Morgunblaðið - 13.08.2021, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 13.08.2021, Blaðsíða 17
ekki en býst við að sá hafi verið góður. Ég veit að eftir útskrift ferðaðist hún víða um Bandarík- in, einkum vestanverð, enda alla tíð forvitin um hagi og háttu fólks. Síðla árs 1952 kom Ingi- björg heim og starfaði hjá rík- isféhirði næstu árin. Á þeim tíma rugluðu þau Indriði Gíslason, íslenskufræð- ingur, frá Skógargerði á Héraði, saman reytum og eignuðust á árunum 1956 til 1967 sjö börn, tvær dætur og fimm syni, sem lifa foreldra sína. Það lætur að líkum að oft var róstu- og há- vaðasamt á heimili þeirra, enda systkinin vinmörg og vinirnir ætíð velkomnir. Lífið var Ingi- björgu um margt erfitt á þess- um árum en hún fann styrk í trú og óseðjandi fróðleiksþrá. Á barneignaárunum lauk Ingibjörg kennaraprófi og hóf kennslu við Ísaksskóla sem hún sinnti af alúð til starfsloka. Henni þótti vænt um nemendur sína, kynnti sér ættir þeirra og aðstæður og bar hag þeirra mjög fyrir brjósti, enda vel met- in og dáður kennari sem margir nemenda hennar muna og minn- ast að góðu einu. Ég ætla mér ekki þá dul að gera lífi og starfi systur minnar tæmandi skil, enda öðrum hæg- ara, en vona að þessi fáu orð nái að lýsa hug mínum til hennar alla tíð. Farðu vel á vegum al- mættisins, systir kær. Pálmi Ragnar. Með þakklæti og virðingu kveð ég föðursystur mína Ingi- björgu Ýri. Ég er alnafna henn- ar og hún minnti mig á það þeg- ar við hittumst: „Sæl nafna mín,“ sagði hún með hlýju faðm- lagi og viðmóti. Margt áttum við sameiginlegt og minningabrot raðast fallega upp. Helst er að minnast áhuga beggja á að styðja ung börn í fyrstu skrefum lestrarnáms. Samtöl okkar um leiðir og út- færslu í kennslu urðu fleiri en tölu verður á komið. Við frænkur unnum saman að menntun ungra barna í Ísaks- skóla þar sem hún starfaði í þrjá áratugi. Hún nálgaðist starf sitt af yfirvegun, horfði til fræðanna og vissi að hún hafði áhrif á um- hverfið og þá einstaklinga sem hún starfaði með. Hún skildi vel að hún mótaðist af fólkinu í kringum sig. Ingibjörg var sjálfstæð í hugsun og hóf störf sín frá grunni ár hvert. Hún vildi byrja fersk, taldi að nemendur hennar ættu skilið að kennari þeirra starfaði í samræmi við tíðarand- ann. Hún kunni þá list að vera í samtímanum, í núinu, og mæta starfi sínu af alúð og auðmýkt og efla þannig með börnum sjálfstæði, seiglu og þor. Ingibjörg var sífellt að dytta að og vorhreingerningar voru fastur punktur. Hún byrjaði á skápum og því sem enginn sá. Hún var myndarleg til verka, hafði gaman af fallegu hand- verki og naut þess að prjóna og sauma. Frænka mín bakaði kök- ur ólíkar öðrum og þar er hnetukjarninn öðrum fremri. Hún hafði gaman af því að klæða sig fallega og naut þess að ganga í flíkum úr náttúru- legum efnum þar sem ull, bóm- ull, hör og silki voru hennar lúx- us. Ingibjörg unni náttúrunni og var hafsjór af þjóðlegum fróð- leik. Þess naut ég í ferðum okk- ar upp á Skaga þar sem Rann- veig systir hennar bjó. Þær voru samfeðra, kynntust seint á ung- lingsárum en vissu ungar hvor af annarri og sendu hinni bros þegar þær mættust á götu eða í búð. Samband systranna ein- kenndist af djúpri væntum- þykju. Við nöfnur hittum Rann- veigu síðast