Morgunblaðið - 24.09.2021, Blaðsíða 14
14 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 24. SEPTEMBER 2021
Brunahætta í gömlum kirkjum
- Minjastofnun og Mannvirkjastofnun gáfu út leiðbeiningar um brunavarnir í friðlýstum kirkjum
- Gera á viðbragðsáætlanir vegna gömlu kirknanna - Friðlýstar kirkjur á þriðja hundrað talsins
Morgunblaðið/ÞÖK
Krýsuvíkurkirkja Kveikt var í kirkjunni 2010 en ný byggð í hennar stað.
Miðgarðakirkja Kirkjan í Grímsey var mjög falleg en er nú brunnin.
Morgunblaðið/Myndasafn
Heydalir Gamla kirkjan brann til kaldra kola 1982. Þá var risin ný kirkja.
Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Vallakirkja Kirkjan var endurbyggð eftir brunann 1996 og er glæsileg.
Morgunblaðið/Úlfar Ágústsson
Ísafjarðarkirkja Eldsvoðinn 1987 olli miklum skemmdum á kirkjunni.
SVIÐSLJÓS
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Friðlýstar kirkjur á Íslandi voru 216
talsins árið 2018, samkvæmt upplýs-
ingum á vef Minjastofnunar. Þar á
meðal voru 208 kirkjur sem voru
reistar fyrir 1918 og voru sjálfkrafa
friðlýstar. Eins átta kirkjur sem
menntamálaráðherra hafði friðað að
tillögu Húsafriðunarnefndar.
Pétur H. Ármannsson, arkitekt og
sviðsstjóri hjá Minjastofnun, segir að
öll hús sem eru orðin aldargömul eða
meira njóti friðunar. Auk þessa er
vernd á öllum kirkjum sem voru
byggðar 1940 eða fyrr. Margar stein-
steyptar kirkjur falla þar undir, með-
al annars kirkjur sem teiknaðar voru
hjá Húsameistara ríkisins.
„Gömlu timburkirkjurnar hafa
fengið tiltölulega góða umönnun. Það
er búið að leggja mikla vinnu og fjár-
muni í endurgerð á elstu timbur-
kirkjunum frá 19. öld og fram að
1918. Það eru ekki margar þeirra í
reiðileysi. Svo kemur tímabilið eftir
1920 þegar reistar voru margar stein-
steypukirkjur. Þar held ég að ástand-
ið sé miklu verra og þær hafi ekki
fengið sömu athygli og elstu kirkj-
urnar,“ segir Pétur.
Leiðbeiningar liggja fyrir
Varðandi kirkjubruna segir Pétur
að Minjastofnun hafi í samvinnu við
Mannvirkjastofnun samið leiðbein-
ingar um brunavarnir í friðlýstum
kirkjum. Þar eru ýmsar hagnýtar
ábendingar til að koma í veg fyrir að
eldur kvikni. M.a. er bent á að bruna-
viðvörunarkerfið með reykskynjur-
um sé mikilvæg brunavörn. Einnig
geti verið nauðsynlegt að koma fyrir
slökkvikerfi, sérstaklega þegar langt
er í slökkvilið.
Nýverið var gefinn út leiðarvísir
um gerð viðbragðsáætlunar við vá í
friðlýstum kirkjum. Þar eru sóknar-
nefndir hvattar til að skrá niður
mikilvægustu kirkjumuni og ákveða
hverju eigi að bjarga og í hvaða röð ef
munir kirkjunnar lenda í hættu, t.d.
vegna eldsvoða eða náttúruhamfara.
Þessi skjöl er að finna á heimasíðu
Minjastofnunar undir gagnasafn og
leiðbeiningarit.
„Það þyrfti líka að gera úttekt á
ástandi raflagna í öllum gömlum
kirkjum. Það er allur gangur á því
hvernig ástandið er á þeim,“ segir
Pétur, sem telur líkur benda til þess
að rafmagn hafi valdið brunanum í
kirkjunni í Grímsey í vikunni.
Þrenns konar hætta algeng
Hann segir hættuna á að eldur
komi upp í gömlum kirkjum aðallega
vera þrenns konar.
„Það er rafmagnið og það er víða
orðið mjög gamalt og ófullkomið.
Önnur hættan er þegar iðnaðarmenn
eru að vinna í kirkjum, sérstaklega
málarar. Mörg efni sem þeir nota eru
mjög eldfim, ekki síst línoleummáln-
ing. Hún er alveg stórhættuleg.
Tuskurnar sem notaðar eru til að
þrífa áhöldin eftir vinnu með hana má
alls ekki geyma inni í kirkjunum.
