Morgunblaðið - 11.06.2021, Qupperneq 28
28
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 11. JÚNÍ 2021
Gríman 2021
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Ég átti svo sannarlega ekki von á þessari við-
urkenningu, en mér þykir vænt um þetta. Mér
finnst það skemmtilegur siður að senda svona
þakklætisvott til þeirra sem staðið hafa vakt-
ina,“ segir Hallveig Thorlacius, heiðurs-
verðlaunahafi Sviðslistasambands Íslands.
Hallveig hefur um áratuga skeið starfað í þágu
íslenskrar barnamenningar og leikhúslífs.
„Hugsjón mín hefur ætíð verið að börnum sé
sinnt og þau fái það sem þau þurfa. Eitt af því
sem börn þurfa og þrá er að við fullorðna fólk-
ið sjáum þau og hlustum á þau. Börn eru svo
oft skilgreind sem hluti af hóp, hvort sem það
er bekkurinn þeirra eða íþróttaliðið, en þau
þurfa á því að halda að vera séð sem ein-
staklingar líka,“ segir Hallveig og leggur jafn-
framt áherslu á mikilvægi þess að aðstand-
endur barna hafi sem bestar aðstæður til að
sinna börnum sínum. „Öll viljum við auðvitað
börnum okkar það besta, en við höfum ekki öll
aðstæður, tíma og fjárhagslegt svigrúm til
þess.“
Ósýnilega brúðan víðförlust
Aðspurð segist Hallveig vel muna eftir
fyrstu sýningunni sem hún sá, þá átta ára
gömul. „Mín fyrsta upplifun af leikhúsi var
þegar ég sá Álfhól í Iðnó, sem var reyndar
ekki barnasýning, enda var fátt um slíkar sýn-
ingar á sínum tíma,“ segir Hallveig og rifjar
upp að það hafi í raun verið ákveðin tilviljun að
hún lagði síðan leiklistina fyrir sig sem ævi-
starf, en á löngum ferli hefur hún starfað sem
leikhússtjóri, handritshöfundur, brúðusmiður,
brúðustjórnandi, leikmyndahöfundur, leik-
kona og trúður.
„Sem unglingur fékk ég strax mikinn áhuga
á brúðuleikhúsi þrátt fyrir að hafa aldrei séð
brúðuleikhús,“ segir Hallveig og rifjar upp að
bókin Dukketeater! sem hjónin Jane og Agnar
Mykle skrifuðu og út kom 1954 hafi haft mikil
áhrif á sig. Hallveig nam við Háskólann í
Moskvu um þriggja ára skeið. „Meðan ég var í
Moskvu fylgdist ég vel með Obraztsov-
brúðuleikhúsinu,“ segir Hallveig sem síðar
nam dramatúrgíu fyrir brúðuleikhús í Tékk-
landi. „Þegar ég kom heim fór ég í Kennara-
háskólann og fór svo að kenna og notaði brúð-
ur í kennslunni,“ segir Hallveig og rifjar upp
að hún hafi meðal annars átt ósýnilega brúðu
sem bjó ofan í kennaraskúffunni. „Ég notaði
þessa ósýnilegu brúðu síðan í víðförlustu sýn-
ingu minni,“ segir Hallveig og vísar þar til
sýningarinnar Minnsta tröll í heimi sem hún
sýndi undir merkjum Sögusvuntunnar, m.a. á
Norðurlöndunum, í Rússlandi og Bretlandi.
„Sýningin var valin framlag Íslands í vestur-
heimi árið 2000 til að minnast þess að þúsund
ár voru liðin frá ferðum Leifs heppna,“ segir
Hallveig sem heimsótti ríflega hundrað skóla í
Kanada og Bandaríkjunum.
„Mín fyrstu skref í brúðuleikhúsi hér heima
voru með Leikbrúðulandi,“ segir Hallveig,
sem var ein fjögurra stofnenda þess. Leik-
brúðuland hélt uppi samfelldri starfsemi í
rúma tvo áratugi og setti upp um tuttugu sýn-
ingar sem sýndar voru vítt og breitt um landið
og víða um Evrópu. „Mig dreymdi hins vegar
alltaf um að gera hlutina á minn hátt eins og
ég hafði séð fyrir mér þegar ég las bók Mykle-
hjónanna. Svo meðfram starfi mínu hjá Leik-
brúðulandi stofnaði ég árið 1984 mitt eigið
ferðaleikhús,“ segir Hallveig og vísar þar til
Sögusvuntunnar sem sett hefur upp 14 sýn-
ingar. „Þar var ég yfirleitt alltaf ein að undan-
skildum þremur sýningum sem Helga Arn-
alds, dóttir mín, tók þátt í með mér. Ég var
mjög hikandi við að leggja einleiksformið fyrir
mig og frumsýndi til vonar og vara norður á
Bakkafirði. En það gekk svona líka ljómandi
vel og í framhaldinu sýndi ég um allt Ísland og
í hinum ýmsu löndum,“ segir Hallveig og rifjar
upp að fyrstu sýningar Sögusvuntunnar hafi
verið innblásnar af hryllingssögum og ævin-
týrum sem amma hennar sagði henni, en
seinna vann hún sýningar upp úr Íslendinga-
sögunum, þeirra á meðal Egils sögu Skalla-
grímssonar.