í júní 2005. Hún dó þá um haustið á meðan Ingi- björg dvaldi í Malaví. Þegar hún kom heim fórum við upp á Skaga þar sem fjölskylda Rann- veigar tók á móti okkur af ein- stakri gestrisni. Húmor var leiðarhnoð frænku minnar í gegnum lífið og hefur efalaust létt henni leiðina með sjö vinmörg börn í heimili. Spurð hvernig hún hefði komist í gegnum þann tíma svaraði hún að þegar atið á heimilinu keyrði úr hófi hafi hún farið inn á bað- herbergi og læst hurðinni, mál- að sig og sett á sig rauðan vara- lit. Opnað svo dyrnar þegar hún var tilbúin og tekið fagnandi því sem beið hennar. Þetta var hennar leið; síst gerði hún kröf- ur til umhverfisins enda vissi hún að það mótaðist af hógværð, umburðarlyndi og góðmennsku hennar. Sama manngæskan einkenndi umönnun barna hennar á móður sinni síðustu árin sem hún lifði. Í þeirra faðmi var henni létt lund og stundir styttar af virð- ingu, hlýrri umhyggju og góðum skilningi á ævikvöldinu. Ég er frænku minni ævinlega þakklát fyrir stundirnar sem við áttum saman. Þær voru inni- haldsríkar og gefandi og ætíð þannig að ég fór betri frá henni. Megi góðar vættir vaka yfir alnöfnu minni og hún hvíla í friði. Ingibjörg Ýr Pálmadóttir. Elskuleg frænka og vinkona, Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, er nú gengin á vit feðra sinna. Síðastliðin sex ár glímdi hún við afleiðingar heilablóðfalls, – var bundin við hjólastól. Það var mikið áfall náttúru- barni eins og Ingibjörgu Ýri sem naut útivistar út í æsar og hafði lagt land undir fót, í orðs- ins fyllstu merkingu, um flestar sveitir landsins. En hún tók veikindum sínum af stakri hug- arró og stillingu enda miklum mannkostum búin. Við fráfall frænku minnar reikar hugurinn langt aftur í bernsku okkar. Ragnhildur móðir hennar og Unnur amma voru systur og nánar vinkonur og eins var afar kært með mömmu, Önnu Margréti (Dössu), og Ragnhildi. Mikill samgangur var á milli heimila þeirra, næstum daglega „kíkt inn“ svona til að grennslast um líðan, ræða um menn og málefni og landsins gagn og nauðsynjar eins og títt var á árum áður. Sumarið 1951 dvöldum við Halldór Skúli, þriggja ára bróð- ir minn, hjá Ragnhildi og Pálma ásamt börnum þeirra í Reykja- koti, sumarbústað rektors- hjónanna við menntaskólaselið, og áratug síðar þegar við Ingi- björg Ýr vorum orðnar „ráðsett- ar“ með börn og buru nutum við samvista sumarlangt með Ragn- hildi og barnahópinn okkar. Hún átti þá sín fjögur fyrstu og ég mín tvö fyrstu. Að vonum var líf í tuskunum, mikill bleyju- þvottur og eitthvert púl en fyrst og fremst glatt á hjalla með hláturmildi og húmor mæðgn- anna Ingibjargar og Ragnhildar í fyrirrúmi. Ég minnist líka margra ánægjulegra funda okkar og ferðalaga fyrr og síðar, bæði heima og heiman. Ingibjörg Ýr hin skarpskyggna, ráðagóða, fjölfróða og skemmtilega. Ingibjörg Ýr var kennari af lífi og sál. Auk kennslustarfa skrifaði hún talsvert um starfs- vettvang sinn; uppeldi, skóla- starf og menntun og þá oft með eiginmanni sínum Indriða Gísla- syni. Fór þar saman fádæma reynsla og fræðimennska tveggja kennara á ólíkum skóla- stigum – barnaskóla og háskóla – foreldra samtals átta barna. Síðastliðið ár naut Ingibjörg Ýr umhyggju og hlýju barna sinna á heimili sínu í Hvassaleiti 