Bruninn í Vallakirkju varð vegna
málaravinnu,“ segir hann. Þriðja
hættan sé íkveikjur, erfitt geti verið
að ráða við þær.
Hann segir flóttaleiðir í mörgum
gömlum kirkjum ekki vera í sam-
ræmi við nútímakröfur. „En það
verður að segjast eins og er að ég
man ekki eftir tilviki þar sem eldur
kom upp í kirkju meðan á athöfn stóð
eða í tengslum við athöfn. Það eru
eiginlega minnstu líkurnar á því ef vel
er um gengið,“ segir Pétur.
Hann nefnir að mikið hafi dregið
úr kertanotkun. Í leiðbeiningum er
m.a. nefnt að eiginlega enginn annar
en meðhjálpari eigi að kveikja á kert-
um í gömlum timburkirkjum. Auk
þess eru komin rafhlöðukerti sem
draga mjög úr eldhættunni.
Miðgarðakirkja í Grímsey brann til grunna
að kvöldi þriðjudagsins 21. september sl. Tal-
ið er að rekja megi eldsupptök til rafmagns.
Kirkjan var byggð árið 1867 og þótti glæsi-
leg. Grímseyingar vilja byggja nýja kirkju
svipaða þeirri sem brann. Byrjað er að safna
fé til kirkjubyggingarinnar.
Hér eru rifjaðir upp helstu kirkjubrunar
sem urðu síðustu hálfa öldina.
Kveikt í Krýsuvíkurkirkju 2010
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola að-
faranótt 2. janúar 2010. Fjögur ungmenni ját-
uðu að hafa kveikt í kirkjunni. Hún var
byggð úr timbri árið 1857 og notuð sem
sóknarkirkja til 1910. Krýsuvíkurkirkja var
aflögð sem guðshús 1917 og notuð til íbúðar
frá 1929. Henni var aftur breytt í guðshús og
hún færð Þjóðminjasafninu til varðveislu
haustið 1964. Viðamiklar viðgerðir voru
gerðar á kirkjunni árið 1986 og hún færð til
upprunalegrar gerðar.
Nemendur Tækniskólans endursmíðuðu
nýja Krýsuvíkurkirkju og var hún sett upp í
október 2020.
Vallakirkja brann 1996
Vallakirkja að Völlum í Svarfaðardal brann
árið 1996. Kirkjan var reist úr timbri árið
1861. Unnið hafði verið að endurbótum á
kirkjunni. Verkinu var að mestu lokið og bú-
ið að koma kirkjumunum fyrir þegar kvikn-
aði í. Skemmdir voru svo miklar að lá við
gjöreyðileggingu. Fjársöfnun hófst og var
kirkjan endurbyggð og nýja kirkjan vígð árið
2000.
Ísafjarðarkirkja brann 1987
Ísafjarðarkirkja stórskemmdist í eldi að-
faranótt 27. júlí 1987. Ekki var talið borga
sig að gera við hana.
Slökkvilið kom fljótt á vettvang eftir að
vart varð við eldinn snemma morguns. Þá var
eldur farinn að teygja sig út úr kirkjunni. Að-
aleldurinn var í viðbyggingu sem hýsti pípu-
orgel og í kórnum. Flestar eigur kirkjunnar
eyðilögðust eða skemmdust mikið. Það tók 24
manna slökkvilið um 90 mínútur að slökkva
eldinn.
Eyrarkirkja í Skutulsfirði var vígð 16.
ágúst 1863. Ísafjarðarkaupstaður tók við
rekstri kirkjunnar árið 1872 og hét hún Ísa-
fjarðarkirkja eftir það. Ný Ísafjarðarkirkja
var byggð í stað gömlu kirkjunnar og var
vígð 1995.
Heydalakirkja brann 1982
Gamla Heydalakirkja í Breiðdal brann til
kaldra kola 17. júní 1982. Þá var búið að taka
í notkun nýja kirkju sem var vígð 13. júlí
1975 og var gamla kirkjan afhelguð um leið.
Miklabæjarkirkja brann 1973
Miklabæjarkirkja í Skagafirði eyðilagðist í
eldsvoða 17. febrúar 1973. Margir merkir
kirkjugripir eyðilögðust.
Séra Sigfús Árnason sagði Morgunblaðinu
að kveikt hefði verið upp í kolaofni í kirkj-
unni því von var á börnum til spurninga
þennan dag. Um klukkan 12.30 varð eldsins
vart og brann kirkjan til kaldra kola án þess
að neinu væri hægt að bjarga. Kirkjan var
byggð 1894. Þegar bruninn varð var bygging
nýrrar kirkju að Miklabæ vel á veg komin og
og var hún vígð síðar á árinu 1973.
Helstu kirkjubrunar síðustu 50 árin