Morgunblaðið - 12.06.2021, Qupperneq 34
34 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 12. JÚNÍ 2021
Allur arður af þjónustunni rennur til reksturs kirkjugarðanna
Tökum á móti ástvinum í hlýlegu
og fallegu umhverfi
Vesturhlíð 2 | Fossvogi | s. 551 1266 | utfor@utfor.is | utfor.is
Öll aðstaða í samræmi við tilefnið. Hlýlegt og fallegt
húsnæði og nýir glæsilegir bílar.
Sjá nánari upplýsingar á utfor.is
Útfararþjónusta
Við veitum alla þjónustu tengda andláti ástvina
– Þjónusta um allt land og erlendis
– Þjónusta í heimahúsi og á stofnunum
í yfir 70 ár
Guðný Hildur
Kristinsdóttir
Framkvæmdastjóri
Ellert Ingason
Sálmaskrár,
útfararþjónusta
Emilía Jónsdóttir
Félagsráðgjöf,
útfararþjónusta
Guðmundur
Baldvinsson
Útfararþjónusta
Lára Árnadóttir
Útfararþjónusta
Sigurður Bjarni
Jónsson
Útfararþjónusta
Magnús Sævar
Magnússon
Útfararþjónusta
Jón G. Bjarnason
Útfararþjónusta
Helga
Guðmundsdóttir
Útfararþjónusta
Lækkar lífdaga sól.
Löng er orðin mín ferð.
Fauk í faranda skjól,
fegin hvíldinni verð.
(Herdís Andrésdóttir)
Agga, Ragnheiður Jónsdóttir
frá Deildartungu, var ugglaust
hvíldinni fegin, komin á tíræðisald-
ur og tekin að tapa fyrri styrk og
þreki. Hún hafði lifað tímana
tvenna og séð miklar þjóðfélags-
breytingar eiga sér stað á langri
ævi. Hún var glæsileg kona hún
Agga með tígulegt yfirbragð og
það gustaði af henni hvar sem hún
fór. Skoðanir hafði hún á mönnum
og málefnum og var ekkert að fara
í launkofa með þær, en kunni líka
þá list að setja sjónarmið sín fram á
virðulegan og nærgætinn hátt.
Menntun hennar og reynsla sem
fóstra kom þá jafnan í góðar þarfir.
Líka þegar hún tók að sér að gæta
barnanna í fjölskyldunni þegar á
þurfti að halda, hvort sem var
vegna þess að foreldrarnir lögðust í
ferðalög, starfsdagur var í skólum
eða bara hvað sem var. Hún var
ævinlega boðin og búin að rétta
hjálparhönd, var sífellt að, í eldhús-
inu að baka, í garðinum að rækta
blóm, segja öðrum í fjölskyldunni
til, bæði börnum og fullorðnum.
Ragnheiður
Jónsdóttir
✝
Ragnheiður
Jónsdóttir
fæddist 21. desem-
ber 1928. Hún lést
11. desember 2020.
Minningarathöfn
um Ragnheiði fór
fram 10. júní 2021.
Hún þreyttist aldrei
á að ala upp, hún var
að því alveg fram í
andlátið.
Það var alltaf af-
slappandi að koma í
heimsókn til þeirra
Björns á Hávallagöt-
una, eða síðar til
þeirra Guðrúnar
systur hennar í
Birkigrundina eftir
að þær voru báðar
orðnar ekkjur. Öll þreyta leið úr
manni um leið og maður settist í
góðan hægindastól í stofunni og
það var stjanað við mann og hvers
kyns kræsingum í mat og drykk
haldið að manni. Hún var einstak-
lega natin og gætti þess að hafa allt
svo smekklegt í kringum sig. Og
sjálf var hún ávallt elegant. Agga
var víðlesin og kunni frá mörgu að
segja og hafði einstaklega
skemmtilegan húmor og smitandi
hlátur. Nú verða þær ekki fleiri
ferðirnar heim til Öggu en minn-
ingarnar eru margar og góðar sem
ylja.
Ég stend í mikilli þakkarskuld
við Öggu fyrir allt sem hún gerði
fyrir mig og mitt fólk og væntum-
þykjuna í okkar garð. Nú er hún
haldin í langferðina miklu, yfir
lönd, yfir höf og er áreiðanlega far-
in að taka til hendinni í nýjum
heimkynnum. Um leið og ég þakka
Öggu fyrir samfylgdina og hve vel
hún tók á móti mér í fjölskylduna
fyrir margt löngu sendi ég einka-
syni hennar, Birni Friðgeiri, og
öðrum ástvinum innilegar samúð-
arkveðjur. Því miður á ég þess ekki
kost að fylgja henni síðasta spölinn
en í virðingu og þökk er hún kært
kvödd.