58. Fyrir það var hún þakklát og sæl. Hún var stálminnug og klár í kollinum til hinstu stundar. Að kvöldi 23. júlí fékk hún hægt og fallegt andlát. Ég votta börnum Ingibjargar Ýrar, bræðrum og öllum ætt- boganum einlæga samúð mína. Blessuð sé minning yndis- legrar frænku og vinkonu minn- ar, Ingibjargar Ýrar Pálmadótt- ur. Unnur María. Þá er hún farin, blessunin, elsku frænka og ættmóðir okkar systkinanna. Þessi mikla fyrir- mynd er horfin yfir móðuna miklu. Ingibjörg Ýr var kona sem auðvelt var að líta upp til, víð- lesin, djúpvitur um nærum- hverfið, ættir og fólk, náttúruna og heiminn, enda ferðaðist hún víða. Ingibjörg bjó lengi í Barmahlíð 32 ásamt Indriða og börnunum sjö. Við innganginn þar, voru skór fleiri en gengur og gerist enda heimilisfólk margt og gestkvæmt vel. Þar var alltaf opið og manni tekið fagnandi, drifinn í leiki út á Klambró með krökkunum eða leiddur til stofu og settur í sófa við bækur og myndir þar sem Indriði sýslaði í sínu sæti. Frænka færði gestum viður- gjörning og spurði fregna, Indr- iði reykti pípu og lagði til mál- anna. Fyrir utan beið Skódi flotti sem spýtti gotti. Barmhlíð- ingar kunnu að koma fyrir sig orði. Ingibjörg Ýr í fyrsta gír, átti nokkrar nöfnur en hún var þeirra elst og kallaði sig svo í gamni, hvort sem bræður henn- ar komu þar við sögu eður ei. Ingibjörg var baráttukona sem fór í kröfugöngur og hafði sterk- ar skoðanir sem féllu vel vinstra megin línu, þar sem jafnrétti og mannúð eru í fyrsta sæti og náttúran nýtur vafans fram yfir vafstur mannsins. Það var þó stutt í húmorinn og glensið, hláturinn einlægur og innilegur – sögurnar af foreldrunum, pabba og bræðrunum og Thor- oddsenunum eftirminnilegar og afar dýrmætar. Við fráfall föður okkar, kom Ingibjörg norður til Akureyrar og var hjá okkur í nokkrar vikur. Það var mömmu ómetanlegt en þær mágkonur voru nánar og fóru saman í ferðalög til útlanda, sáu m.a. al- myrkva á sólu 1999, alsælar. Ár- ið 2015 lenti Ingibjörg í áfalli og var bundin við hjólastól upp frá því. En þrátt fyrir skert lífsgæði var lífsviljinn mikill og börn Ingibjargar fóru með hana í leikhús, veislur og á listviðburði. Hugurinn var samur lengi vel, sá er okkur fannst allt kunna og allt hafa á hraðbergi, alveg sama hvar borið var niður. Síðustu árin dvaldi frænka í Sóltúni en fór heim í Hvassaleiti um helgar, þar sem börnin hennar með Dagnýju fremsta önnuðust hana. Þangað var ljúft að koma. Í veirufárinu vildu systkinin ekki að móðir þeirra einangraðist og tóku hana alfar- ið heim. Ingibjörg var þeim þakklát, sagðist hafa kynnst börnum sínum upp á nýtt í veik- indunum og það hafi verið góð kynni og hún var forsjóninni þakklát fyrir fólkið sitt. Ingi- björg var rík kona og lifði að verða níræð langamma, virt, dáð og elskuð. Stundum þegar ekið er um Lönguhlíð vakna liðnir tímir og taka völdin svo mann langar mest að beygja inn í Hlíðina fríðu og heilsa upp á frænku. Það bíður betri tíma. Við minnumst Ingibjargar föðursystur með söknuði, gleði og hlýju. Megi hún hvíla í náð og friði. Elsku frændsystkini og fjöl- skyldur, hugur okkar er með ykkur. Jón Rafn, Pálmi Ragnar, Katrín Ólína, Ragnhildur Ólafía og Dagbjört Helga Pétursbörn. Það var reiðarslag þegar Ingibjörg Ýr fékk