar öll réttindi. Fékk ekki atvinnu-
leysisbætur eða annað slíkt og þar fyrir utan
þá misstum við húsnæðið okkar í hruninu.
Fengum sitt hvorn fimmtíuþúsundkallinn
og það er það sem ég labbaði út með. Svo ég
stóð bara þarna með þriggja ára fatlað barn,
aðra sex ára stelpu og fimmtíuþúsundkall í
vasanum. Ég vissi ekkert hvað í andskot-
anum ég átti að gera. Ég var jú með þessa stúdentshúfu en ég
kunni voða lítið. Kunni ekkert að búa ein og fannst framtíðin
mjög ógnvekjandi.“
Embla segir að þrátt fyrir að hafa staðið þarna frammi fyrir
tekjuleysi og mikilli óvissu hafi það aldrei komið til greina fyrir
hana að fara út á hefðbundinn vinnumarkað.
„Mögulega hefði ég getað það þar sem Kolbrún var komin á
leikskóla og svona en ég sá það bara ekki sem valkost í stöðunni.
Að fara bara að vinna einhverja tilfallandi vinnu hefði aldrei kom-
ið mér neitt. Það hefði aldrei orðið neitt úr mér. Ég varð að
mennta mig og gera eitthvað. Sálin í mér var eins og tóm blaðra
af því ég hugsaði ekkert um sjálfa mig enda hafði ég bara lifað
fyrir börnin. Ég vissi hvorki hver ég var né hvað ég vildi. Ég vissi
reyndar alveg hver ég var sem móðir, en annað vissi ég ekki um
sjálfa mig. Svo fór ég að leita mér að einhverju til að læra. Ég
leitaði og leitaði og ekkert kallaði á mig fyrr en haustið 2011. Þá
fann ég mótunarnám í keramík í Myndlistarskólanum í Reykja-
vík. Ég hafði verið þar sem krakki og fannst mjög næs að fara
eitthvað þar sem ég kannaðist við mig og leið vel. Þar fyrir utan
vissi ég einhvern veginn innra með mér að það að fara í listnám
og takast á við eitthvað verklegt og skapandi myndi koma mér á
betri stað andlega.“
Endurfæddist á Englandi og langaði ekkert heim
Embla var í tvö ár í myndlistarskólanum og hélt svo út í fram-
haldsnám til Englands árið 2013. Eldra barnið Þór, sem var mjög
hændur að mömmu sinni, krafðist þess að fá að fara með og
Embla tók risastórt námslán til að hlutirnir gengju upp.
„Ég réð meira að segja átján ára systurdóttur mína sem au-pair
en þremur mánuðum síðar var Þór kominn með ógeð á Englandi
og varð að komast heim. Þó var ekki þar með sagt að ég væri orðin
barnlaus því unglingurinn frænka mín var auðvitað búin að skrá
sig í nám,“ segir Embla og hlær. Hún segir að árið sem hún var í
náminu á Englandi hafi verið dýrmætasti tími sem hún hafi lifað.
„Þetta varð bara „omvent“. Ég kom ekki heim sama manneskjan.
Engan veginn. Það var óörugg og feimin móðir sem fór út og allt
önnur manneskja sem kom heim. Ég hafði rosalega gott af því að
losa aðeins þessi bönd við börnin mín og vera einhvers staðar þar
sem ég var ekki móðir í umönnunarhlutverki. Ég gat verið kæru-
laus og réð mér sjálfri í einu og öllu. Labbaði heim, fékk mér vín-
glas þar eða fór að hitta einhvern … svo neitaði ég bara að koma til
baka. Mig langaði ekkert heim. Ég var í algerri afneitun og keypti
ekki einu sinni flugmiða fyrr en daginn áður en við fórum til baka
til Íslands. Í huga mínum verður þetta alltaf alveg svakalega dýr-
mætur tími því þarna fæddist ég upp á nýtt.“
Eftir heimkomuna leigði Embla sér vinnuaðstöðu í Íshúsinu
í Hafnarfirði. Þar hefur hún unnið síðan og haldið margar sýn-
ingar. Hún fór markvisst í að byggja vörumerkið sitt upp og
skapaði sér sérstöðu með slíkum árangri að upp úr 2017 gat
hún séð fyrir sér og börnum sínum með listsköpun, og geri þá
aðrir betur eins og sagt er. Hún segir velgengni sína fyrst og
fremst hafa stafað af sérstöðunni sem vörurnar hennar hafa á
markaði og einnig vinnuseminni og öllum klukkutímunum sem
hún hefur helgað sinni sköpun. Hún segist enn eiga það til að
vinna allt, allt of mikið og ganga þannig fram af sjálfri sér en nú
snýst þetta allt um að finna jafnvægið milli einkalífs, vinnu og
hvíldar og það kannast auðvitað allflestir við.
Kom út úr skápnum en lokaði sig inni
Eins og áður hefur komið fram í viðtalinu eignaðist Embla fyrra
barn sitt, Þór, árið 2004 en hann er á sautjánda ári núna og stund-
ar nám í MH. Skömmu fyrir fermingu fór að bera talsvert á breyt-
ingum í hegðun hans og háttum.