Árni Þór Sigurðsson.
Ég átti í raun tvær tengdamæð-
ur. Ragnheiði fékk ég í kaupbæti
þegar Guðrún, systir hennar, varð
tengdamóðir mín. Þær systur
héldu saman heimili stóran hluta
ævi sinnar og samband þeirra var
náið. Agga gætti Nonna, systur-
sonar síns, ekki einungis á Lauf-
ásborg þegar hún starfaði þar, hún
vakti yfir honum og fjölskyldu okk-
ar alla tíð.
Þegar Nonni fór fyrst með mig á
Hávallagötu til að kynna mig fyrir
Ragnheiði og Birni Fr. og ég sökk
ofan í mjúka bláa sófasettið í stof-
unni fann ég strax að á þessu heim-
ili ríkti myndugleiki og hlýja.
Agga var næstyngst systkin-
anna frá Deildartungu. Ung starf-
aði hún á Reykjalundi og síðan á
heimili íslensku sendiherra-
hjónanna í Ósló. Hún lauk námi
sem fóstra og starfaði við það í all-
mörg ár. Dætur okkar Nonna nutu
þess að Agga hafði ákaflega gaman
af börnum. Þær voru alltaf vel-
komnar á Hávallagötuna til lengri
eða skemmri dvalar.
Stórveislur hristi Agga fram úr
erminni og naut þess að bjóða
heim, auk eigin fjölskyldu, afkom-
endum Björns Fr. og þeirra fjöl-
skyldum. Oft var lundi á borðum
sem Agga matreiddi af mikilli
snilld. Ótrúlegt var hversu margir
rúmuðust í litlu stofunni á Hávalla-
götunni. Þegar þær systur, Agga
og Gunna, höfðu flutt í Birkigrund
tóku þær enn á móti gestum af
miklum myndarbrag, þar voru
haldnar rjúpuveislur, kaffiveislur
og yfirleitt veislur við ýmis tilefni.
Agga bar ekki aðeins fram
veisluföng heima hjá sér, hún var
alltaf boðin og búin að leggja til
veitingar annars staðar. Það gátu
verið veislur heima hjá nánustu
ættingjum, heimsóknir til aldraðra
ættingja, svo ekki sé minnst á
kleinurnar, pönnukökurnar og
tröllatertuna sem hún kom með
þegar kartöflur voru teknar upp í
Borgarfirði. Eftir að hún hætti að
taka sjálf þátt í störfunum þar sótt-
um við bakkelsið til hennar, það
mátti ekki vanta í ferðina.
Þannig var Agga, hún passaði að
hennar fólk skorti ekki neitt. Hún
var leiðbeinandi af guðs náð, alltaf
tilbúin að gefa góð ráð, hvort held-
ur var við klæðaburð, heimilishald
eða annað. Þegar hún kom í mat
fyrstu búskaparár okkar Nonna
kom hún í eldhúsið, leiðbeindi um
sósugerð og hvernig ætti að fá
puruna á svínasteikinni til að vera
„sprö“. Hún miðlaði óteljandi hús-
ráðum, þeyta skyldi fituna innan úr
rjómafernunni með rjómanum,
loka sultukrukkunum ekki fyrr en
innihaldið hafði kólnað, setja rósir í
þéttheitt vatn, allt þetta og margt
fleira kenndi hún mér.
Agga var sístarfandi. Hún las
mikið, hafði yndi af garðyrkju,
ræktaði garð á Hvolsvelli og Há-
vallagötunni, síðar í Tunguhlíð og
Birkigrund þar sem þær systur
bættu við fleiri blómabeðum til að
hafa sem litskrúðugast í kringum
sig. Hún stjórnaði laufabrauðsgerð
fjölskyldunnar ásamt systrum sín-
um, tíndi bláber hvenær sem færi
gafst, sultaði og prjónaði á börn
systra sinna. Að ekki sé minnst á
alla vinnuna sem hún og systur
hennar lögðu í rýjamotturnar stóru
á sínum yngri árum.
Agga mat ekki fólk eftir stétt
eða stöðu heldur eftir mannkost-
um. Og hún var fróðleiksfús um
menn og málefni. Í berjaferð vest-
ur á firði með okkur Nonna og
Gunnu hvarf hún sjónum okkar í
berjabrekku drykklanga stund,
hafði þá lent á spjalli við heima-
mann og fræddist af honum um
fiskvinnslu fyrr á tímum þar um
slóðir.