heilablóðfall fyrir sex árum, þessi glæsilega, kraftmikla og sjálfstæða kona. Hún var eftir það bundin við hjólastól og þurfti aðstoð við allar þarfir daglegs lífs, var um tíma á hjúkrunarheimili en síð- asta árið bjó hún heima með að- stoð barnanna sinna, einkum Dagnýjar Bergþóru sem bjó hjá henni. Hún óskaði þess und- ir það síðasta að fá að kveðja og nú hefur henni orðið að ósk sinni. Hún er komin til sum- arlandsins og gengur þar um með Indriða, glæsilega mann- inum sem hún féll fyrir ung kona. Hún vakti óneitanlega at- hygli þar sem hún hjólaði um Hlíðarnar á áttunda áratugnum með langa fléttu og alpahúfu, en á þeim tíma var ekki algengt að fullorðið fólk færi ferða sinna á hjóli, hvað þá konur sem voru margra barna mæður. Mörgum þótti það skrítið, en Ingibjörg Ýr lét sér það í léttu rúmi liggja. Hún var vön að fara sínar eigin leiðir og var til dæmis fyrsta konan sem var kjörin forseti Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949. Hún var svo langt á undan sinni samtíð að næsta kona varð ekki forseti félagsins fyrr en árið 1982. Ingibjörg Ýr var ekki mjög hávaxin, en þétt á velli, með mikið og fallegt hár. Hún var lit- rík kona bæði í óeiginlegri merkingu þess orðs og bókstaf- legri og klæddist gjarnan skær- um litum. Ég minnist þess varla að hafa séð hana í svartri flík. Hún var létt í skapi, sérstaklega vel gefin og það var gaman að ræða við hana um hvaðeina, hvort sem var um lífið og til- veruna, bækur, barnauppeldi eða pólitík. Hún var alls staðar heima. Þegar börnin voru orðin sjö fór hún í Kennaraskólann og tók þar kennsluréttindi. Ég man hvað ég dáðist að henni fyrir það. Ingibjörg varð kennari og kenndi í Ísaksskóla starfsævina á enda. Ingibjörg var róttæk kven- frelsis- og baráttukona og átti ekki langt að sækja það. Skúli Thoroddsen alþingismaður og Teódóra Thoroddsen skáldkona voru móðurafi hennar og –amma. Móðursystir hennar Katrín Thoroddsen var meðal fyrstu kvenna til að gegna starfi læknis hér á landi og sat einnig á þingi um skeið fyrir Sósíal- istaflokkinn. Ingibjörg var vinstrikona eins og hún átti kyn til og mikill náttúruunnandi og umhverfissinni. Hún ferðaðist bæði til Rússlands og Kúbu þar sem hún vann við akuryrkju hjá Castró eitt sumarið. Það er margs að minnast þeg- ar Ingibjörg Ýr hefur kvatt þetta jarðlíf. Ég minnist enda- lausrar hlýju hennar í minn garð og er henni óendanlega þakklát fyrir að hafa séð til þess að ég kynntist föður mínum og hálfsystkinum, sem urðu með árunum fleiri og fleiri. Án henn- ar hefði ég tæpast gert það. Karlmenn þeirra tíma voru ekki beint að sinna börnum og búi, hvað þá börnum sem fæddust utan hjónabands. Það var gott að koma í Barmahlíðina og seinna Hvassaleitið, þar sem Ingibjörg réð ríkjum. Mér þykir veröldin tómlegri án hennar. Hún er ein þeirra kvenna sem voru hluti af lífi mínu frá því ég var barn og eru nú óðum að kveðja. Nú er komið að leiðar- lokum og ég þakka Ingibjörgu Ýri fyrir samfylgdina. Blessuð sé minning hennar. Erna Indriðadóttir. Ingibjörg Ýr Pálmadóttir var fyrsta konan sem gegndi emb- ætti forseta Framtíðarinnar í MR. Hún fór fyrir stjórn sem var að öllu leyti skipuð konum en það er einsdæmi í sögu fé- lagsins. Skólaárið 1948-1949 var óánægja meðal