Morgunblaðið - 23.09.2021, Side 28
VIÐTAL
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Við keyptum hérna jörð árið 2010
og svo hefur þetta bara smávaxið
hjá okkur og nú erum við með
stærsta sauðfjárbúið í Møre og
Romsdal,“ segir Vignir Arnarson
frá Sandgerði, íslenskur bóndi í
Farstad á vesturströnd Noregs, í
samtali við Morgunblaðið, en þau
Katrín Markúsdóttir, kona hans frá
Bolungarvík, eiga þar býsna margt
á fjalli eins og sagt er, á fimmta
hundrað kindur.
„Þetta er fullt starf hjá mér en við
reyndar flytjum einnig inn innrétt-
ingar í fjárhús og seljum hér í Nor-
egi og til Færeyja,“ segir Vignir frá,
en hann er menntaður kjötiðnaðar-
maður. „Það byrjaði nú eiginlega
þannig að ég var dálítið á undan
minni samtíð hérna og vildi létta
mér störfin í fjárhúsinu í stað þess
að vera að aka hjólbörum eins og
einhver afdalabóndi,“ segir hann frá
upphafi Hollandsinnflutningsins.
Málin hafi fljótlega þróast þannig
að talsmenn hollenska framleiðand-
ans settu sig í samband við þau
Katrínu til að kanna áhuga þeirra á
að gerast umboðsaðilar í Noregi og
þau slógu til, en þarna er um að
ræða hollenska fyrirtækið Venostal,
sem er hvorki meira né minna en
stærsti framleiðandi fjárhúsainn-
réttinga og selur vörur sínar um
alla Evrópu og víðar. „Við fórum
hægt af stað í byrjun en svo jókst
þetta og gengur núna alveg glimr-
andi, þetta er alltaf að vaxa og
vaxa,“ segir bóndinn frá Suð-
urnesjum, sem upphaflega flutti til
Noregs árið 1997.
Þurfti að bóka tíma
„Svo skildi ég og fór til baka og
var á Íslandi í nokkur ár, en þreifst
ekki almennilega þar svo ég náði
mér í aðra konu og dró hana með
mér út til Noregs,“ segir Vignir frá,
en Katrín flutti út árið 2009. Áður
hafði Vignir haft búsetu í Askim, þá
í fylkinu Østfold, sem nú heitir Vik-
en eftir fylkjasameininguna árið
2020. Hann kveðst þó kunna mun
betur við sig í Møre og Romsdal,
þar sé mjög opið samfélag og fólkið
yndislegt. „Í Østfold var þetta
þannig að þú þurftir að bóka tíma ef
þú ætlaðir eitthvað í heimsókn, en
þannig er það nú ekki hér,“ segir
Vignir glettnislega.
Talið berst þá eðlilega að frænd-
þjóðunum tveimur, Norðmönnum
og Íslendingum, og muninum á
þeim. „Ja, ég er nú búinn að vera
hér svo lengi að ég er orðinn sam-
dauna þessu öllu saman, en mun-
urinn er á mörgum sviðum, hug-
arfarið er töluvert öðruvísi hér en á
Íslandi. Við Íslendingar erum mun
harðari við okkur og tökum hlutina
með sparki eins og maður segir á
meðan Norðmenn fara sér hægar og
verja miklu púðri í að planleggja
áður en framkvæmt er,“ segir
Vignir.
Nú er það alkunna að norsk mat-
armenning hefur ekki átt greiða
leið að hjarta allra íslenskra inn-
flytjenda og hefur blaðamaður á
sínum rúmu ellefu árum í Noregi
fengið að heyra ríflega af því. Vign-
ir býður upp á sögu. Á árum áður
var hann rekstrarstjóri hjá stóru
fyrirtæki í Kolbotn, Samlerhuset,
sem er eitt það stærsta í heimi á
sviði mynt- og frímerkjasölu til
safnara, en þangað reyndist þraut-
in þyngri að ráða fólk eitt skiptið
þegar þörf var á.
„Við fengum ekki fólk hérna í
Noregi svo ég fer þá til Íslands, tek
viðtöl og svo fáum við með okkur út
einhver ellefu eða tólf stykki sem
fluttu hingað út og margt þessa
fólks býr hér enn.
Ég man einmitt eftir því þegar
þessi hópur var nýkominn að þá
voru allir að kvarta yfir mat. Það
var ekki til þetta og ekki til hitt,
sem lagðist þungt á hópinn. En
þetta fer nú bara eftir hugarfarinu
og hvernig þú ert í rauninni. Maður
hefur náttúrulega oft heyrt Íslend-
inga hér tala um að allt sé betra á
Íslandi og þá spyr maður sig eig-
inlega bara: „Nú af hverju ertu þá
ekki bara heima hjá þér?““ segir
Vignir og hlær við. „Þetta hefur
alla vega aldrei plagað mig neitt, ég
er mjög ánægður með allan mat
hérna, en ég er náttúrulega löngu
farinn að líta á mig meira sem Norð-
mann en Íslending eftir allan þenn-
an tíma hérna,“ játar hann.