„Til dæmis fór hann að skilja eftir miða og bréf hingað og þang-
að um húsið þar sem hann þóttist gleyma þeim en í raun voru
þetta skilaboð til mín um að hann væri í raun hinsegin eins og það
kallast. Svo tilkynnir hann mér þetta formlega. Ég hlustaði á hann
og reyndi að sýna skilning en svo fór ég niður í þvottahús, brotnaði
saman og fór að hágráta. Það gerðist bara.“
Þór vandi komur sínar í Samtökin 78, fékk þar mikinn stuðning
og fannst hann tilheyra. Hann blómstraði, var elskaður af öllum og
eignaðist ótal vini. Ekki leið svo á löngu þar til hann steig skrefið
stóra og kom út úr skápnum með stæl á sjálfu Gay Pride og
Embla birti flottan status á Facebook svo að það þyrfti ekki að til-
kynna þetta fyrir öllum frænkum og frændum fjölskyldunnar aft-
ur og aftur. Svo fóru þau mæðgin í ráðgjöf hjá samtökunum og þar
er Emblu tjáð að stuðningur foreldra skeri alltaf úr um hvort hin-
segin krakkarnir villist af leið eða hvort þeim vegni vel í lífinu. Yf-
irleitt væru líkurnar 50/50 á því hvort þau færu í dópið og flosnuðu
upp úr skóla eða eignuðust maka og fjölskyldu og fyndu hæfi-
leikum sínum farveg. Embla tók þá ákvörðun að styðja Þór í öllu
sem hann var að ganga í gegnum, en þar með
voru vandamálin ekki úr sögunni.
„Til að undirstrika þennan viðsnúning í líf-
inu lokaði hann vini og fleira sem tengdist
gamla lífinu og þegar hann byrjaði í níunda
bekk um haustið fór að halla verulega undan
fæti. Hann þróaði með sér mikinn kvíða og
depurð og byrjaði að stunda sjálfsskaðandi
hegðun, til dæmis með því að skera sig á
handleggjum og lærum. Lengi vel tókst hon-
um að fela hversu alvarlegt ástandið var en
svo ágerðist það mikið. Þór var byrjað að líða
svo illa að við héldum að hann gæti kannski
ekki komist til baka. Hann var byrjaður að
heyra einhverjar raddir og varð mjög væni-
sjúkur og viðkvæmur. Mér fannst ég svo van-
máttug því ég kunni engin ráð og vissi ekki hvernig ég átti að
bregðast við. Hann lokaði sig inni og vildi ekkert við okkur tala.
Seinna kom svo í ljós að ofheyrnirnar stöfuðu af svefnleysi því
barnið hafði varla sofið í marga mánuði. Svo frétti ég af námskeiði
á BUGL fyrir krakka sem stunda sjálfsskaða og við komumst inn
þegar það losnaði allt í einu pláss. Og þó ég hafi ekki verið vongóð
um árangur þá breytti þetta tólf vikna námskeið öllu, bæði fyrir
hann og okkur. Lífið snerist smátt og smátt til betri vegar og hann
varð mjög flottur um sumarið. Hættur öllum sjálfsskaða og tekinn
að blómstra.“
„Örin eru órjúfanlegur hluti af hans
sögu og því sem hann hefur mótast af“
Þór lokaði sig áfram inni í herberginu en nú var það ekki vegna
þess að hann væri að fela eitthvað heldur gaf hann sig algerlega að
listsköpuninni á vald. Hann málaði, skrifaði, teiknaði, söng og
samdi tónlist allan liðlangan daginn. Kom ekki fram nema rétt til
að borða og skreppa á klósett.
„Þetta var það eina sem hann gerði í heilt ár. Sköpunarkraftur
sprettur oft upp úr sársauka og Þór heilaði sig og vann úr hlut-
unum með því að skapa. Hann er með stór og áberandi ör á bæði
handleggjum og fótum og mun ávallt bera þau en ég hef alltaf lagt
áherslu á það við hann að fela þau ekki. Hann ber sín ör. Þau eru
einn hluti af því hver hann er sem manneskja og núna er hann orð-
inn snillingur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Örin eru
órjúfanlegur hluti af hans sögu og því sem hann hefur mótast af.
Hann á ekki að þurfa að fela þau því það má segja frá því hvað
gerðist og hvernig honum leið. Listin hans og allt sem hann hefur
skapað sprettur úr því og þessi sköpun er oft áleitin og ansi mögn-
uð. Það tekur bæði tíma, þjáningu og fórn að komast á betri stað.
Hann fann sína leið úr sársaukanum með því að skapa og það er
það sem máli skiptir. Myndirnar sem komu frá honum voru oft
mjög dimmar og ógnvekjandi. Hann átti erfitt með að tjá sig í orð-
um en hann kom tilfinningunum út og það er það sem máli skiptir,“
segir Embla með mikilli sannfæringu.
„Ætlar maður að láta áföllin buga sig eða ætlar maður að
reyna að standa í lappirnar og láta þau efla sig?“
„Það er alveg ótrúlegt hvað maður þekkir marga sem hafa
farið í gegnum rosaleg áföll og erfiðleika. Stundum er þetta
Embla ásamt
börnum sínum
tveimur.
„Þór var byrjað að
líða svo illa að við
héldum að hann
gæti kannski ekki
komist til baka.
Hann var byrjaður
að heyra einhverj-
ar raddir og varð
mjög vænisjúkur
og viðkvæmur.“
48 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. MAÍ 2021