Fræðslusýning um ofbeldi
„Í sýningarferðum mínum erlendis kom sér
vel að ég kunni nokkuð mikið af tungumálum,
en ég leik aldrei í landi nema kunna tungu-
málið,“ segir Hallveig og rifjar upp að hún hafi
leikið á dönsku, sænsku, norsku, færeysku,
ensku, rússnesku og einu sinni á frönsku.
Þótt Hallveig sé hætt að búa til nýjar sýn-
ingar en hún enn starfandi, því hún er hluti af
sýningarteymi sem ferðast um landið á vegum
velferðarráðuneytisins og Barnaverndarstofu
með sýninguna Krakkarnir í hverfinu sem er
fræðslusýning um ofbeldi gegn börnum. „Ég
nýt þess að sýna meðan ég hef starfsþrek til,“
segir Hallveig sem á síðustu árum hefur sinnt
ritstörfum í ríkara mæli og meðal annars gefið
út þrjár unglingaskáldsögur. „Ég nýtti kófið
til að skrifa og er að ljúka við mína fyrstu
skáldsögu fyrir fullorðna, sem vonandi kemur
út á næsta ári,“ segir Hallveig að lokum.
„Mér þykir vænt um þetta“
- Hallveig Thorlacius heiðursverðlaunahafi Sviðslistasambands Íslands 2021 - „Mér finnst það
skemmtilegur siður að senda svona þakklætisvott til þeirra sem staðið hafa vaktina,“ segir Hallveig
Morgunblaðið/Eggert
Brúðuleikhús „Sem unglingur fékk ég strax mikinn áhuga á brúðuleikhúsi þrátt fyrir að hafa
aldrei séð brúðuleikhús,“ segir Hallveig Thorlacius sem ferðast enn um landið með sýningu.
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Markmið mitt hefur alltaf verið að
sinna vinnunni minni vel óháð hvers
kyns viðurkenningum,“ segir Þór-
hallur Sigurðsson, heiðurs-
verðlaunahafi Sviðslistasambands
Íslands, sem nýverið fagnaði 75 ára
afmæli sínu og er þar með orðinn
jafngamall Tóbíasi í turninum sem
hann túlkar í Kardemommubænum
á Stóra sviði Þjóðleikhússins.
„Mikilvægustu viðurkenninguna fær
maður auðvitað frá áhorfendum, því
það leynir sér aldrei hvort sýning
hittir í mark. En auðvitað kitlar það
alltaf ef vel gengur,“ segir Þórhallur
og tekur fram að hann fari þó bráð-
um að draga sig í hlé eftir yfir fimm-
tíu ára starf hjá Þjóðleikhússinu þar
sem hann hefur lengstan starfsaldur
allra. „Ég mun halda áfram að
fylgjast með og sjá sem flestar
sýningar.“
37 ný íslensk verk
Aðspurður segist Þórhallur
snemma hafa smitast af leikhús-
bakteríunni, en hann var ekki nema
fjögurra ára þegar hann sá fyrstu
barnasýningu Þjóðleikhússins, Snæ-
drottninguna, sem sett var upp 1950.