kvenkyns nem- enda vegna framkomu strák- anna í skólanum. Þær sögðust hafa orðið fyrir aðkasti af hálfu strákanna og sögðu að þeir ein- okuðu félagslífið sem þótti auk þess allt of einhæft undir þeirra stjórn. Stelpurnar stofnuðu því Málfundafélag menntaskóla- stúlkna í nóvember 1948 og var Ingibjörg þar í forystuhlutverki auk Ragnhildar Helgadóttur, Hrefnu Sigvaldadóttur og Vig- dísar Finnbogadóttur. Það var síðan Ingibjörg sem leiddi kvennalista sem bauð fram til stjórnar Framtíðarinnar um vorið. Listinn náði góðum ár- angri og fékk flest atkvæði en ásamt Ingibjörgu voru þrjár aðrar stelpur kosnar í stjórn. Þeir tveir strákar sem náðu kjöri eiga að hafa verið svo ósáttir við þessa þróun mála að þeir afþökkuðu sætin sín. Konur sátu því í öllum stjórnarsætun- um þetta árið. Mikill baráttu- andi einkenndi þessi ár og er vert að taka fram að stelpur voru á þessum tíma enn minni hluti nemenda í MR sem gerir árangurinn enn glæstari. Ingi- björg var síðasti eftirlifandi meðlimur þessarar sögulegu stjórnar frá 1949. Ingibjörg hefur lengi verið í hávegum höfð meðal nemenda í MR og var oft beðin um að taka þátt í ýmsum viðburðum og koma í viðtöl. Þegar við und- irrituð vorum í stjórn félagsins héldum við upp á 130 ára afmæli Framtíðarinnar í ársbyrjun 2013. Ingibjörg tók vel í beiðni okkar um að taka þátt í hátíð- arhöldunum og mætti í viðtal sem fram fór á sviði fyrir fram- an áhorfendur í Cösukjallara. Framkoma Ingibjargar vakti mikla lukku meðal nemenda og var virkilega gaman að hlusta á hana spjalla um Framtíðina, menntaskólaárin og annað sem bar á góma. Hún lýsti t.d. há- værum deilum á málfundum Framtíðarinnar um aðild Ís- lands að NATO, m.a. á málfundi 30. mars 1949, sama dag og hin frægu mótmæli áttu sér stað á Austurvelli. Sjálf áttum við í góðum samskiptum við Ingi- björgu og einkenndist viðmót hennar af hlýju og hjálpsemi. Þá tók hún þátt í viðburði ár- ið 2019 þegar haldið var upp á að 70 ár voru liðin frá kjöri hennar. Í tilefni þess komu sam- an átta af þeim 11 konum sem fram að því höfðu gegnt emb- ætti forseta Framtíðarinnar. Við þökkum Ingibjörgu fyrir ómetanlegt framlag til Framtíð- arinnar, bæði meðan hún var sjálf í menntaskóla en ekki síst fyrir að hafa tekið vel í fjöl- margar beiðnir um viðtöl og annað frá okkur sem á eftir komum. Fjölskyldu og aðstand- endum vottum við innilega sam- úð. Stjórn Framtíðarinnar 2012- 13, Arnór Gunnar, Lilja Dögg, Sigríður, Jónas Atli og Pétur. Ingibjörg Ýr Pétursdóttir lést 23. júlí 2021 í faðmi stór- fjölskyldu sinnar. Hún kenndi með okkur við Skóla Ísaks Jóns- sonar um áratuga skeið. Engum duldist að þarna var á ferð mik- ill og sterkur persónuleiki sem eftir var tekið, enda átti hún ættir að rekja til stórmenna og ólst upp við þulur og ævintýri sem formæður hennar voru svo ríkar af og íslenska þjóðin geymir enn í hugskoti sínu til langrar framtíðar. Ingibjörg og eiginmaður hennar, Indriði, eignuðust fjölda barna, sem öll urðu mætustu menn. Þau urðu öll elsk að móður sinni og laun- uðu henni vel handleiðslu henn- ar frá því fyrsta. Sérstaka um- hyggju og alúð sýndi henni dóttir hennar, Dagný Bergþóra. Þegar Ingibjörg var orðin alls ófær um að sjá um sig sjálf vegna veikinda gerðu þær mæðgur sér