Nú verða berjaferðir Öggu ekki
fleiri að sinni. Hún kvaddi á að-
ventu jóla á síðasta ári. Minning
hennar, reisn og hlýja mun lifa með
fjölskyldunni.
Erla S. Árnadóttir.
Okkur er ljúft að minnast Ragn-
heiðar Jónsdóttur, góðs nágranna
og vinkonu. Fyrir um 20 árum
fluttist hún ásamt yngri systur
sinni, Guðrúnu, í hús skáhallt á
móti okkar á Birkigrundinni. Þær
ákváðu að halda heimili saman þeg-
ar báðar voru orðnar ekkjur sem
var gott dæmi um samheldni
þeirra og skynsemi. Síðar komst ég
að þeirri skemmtilegu tilviljun að
þær höfðu áður átt heimili á Rán-
argötu 6a, skáhallt á móti móður-
ömmu minni sem bjó í húsinu nr. 5
og ég var heimagangur hjá. Mikið
var fjölskyldan heppin að fá þær
systur sem nágranna því betri ger-
ast þeir ekki. Kunningsskapur varð
að vináttu sem við mátum mikils og
erum þakklát fyrir.
Systurnar tilheyrðu átta manna
systkinahópi frá Deildartungu í
Reykholtsdal í Borgarfirði sem nú
hafa öll kvatt, Guðrún lést í apríl í
fyrra. Það varð því ekki langt á
milli dánardægurs þessara sam-
rýndu systra. Æskustöðvarnar
voru báðum hugleiknar og yndi að
hlusta á þær segja frá gamla tím-
anum á mannmörgu heimilinu þar
sem allir þurftu að leggja hönd á
plóg frá unga aldri. Þar lærðu þær
vel til verka sem lagði m.a. grunn
að þekkingu þeirra á grænmetis-
og garðrækt. Garðurinn var sam-
eiginlegt áhugamál þeirra og bar
smekkvísi þeirra gott vitni. Þær
voru natnar og vinnusamar við þá
iðju en nutu sólarinnar þegar færi
gafst. Leiðsögn um garðinn var
skemmtun ein. Marglitaðir krókus-
ar brutust í gegnum snjólagið og
voru fyrstu vorboðar götunnar, síð-
an tók við blómgun páskalilja, túl-
ípana og annarra fjölærra jurta,
rósa og trjáa sem skóp litadýrð allt
sumarið. Liljur vallarins voru í sér-
stöku uppáhaldi mínu og mætti vel
heimfæra nafnið á þær systur.
Ragnheiður hélt einnig lífi í sum-
arblómunum í okkar garði á meðan
fjölskyldan fór í frí.
Ragnheiður var fínleg kona og
nett en sterkur persónuleiki. Létt á
fæti sem kom til dyranna eins og
hún var klædd, ákveðin og hrein-
skiptin. Vel gefin og víðlesin.
Hnyttin í svörum og skemmtileg.
Félagslynd og þótti gaman að hitta
fólk. Sagðist alltaf eiga heitt kaffi á
könnunni og með því. Umhyggju-
söm í okkar garð. Hún var mennt-
uð fóstra og þótti vænt um starfs-
heitið sitt. Hún átti auðvelt með að
sýna ungviðinu á móti sannan
áhuga og náði auðveldlega til
þeirra. Hún fylgdist með námi
þeirra og líðan. Fyrir jólin og á
merkum tímabótum þeirra kom
hún færandi hendi með gjafir frá
þeim systrum. Einnig fengum við
að njóta með þeim brakandi ferskr-
ar uppskeru grænmetis sem þær
höfðu fengið hjá bróðursyni sínum,
Degi á Kleppjárnsreykjum. Þær
héldu góðum tengslum við marga
afkomendur systkina sinna og áttu
athvarf í sumarhúsi í sveitinni
fögru. Þær voru ánægðar að vita að
okkar sælureitur á Mýrunum var
ekki ýkja langt í burtu frá æsku-
slóðum þeirra og lögðu blessun
sína yfir okkar áform eftir heim-
sókn þangað. Við mátum þeirra álit
mikils.
Við kveðjum Ragnheiði með
söknuði og þökkum góða vináttu og
hlýhug þeirra systra í garð allrar
fjölskyldunnar. Ástvinum öllum
sendum við innilegar samúðar-
kveðjur.
Ólöf og Stefán.