„Í framhaldinu fylgdu svo Stóri
Kláus og Litli Kláus og Skugga-
Sveinn,“ segir Þórhallur en fyrsta
hlutverkið sem hann lék sjálfur var
Hjálmar tuddi í Maður og kona sem
Klemenz Jónsson leikstýrði og sett
var upp í samkomusalnum í Haga-
skóla. „Ég var mjög lítill og grann-
ur, en Hjálmar hafði fram að því
ávallt verið leikinn af feitum körlum,
þannig að þarna var brotið ákveðið
blað í leiklistarsögunni,“ segir Þór-
hallur kíminn. Hann starfaði með
Herranótt 1965-66 og var formaður
seinna árið. „Fyrra árið sýndum við í
Iðnó og seinna árið í Þjóðleikhús-
inu,“ segir Þórhallur sem braut-
skráðist úr Leiklistarskóla Þjóðleik-
hússins 1970. „Þá hafði ég þegar
leikið í fimm sýningum leikhússins,
m.a. stórt hlutverk í Fiðlaranum á
þakinu og titilhlutverkið í Malcolm
litla,“ segir Þórhallur sem starfað
hefur hjá Þjóðleikhúsinu síðan en
fengið leyfi til að sinna öðrum verk-
efnum meðfram. „Ég hef leikstýrt
bæði í Iðnó og Borgarleikhúsinu, hjá
Alþýðuleikhúsinu, Nemendaleikhús-
inu og Herranótt og mikið í bæði
útvarpi og sjónvarpi ásamt því að
leikstýra talsetningum um 20 kvik-
mynda ásamt því sjálfur að leika í
talsetningum,“ segir Þórhallur sem
hjá Þjóðleikhúsinu hefur leikstýrt
hátt í 50 sýningum. „Megnið af þess-
um verkum, eða 37 talsins, voru ný
íslensk verk sem er alltaf mikil og
skemmtileg áskorun,“ segir Þórhall-
ur, sem á ferlinum leikstýrði níu
frumuppfærslum á leikritum eftir
Ólaf Hauk Símonarson. „Þeirra á
meðal voru vinsælar sýningar eins
og Hafið, Bílaverkstæði Badda,
Græna landið og Gauragangur,“
segir Þórhallur en af erlendum verk-
um sem hann leikstýrði má nefna
Kæru Jelenu.
„Auðvitað var mismikill áhugi
leikhúsgesta á þeim sýningum sem
ég leikstýrði eins og gengur og ger-
ist, en sjálfu var ég alltaf sáttur við
útkomuna,“ segir Þórhallur og tekur
fram að hann sé afar þakklátur fyrir
hversu farsæll starfsferillinn hafi
verið og hann átt gott samstarf við
fjölda fólks. Tekur hann fram að sér
þyki líka vænt um þann tíma sem
hann hafi sinnt félagsmálum sam-
hliða skapandi störfum sínum, en
Þórhallur var um tíma formaður
Þjóðleikhúsráðs, kom að stofnun
Starfsmannafélags Þjóðleikhússins
og sat í stjórn Leikarafélags Þjóð-
leikhússins.
Góð samvinna lykilatriði
Í ljósi þess hversu mörgum far-
sælum sýningum Þórhallur hefur
leikstýrt liggur beint við að spyrja
hvað góður leikstjóri þurfi að hafa til
brunns að bera. „Góð samvinna er
lykilatriði, enda býr enginn einn
leikstjóri til sýningu. Kúnst leik-
stjórans er að ná því besta út úr öllu
samstarfsfólki sínu, hvort heldur
það eru leikarar eða útlitshönnuðir,“
segir Þórhallur. Ekki er hægt að
sleppa Þórhalli án þess að forvitnast
um sýn hans á barnasýningar, en
hann hefur á löngum ferli leikstýrt
ófáum barnasýningum, þeirra á
meðal eru Leitin að jólunum og Gott
kvöld sem báðar hlutu Grímuna sem
Barnasýning ársins. Frá árinu 2006
hefur Þórhallur haft umsjón með
barnasýningum Þjóðleikhússins auk
þess að taka á móti hópum barna
sem koma til að kynna sér undur og
ævintýri leikhússins. „Á síðustu 12
árum höfum við boðið öllum fimm
ára börnum á höfuðborgarsvæðinu í
leikhús og síðustu misserin höfum
við útfært sýningarnar þannig að við
getum farið í leikferðir um allt land-
ið og boðið öllum fimm ára börnum á
landinu í leikhús,“ segir Þórhallur
og bendir á að lengi búi að fyrstu
gerð.
„Kitlar alltaf ef vel gengur“
- Þórhallur Sigurðsson heiðursverðlaunahafi Sviðslistasambands Íslands 2021 - „Markmið mitt
hefur alltaf verið að sinna vinnunni minni vel óháð hvers kyns viðurkenningum,“ segir Þórhallur
Morgunblaðið/Eggert
Kúnstin „Kúnst leikstjórans er að ná því besta út úr öllu samstarfsfólki sínu, hvort heldur það eru leikarar eða
útlitshönnuðir,“ segir Þórhallur Sigurðsson sem leikstýrt hefur hátt í fimmtíu sýningum í Þjóðleikhúsinu.