yndislegt heimili saman, þar sem þarfir og óskir Ingibjargar sátu öllu ofar. Að því kom að Ingibjörg þurfti að flytjast á sjúkrastofnun, en þeg- ar samfélagsaðstæður breyttust og Covid-veiran gerði Dagnýju atvinnulausa tók hún fárveika móður sína aftur heim í hlýja hreiðrið, þótt fyrir lægi að hún kæmist ekki aftur í það skjól, ef hún yfirgæfi það. Þar með fékk þessi stóra fjölskylda að um- faðma hana til síðustu stundar á því heimili sem henni hafði liðið best síðustu árin. Áhrif Ingi- bjargar á afkomendur sína og nemendur skólans okkar munu verða þeim gott veganesti til framtíðar. Fyrir hönd fyrrverandi skóla- stjóra Skóla Ísaks Jónssonar og samkennara, Herdís Egilsdóttir. Elsku amma mín. Það er orð- ið svolítið síðan ég fór að óska þess að þú fengir hvíld en samt er tilveran án þín tómleg og skrýtin. Þú varst svo glaðlynd og geðgóð með glettið blik í aug- unum og ein klárasta manneskja sem ég hef kynnst. Og það voru forréttindi að fá að kynnast þér. Þrátt fyrir að alast upp úti á landi var ég svo heppin að fá að eyða töluverðum tíma með ykk- ur afa í Barmahlíðinni þegar ég var lítil. Þá fékk ég oft að gista uppí hjá þér. Neðst í bókahill- unni þinni var fullt af æðislegum sögum sem voru bara til í Barmó eins og Varenka, Fjöður hauksins hugprúða og sögurnar um litla tígrisdýrið og litla björninn. Svo fékk ég líka að koma með þér í Ísaksskóla þeg- ar þú varst að kenna og það var mikið ævintýri. Það var æðislegt að vera í Barmó, það var góður andi þar og mér fannst ég vera örugg, þið afi voruð svo vitur og góð eins og tveir óbifanlegir máttarstólpar. Nú eruð þið bæði farin og það er eiginlega alveg hræðilegt en ég get yljað mér við minningarnar. Ég man eftir þér í borðstofunni að hlusta á morgunútvarpið í víða bleika bolnum sem á stóð Á haugana með grútmyglaða afganga feðraveldisins. Ég man eftir öll- um sundferðunum og að vera með þér í Reykjakoti. Ég man þegar ég hitti þig á mótmælum niðri í bæ, þú varst með grænu alpahúfuna þína og við báðar veifandi grænum fánum. Ég man þegar pabbi sagði hinn stórkostlega brandara um síð- asta lag fyrir fréttir sem þú varst ennþá að flissa yfir mörg- um árum seinna. Þegar ég flutti í bæinn og byrjaði í háskóla kom ég oft í heimsókn til þín í Hvassaleitið og fékk að vera í mat og gista. Það var gott að eiga skjól hjá þér. Þú hjálpaðir mér að kaupa fyrsta píanóið mitt og komst á eins marga tónleika og þú gast. Mér finnst erfitt að koma því í orð hvað þú gerðir mikið fyrir mig og hvað þú varst mér góð. En ég verð alltaf stolt af því að heita í höfuðið á þér og mun reyna eins og ég get að standa undir nafninu þínu með því að grínast og bulla og reyna að taka sjálfa mig ekki of alvar- lega. Ég hlakka til að faðma þig á bláu eyjunni. Flýg ég og flýg yfir furuskóg, yfir mörk og mó, yfir mosató, yfir haf og heiði, yfir hraun og sand, yfir vötn og vídd, inn á vorsins land. Flýg ég og flýg yfir fjallaskörð, yfir brekkubörð, yfir bleikan svörð, yfir foss í gili, yfir fuglasveim. yfir lyng í laut inn í ljóssins heim. (Hugrún) Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir. MINNINGAR 17 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. ÁGÚST 2021

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.