Vann í SS á Skúlagötu
Skyldi þá ganga vel að draga fram
lífið á norsku sauðfjárbúi? „Já já, við
gerum það bara gott,“ svarar Vignir
að bragði, „helmingurinn af okkar
tekjum kemur frá slátrun og hinn
helmingurinn er svo í formi styrkja,
þetta gengur bara vel,“ segir bónd-
inn og játar að hann hafi lengi
dreymt um bústörf þótt hann hafi
ekki stundað þann kima atvinnulífs-
ins á Íslandi, ferillinn hófst í Møre
og Romsdal, en á Íslandi starfaði
hann í hinu fornfræga Sláturfélagi
Suðurlands á Skúlagötu, sem var og
hét, hóf þar störf 1988 og lauk náms-
samningi sínum þar í kjötiðninni áð-
ur en hann stofnaði eigið fyrirtæki í
Keflavík.
Bannað að vera góður
Nú ljóstrar Vignir því upp að
hann sé knattspyrnuþjálfari ofan á
bústörf og innflutningsfyrirtæki.
„Ég er að þjálfa hérna stráka sem
eru tíu og ellefu ára þrisvar sinnum í
viku, ég var sjálfur í fótbolta á yngri
árum, en var nú aldrei neitt sér-
staklega góður held ég,“ segir Vign-
ir, sem fæddur er 1966 og virðist
hafa aðgang að fleiri tímum sólar-
hringsins en hinum hefðbundnu 24.
„Og það er nú annað, sem við höf-
um oft talað um hérna og snertir
þetta ólíka „mentalitet“ Íslendinga
og Norðmanna. Hér er næstum því
ekki leyfilegt að vera góður, þú átt
helst ekki að vera góður, enginn á að
skara fram úr, allir eiga að vera jafn-
ir. Við erum með fullt af strákum,
sem fá ekki að blómstra, við fáum
ekki að þjálfa þá eins og við viljum,“
segir Vignir og nefnir Janteloven
svokölluðu, lífsreglurnar tíu, sem
dansk-norski rithöfundurinn Aksel
Sandemose setti fram árið 1933 í bók
sinni En flyktning krysser sitt spor,
en hið fyrsta af þeim tíu boðorðum
er „Þú skalt ekki halda að þú sért
eitthvað.“
Telur hann líklegt að hann verði í
Noregi þar til dauðans óvissi tími
vitrast honum. „Já já, ég geri alveg
ráð fyrir því,“ svarar Vignir og hlær,
„en ég á þrjár dætur á Íslandi
reyndar og tvö barnabörn. Ein dótt-
ir mín er mjög veik og búin að vera í
mörg ár, svo ég fer oft til Íslands, en
hef lítið komist síðasta árið út af Co-
vid, en hún var hérna töluvert þegar
hún var í ástandi til þess, yfirleitt al-
veg fjóra til sex mánuði á ári,“ segir
Vignir, en dóttirin þjáist af batten-
sjúkdómi, efnaskiptasjúkdómi, sem
leggst á börn og lýsir sér í hrörnun
taugakerfisins og verulega skertum
lífslíkum auk þess að valda blindu,
en eitt af hverjum 100.000 börnum
fæðist með sjúkdóminn. Ofan á
þennan harm hefur Vignir misst
fjögurra ára son, sem varð bráð-
kvaddur í svefni.
Stundar fjallgöngur grimmt
„Ég á fullt af börnum, við Katrín
eigum fjögur saman auk þess sem ég
gekk hennar börnum í föðurstað og
svo á ég þessi þrjú á Íslandi og son,
sem býr hérna, en reyndar ekki hjá
okkur, hann er fluttur út,“ útskýrir
Vignir fjölskyldutengsl sín, en
kveðst ekki vera í miklum tengslum
við aðra Íslendinga í Noregi, helst
félaga sinn Óskar Þorkelsson, sam-
starfsmann hjá SS í gamla daga.
„Maður dettur út úr þessu með tím-
anum og er bara með sína fjöl-
skyldu,“ segir Vignir, sem stundar
fjallgöngur af miklum móð þá sjald-
an hann er ekki á kafi í öllu öðru sem
hann fæst við. „Ég reyni að nota all-
an minn tíma í það, strákarnir mínir
koma með mér, þeir eru mjög dug-
legir í þessu,“ segir Vignir Arnarson
að skilnaði, bóndi, bústólpi, knatt-
spyrnuþjálfari og innflytjandi fjár-
húsainnréttinga í Møre og Romsdal.
Vignir gerðist norskur bóndi
- Rekur stærsta sauðfjárbú í Møre og Romsdal - Flytur inn fjárhúsainnréttingar frá Hollandi og
þjálfar knattspyrnu - Miklu munar á hugsunarhætti frændþjóða - Fjallgöngugarpur í frístundum
Ljósmyndir/Úr einkasafni
Fjölskyldan Hópurinn samankominn, standandi frá vinstri eru Vignir, Ágúst Helgi, Jón Elí, Kristín Birna og Katrín Dröfn. Börn, frá vinstri talið, eru:
Örn Ómar, Björgmundur Steinar og tvíburarnir Viggó Freyr og Arndís Una. Á myndina vantar Víking Örn sem er nýfluttur að heiman.
Á fjöllum Vignir með fulltrúa búfjár
síns úti í guðsgrænni náttúrunni.
Ær á jötu Vignir á stærsta sauðfjárbú í Møre og Romsdal í Noregi. Alls eru
hans og kona hans, Katrín Markúsdóttir, með á fimmta hundrað kindur.
28 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. SEPTEMBER 2021
withMemory
Foam
SMÁRALIND - KRINGLAN - SKÓR.IS
HLAUPASKÓR MEÐ GÓÐU
GRIPI